Bréf frá deildarskrifstofunni
Kæru boðberar.
Það var ánægjulegt að sjá að boðberum skuli hafa fjölgað hér á landi á nýliðnu þjónustuári og að mikið og gott starf var unnið. Sérstaklega er eftirtektarvert hve margir hafa boðið sig fram til brautryðjandastarfs. Brautryðjendum fjölgaði úr 10 í 20 fyrstu 9 mánuði þjónustuársins. Á þessu tímabili tóku 9 þátt í aðstoðarbrautryðjandastarfinu að meðaltali í hverjum mánuði. Ef við teljum trúboða, sérbrautryðjendur og betelíta með tóku 48 einstaklingar þátt í einhverri grein þjónustunnar í fullu starfi í hverjum mánuði. Það er yfir 17% af boðberum landsins. Einnig voru 572 viðstaddir minningarhátíðina en það er meira en 5% aukning frá síðasta ári.
Þúsundir votta Jehóva um heim allan þjóna sem brautryðjendur þar sem þá langar ekki að lifa fyrir sjálfa sig. (2. Kor. 5:15) Aðrir geta ekki þjónað í fullu starfi aðstæðna vegna en þeir glæða engu að síður með sér brautryðjandaanda og styðja boðunarstarfið eftir bestu getu.
Jehóva er staðráðinn í að láta fagnaðarerindið óma „um alla heimsbyggðina“ áður en endirinn kemur. (Matt. 24:14) Víða hér á landi búa engir eða fáir boðberar Guðsríkis. Er sú vitneskja hvatning fyrir þig til að flytja þangað sem þörfin er meiri, ef þú hefur tök á?
Nýja bókin, Hvað kennir Biblían?, sem við fengum á landsmótinu, vakti mikla hrifningu. Hún er skrifuð í þeim tilgangi að hjálpa mönnum að kynnast sannleikanum, hlýða fagnaðarerindinu og öðlast hjálpræði. Skýr og áhrifarík framsetning hennar á sannindum Biblíunnar mun höfða til allra sem langar til að þóknast Guði. Þetta nýja hjálpargagn mun áreiðanlega reynast lyftistöng fyrir boðunarstarfið.
Ötult starf ykkar í þágu safnaðarins er lofsvert og fjárhagslegur stuðningur ykkar er mikils metinn. (Orðskv. 3:9, 10) Það er bæn okkar að Jehóva haldi áfram að blessa viðleitni þjóna sinna að „vera dýrð hans til vegsemdar.“ — Ef. 1:12.
Bræður ykkar,
Deildarskrifstofa Votta Jehóva á Íslandi