Bæn og hugleiðing — ómissandi fyrir kappsama boðbera
1. Hvað hjálpaði Jesú að einbeita sér að aðalverkefni sínu?
1 Jesús hafði verið allt kvöldið að lækna fólk og reka út illa anda. Þegar lærisveinarnir hittu hann daginn eftir hvöttu þeir hann til að halda áfram að gera kraftaverk og sögðu: „Allir eru að leita að þér.“ En Jesús lét ekkert trufla sig né draga athyglina frá aðalverkefni sínu, að prédika fagnaðarerindið. Hann svaraði: „Við skulum fara annað, í þorpin hér í grennd, svo að ég geti einnig prédikað þar því að til þess er ég kominn.“ Hvað hjálpaði Jesú að halda einbeitingunni? Hann hafði farið snemma á fætur til að biðja og hugleiða. (Mark. 1:32-39) Hvernig getur bæn og hugleiðing hjálpað okkur til að vera kappsamir boðberar?
2. Hvað þurfum við að hugleiða til að viðhalda brennandi áhuga okkar á boðunarstarfinu?
2 Hvað er gott að hugleiða? Jesús tók eftir að fólkið var,hrjáð og umkomulaust eins og sauðir er engan hirði hafa.‘ (Matt. 9:36) Við getum á svipaðan hátt velt fyrir okkur í bæn til Jehóva hve brýnt sé að fólk fái að heyra fagnaðarerindið. Við getum leitt hugann að því hve tíminn er orðinn naumur. (1. Kor. 7:29) Við getum hugsað um eiginleika Jehóva, um það sem hann hefur gert og um þann mikla heiður að mega vera vottar hans. Hugleiðum líka þau verðmætu andlegu sannindi sem við höfum fundið í orði Guðs, en sem fólkið á starfssvæðinu hefur enn ekki kynnst. — Sálm. 77:12-14; Jes. 43:10-12; Matt. 13:52.
3. Hvenær getum við fundið tíma til hugleiðingar?
3 Að finna tíma til hugleiðingar: Sumir fara snemma á fætur á meðan allt er hljótt, eins og Jesús gerði. Öðrum finnst betra að taka frá tíma til að fara með ígrundaðar bænir á kvöldin áður en þeir fara að sofa. (1. Mós. 24:63) Þó að við séum önnum kafin er staðan ekki vonlaus. Sumir fá næði í hádegishléinu til ígrundunar. Aðrir nýta tímann þegar þeir ferðast með almenningsfarartækjum. Margir nota smá stund áður en þeir fara í boðunarstarfið til hugleiðingar og það eflir hjá þeim hugrekki og eldmóð.
4. Hvers vegna ættum við að taka okkur tíma til hugleiðingar?
4 Ef við hugleiðum í bænarhug styrkist löngun okkar til að þjóna Jehóva, við verðum einbeittari í þjónustunni og enn ákveðnari í að halda áfram að prédika. Jesús, fremsti þjónn Guðs, hafði gagn af því að hugleiða og það höfum við líka.