Allir geta átt þátt í að gera menn að lærisveinum
1 Nýr lærisveinn er ekki bara starfi einhvers eins að þakka. Jehóva getur notað alla „samverkamenn“ sína til að aðstoða biblíunemendur við að taka framförum í trúnni. (1. Kor. 3:6-9) Við getum sjálf hjálpað nýjum með einlægum svörum á safnaðarsamkomum og sömuleiðis góðri hegðun sem ber þess glöggt vitni að andi Guðs starfi í lífi okkar. (Jóh. 13:35; Gal. 5:22, 23; Ef. 4:22, 23) Hvað fleira er hægt að gera til að hjálpa nýjum?
2 Sem söfnuður: Við getum öll sýnt þeim sem byrja að sækja samkomur áhuga með því að heilsa þeim hlýlega að fyrra bragði og spjalla við þá fyrir og eftir samkomur. Maður nokkur minntist þess þegar hann hafði fyrst samband við söfnuðinn og sagði: „Ég ræddi á einum degi við fleira bláókunnugt fólk, sem var mjög vingjarnlegt, en ég hafði nokkurn tíma rætt við í kirkjunni sem ég hafði sótt frá því ég var barn. Það var augljóst að ég hafði fundið sannleikann.“ Hann lét skírast sjö mánuðum eftir að hann kom fyrst á samkomu.
3 Hrósum hinum nýja einlæglega þegar hann tekur framförum í trúnni. Hefur biblíunemandi mætt andstöðu? Sækir hann samkomur reglulega? Hefur hann safnað kjarki og svarað á samkomu? Hefur hann látið skrá sig í Boðunarskólann eða er hann farinn að taka þátt í boðunarstarfinu? Hrósum honum fyrir þær framfarir sem hann hefur tekið. Það er hvetjandi og uppörvandi fyrir hann. — Orðskv. 25:11.
4 Sem kennarar: Sumir boðberar hafa hjálpað biblíunemendum sínum að kynnast ýmsum í söfnuðinum með því að bjóða öðrum boðberum að taka þátt í biblíunámskeiðinu. Bjóðum nemandanum á safnaðarsamkomur eins fljótt og hægt er. Kynnum hann markvisst fyrir öðrum þegar hann fer að sækja samkomur. Er hann að strita við að leggja af slæman ávana svo sem reykingar? Hefur einhver á heimili hans á móti því að hann sé að fræðast um Biblíuna? Þá gæti verið gagnlegt fyrir hann að ræða við boðbera sem hefur sigrast á sams konar erfiðleikum. — 1. Pét. 5:9.
5 Nýir þurfa á andlegum stuðningi safnaðarins að halda. Allir geta hjálpað þeim að taka framförum með því að sýna þeim einlægan áhuga.