Hjálpum fólki að hlusta á Guð
1. Hvaða bæklingur var gefinn út á umdæmismótinu „Til komi þitt ríki“ og hvers vegna er hann gott hjálpargagn?
1 Á umdæmismótinu „Til komi þitt ríki“ var tilkynnt um útgáfu nýs bæklings: Hlustaðu á Guð og lifðu að eilífu. Þar sem bæklingurinn inniheldur lítinn texta er fljótlegt og auðvelt að þýða hann. Þegar hann kom út var búið að gefa leyfi til að þýða hann á 431 tungumál.
2. Hverjir hafa gagn af bæklingnum?
2 Hverjir hafa mest gagn af bæklingnum? Hugleiðum eftirfarandi aðstæður sem eru algengar um allan heim:
• Boðberi ræðir við húsráðanda, í fyrsta sinn eða í endurheimsókn, og kemst að því að hann er illa læs eða ólæs.
• Boðberi prédikar fyrir fólki sem talar tungumál sem við höfum lítið eða ekkert af ritum á.
• Boðberi notar táknmál til að prédika fyrir heyrnarlausum á svæðinu.
• Foreldri langar til að kenna ólæsu ungu barni sínu sannleikann.
3. Fyrir hverja er bæklingurinn Hlustaðu á Guð og lifðu að eilífu saminn?
3 Fyrir hverja er bæklingurinn saminn?: Bæklingurinn Hlustaðu á Guð og lifðu að eilífu er saminn með það fyrir augum að kenna fólki sem hefur takmarkaða lestrarkunnáttu eða er að læra að lesa. Hver opna eða kafli hefur yfirskrift í formi spurningar. Spurningunni er svarað á opnunni. Myndunum fylgja skýringar og vísað er í biblíuvers. Á mörgum opnum er að finna litaðan ramma með viðbótarupplýsingum og ritningarstöðum sem má ræða um ef nemandinn hefur getu til.
4. Hvenær og hvernig getum við boðið bæklinginn?
4 Hvernig notum við hann?: Það má bjóða bæklinginn í boðunarstarfinu hús úr húsi hvenær sem við teljum að hann komi að gagni. Bæklingar þurfa ekki að vera tilboð mánaðarins til þess að hægt sé að bjóða hann. (Sjá rammagreinina: „Þannig má bjóða bæklinginn“.) Þú gætir kynnt bæklinginn þegar þú ferð í endurheimsókn með því einfaldlega að segja að þú hafir nokkuð til að sýna þessum áhugasama húsráðanda og síðan rétt honum bæklinginn.
5. Hvernig notum við bæklinginn til að stýra biblíunámskeiðum?
5 Fólk í öllum menningarsamfélögum hefur ánægju af því að hlusta á sögur. Notaðu myndirnar til að segja sögurnar sem Guð lét skrá í Biblíuna. Útskýrðu myndirnar. Sýndu eldmóð. Bjóddu nem- andanum að tjá sig um efnið. Spyrðu spurninga til að fá nemandann til að taka þátt í umræðunum og fullvissa þig um að hann skilji efnið. Lesið saman textana og ritningarstaðina þegar þið ræðið efni hverrar myndar fyrir sig.
6. Hvernig getum við hjálpað biblíunemandanum að taka framförum?
6 Hjálpaðu nemandanum að taka framförum: Vonandi vekja umræður ykkar löngun hjá nemandanum til að læra að lesa svo að hann geti sjálfur aflað sér þekkingar á Jehóva. (Matt. 5:3; Jóh. 17:3) Það er samt ekki nóg að fara aðeins yfir þennan bækling til að nemandinn verði tilbúinn til að láta skírast. Þú ættir að halda áfram að kenna honum með hjálp bókarinnar Hvað kennir Biblían? eða annars rits sem við á og getur aukið þekkingu hans á Biblíunni.
7. Hvers vegna ertu þakklátur fyrir þetta nýja kennslugagn?
7 Fólk verður að hlusta á Drottin alheims til að öðlast eilíft líf. (Jes. 55:3) Það er vilji Jehóva að „allir menn“ læri að hlusta á hann, þar á meðal þeir sem eru ekki vel læsir. (1. Tím. 2:3, 4) Við erum innilega þakklát fyrir þetta nýja kennslugagn sem við getum notað til að kenna fólki hvernig það geti hlustað á Guð.
[Rammi á bls. 3]
Þannig má bjóða bæklinginn
Sýndu húsráðandanum bls. 2-3 og segðu: „Myndi þig langa til að búa í svona heimi? [Gefðu honum kost á að svara.] Biblían lofar [eða þessi helga bók lofar] því að Guð muni bráðlega breyta heiminum í friðsælan og fallegan stað þar sem enginn er fátækur eða veikur. Taktu eftir því hvað við þurfum að gera til að fá að lifa þar. [Lestu Jesaja 55:3 sem er vísað í efst á bls. 3.] Þarna er okkur sagt að,koma til‘ Guðs og,hlusta á hann‘. En hvernig getum við hlustað á Guð?“ Flettu yfir á bls. 4-5 og sýndu honum svarið. Ef hann hefur ekki tíma skaltu skilja bæklinginn eftir hjá honum og mæla þér mót við hann síðar til að sýna honum svarið.