Geturðu hjálpað vantrúuðum maka einhvers í söfnuðinum að kynnast sannleikanum?
1. Hverjum er annt um að vantrúaðir makar trúsystkina okkar taki við sannleikanum?
1 Eru einhverjir í söfnuðinum þínum í þeirri aðstöðu að maki þeirra er ekki í trúnni? Þá þrá þeir eflaust að makinn sameinist þeim í sannri tilbeiðslu. En þeir eru ekki einir um það. Bræður og systur í söfnuðinum vilja, líkt og Guð, að „allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum“. (1. Tím. 2:4) Hvernig getum við nálgast þá sem eru giftir trúsystkinum okkar en eru ekki sjálfir í trúnni?
2. Hvernig getur viska og skynsemi auðveldað okkur að nálgast vantrúaðan maka einhvers í söfnuðinum?
2 Það er gott að byrja á því að reyna að setja sig í spor þeirra sem eru ekki í trúnni. Þeir elska eflaust fjölskyldur sínar og leggja hart að sér í hjónabandinu og foreldrahlutverkinu. Kannski eru þeir einlægir í sinni trú þótt hún sé frábrugðin okkar. Þeir vita ef til vill lítið um Votta Jehóva og kannski byggist sú vitneskja á því sem illa upplýstir eða fordómafullir félagar hafa sagt þeim. Sumum gremst að trúaði makinn skuli nú verja tíma í þjónustu Guðs sem áður var varið með fjölskyldunni. Með því að vera vitur og skynsöm tekst okkur að sýna hinum vantrúaða virðingu og vinsemd án þess að vera óþarflega taugaóstyrk í návist hans. — Orðskv. 16:20-23.
3. Hvað gæti vakið áhuga vantrúaðs maka á sannleikanum?
3 Persónulegur áhugi: Til að byrja með gæti það verið hegðun okkar og framkoma, en ekki umræður um Biblíuna, sem vekja áhuga hins vantrúaða á sannleikanum. (1. Pét. 3:1, 2) Þess vegna er mikilvægt að sýna honum persónulegan áhuga. Systur í söfnuðinum gætu sýnt vantrúaðri eiginkonu áhuga og bræður gætu gert slíkt hið sama við vantrúaðan eiginmann. Hvernig er best að bera sig að?
4. Hvernig getum við sýnt hinum vantrúaða persónulegan áhuga?
4 Ef þú hefur enn ekki hitt vantrúaða makann gætirðu kannski gert það eftir að hafa ráðfært þig við það hjónanna sem er í trúnni. Misstu ekki kjarkinn þótt þú fáir í fyrstu dræm viðbrögð frá hinum vantrúaða. Ef þú sýnir honum vinsemd og persónulegan áhuga gæti hann farið að sjá votta Jehóva í betra ljósi. (Rómv. 12:20) Sumir reyndir vottar hafa boðið hinum vantrúaða og fjölskyldu hans í mat með það fyrir augum að kynnast honum betur og uppræta hugsanlega fordóma. Þeir hafa látið samræðurnar snúast um áhugamál hans í stað þess að beina þeim inn á andleg mál. Síðar meir, þegar hinn vantrúaði er orðinn afslappaðri, væri hægt að tala um biblíutengd málefni. Kannski tæki hann því vel að vera boðið á samkomu þar sem hann getur fylgst með hvað maki hans er að læra, einkum fyrst hann þekkir orðið einhverja í söfnuðinum. Jafnvel þótt hann sé ekki tilbúinn til að kynna sér sannleikann er hægt að hrósa honum fyrir þann stuðning sem hann veitir maka sínum sem er í trúnni.
5. Hvernig gætu öldungar reynt að nálgast vantrúaða?
5 Öldungar ættu öðrum fremur að reyna að nálgast vantrúaða maka og vera vakandi fyrir tækifærum til að vitna um trúna. Vantrúaður maður, sem hefur ekki verið opinn fyrir umræðum um Biblíuna, gæti viljað hlusta á huggandi orð úr Biblíunni ef hann veikist alvarlega eða leggst inn á sjúkrahús. Ef dauðsfall verður í fjölskyldu, þar sem annað hjónanna er ekki í trúnni, gætu öldungarnir boðið hinum vantrúaða að vera viðstaddur þegar þeir heimsækja fjölskylduna til að hugga hana og hughreysta.
6. Hvers vegna ættum við að reyna að hjálpa þeim sem eru ekki í trúnni að kynnast sannleikanum?
6 Hugsaðu þér hvað það myndi gleðja bróður eða systur að sjá maka sinn taka við sannleikanum. Það myndi líka gleðja Jehóva, englana og aðra safnaðarmenn. (Lúk. 15:7, 10) Ef vantrúaði makinn sýnir í fyrstu engin viðbrögð þegar við reynum að kynnast honum getum við samt glaðst yfir því að Jehóva kann að meta viðleitni okkar. Hann „vill ekki að neinn glatist heldur að allir komist til iðrunar“. — 2. Pét. 3:9.
[Innskot á bls. 6]
Til að byrja með gæti það verið hegðun okkar og framkoma, en ekki umræður um Biblíuna, sem vekja áhuga hins vantrúaða á sannleikanum.