Hjálpaðu húsráðanda að rökhugsa
1. Hvaða aðferð er best að nota í boðunarstarfinu?
1 Hvaða aðferð er best að nota þegar við erum í boðunarstarfinu? Ættum við að vera einstrengingsleg eða ættum við að reyna að hjálpa húsráðanda að rökhugsa og draga rétta ályktun? Páll postuli notaði síðarnefndu aðferðina þegar hann talaði við Gyðinga í Þessaloníku og það varð til þess að „nokkrir þeirra létu sannfærast“. (Post. 17:2-4) Hvernig hjálpum við öðrum að rökhugsa?
2. Hvernig getum við líkt eftir Páli þegar við boðum fagnaðarerindið?
2 Hafðu í huga bakgrunn og viðhorf húsráðanda: Þegar við hjálpum öðrum að rökhugsa þurfum við að hafa viðhorf þeirra og skoðanir í huga. Þegar Páll hóf mál sitt við vantrúaða Grikki á Aresarhæð talaði hann um það sem honum þótti líklegt að þeir þekktu og viðurkenndu. (Post. 17:22-31) Þegar við undirbúum kynningu fyrir boðunarstarfið ættum við því að hafa í huga trúarkenningar og fordóma sem eru ríkjandi á svæðinu. (1. Kor. 9:19-22) Ef húsráðandi kemur með mótbáru er gott að reyna að finna sameiginlegan samræðugrundvöll og byggja á honum.
3. Hvernig getum við notað spurningar til að rökræða við aðra?
3 Vertu leikinn að nota spurningar: Við getum ekki gefið ferðamanni leiðbeiningar til að hjálpa honum að komast á áfangastað nema við vitum nákvæmlega hvar hann er staddur. Við getum ekki heldur hjálpað húsráðanda að draga rétta ályktun nema við vitum hverjar skoðanir hans eru. Jesús notaði oft spurningar til að fá fram viðhorf þeirra sem hann talaði við áður en hann byrjaði að rökræða við þá. Maður einn spurði Jesú til dæmis: „Hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“ Áður en Jesús svaraði manninum reyndi hann að draga fram viðhorf hans. (Lúk. 10:25-28) Við annað tækifæri hafði Pétur dregið ranga ályktun og þá notaði Jesús spurningar til að leiðrétta hugsunarhátt hans. (Matt. 17:24-26) Ef húsráðandi kemur með spurningu eða dregur ranga ályktun ættum við því að beita spurningum til að hjálpa honum að hugsa rökrétt.
4. Hvers vegna ættum við að reyna að hjálpa húsráðanda að rökhugsa?
4 Þegar við hjálpum húsráðanda að rökhugsa líkjum við eftir Jesú, kennaranum mikla, og öðrum leiknum boðberum á fyrstu öld. Þannig sýnum við húsráðandanum kurteisi og virðingu og það gæti orðið til þess að hann vilji fúslega tala við okkur aftur. – 1. Pét. 3:15, 16.