Kennum á sannfærandi hátt
1. Hvernig eigum við að nota orð Guðs í boðunarstarfinu?
1 Duglegir boðberar skilja, eins og Páll postuli, að það er mikilvægt að fara „rétt með orð sannleikans“. (2. Tím. 2:15) En það felur meira í sér en að vitna aðeins í Biblíuna. Hvernig getum við notað orð Guðs til að reyna að sannfæra aðra um sannleikann? — Post. 28:23.
2. Hvernig getum við aukið virðingu fólks fyrir orði Guðs?
2 Sýndu hvað stendur í Biblíunni: Í fyrsta lagi skaltu beina athyglinni að Biblíunni á þann hátt að það skapi virðingu fyrir viskunni sem hún hefur að geyma. Þegar hlustandinn heyrir að við treystum Biblíunni gæti það hvatt hann til að veita því nána athygli sem stendur í henni. (Hebr. 4:12) Við gætum sagt: „Mér hefur fundist mjög gott að fá afstöðu Guðs til þessa máls. Sjáðu hvað stendur hérna.“ Hvenær sem hægt er skaltu láta orð Guðs koma fram með því að lesa beint upp úr Biblíunni.
3. Hvað er hægt að gera til að viðmælandi skilji merkingu ritningarstaðarins sem hefur verið lesinn?
3 Í öðru lagi skaltu útskýra ritningarstaðinn sem þú lest. Margir eiga erfitt með að skilja ritningarstað í fyrsta sinn sem hann er lesinn. Venjulega þarf að útskýra hvernig hann tengist því sem er til umræðu. (Lúk. 24:26, 27) Beindu athyglinni að aðalorðunum. Með spurningu væri hægt að staðfesta að viðkomandi hafi alveg skilið það sem um er rætt. — Orðskv. 20:5; Post. 8:30.
4. Hvert er síðasta skrefið sem er nauðsynlegt til að reyna að sannfæra fólk?
4 Rökræddu út frá Biblíunni: Í þriðja lagi skaltu reyna að ná til hugans og hjartans. Hjálpaðu húsráðanda að sjá hvernig ritningarstaðurinn eigi við hann sjálfan. Að rökræða út frá Biblíunni getur orðið til þess að fólk breyti um skoðun. (Post. 17:2-4; 19:8) Ef við höfum lesið 2. Mósebók 6:3, neðanmáls, getum við til dæmis sagt að mikilsvert sé að þekkja nafn þess sem við ætlum að eignast persónulegt samband við. Síðan getum við spurt: „Heldurðu að bænir þínar yrðu innihaldsríkari ef þú þekkir nafn Guðs?“ Þegar ritningarstaðirnir eru látnir tengjast lífi húsráðandans áttar hann sig á gildi þeirra. Með því að kenna Guðs orð á sannfærandi hátt getum við vakið löngun hjá einlægu fólki til að tilbiðja Jehóva, hinn eina sanna og lifandi Guð. — Jer. 10:10.