Gleymum ekki þeim sem eru á öldrunarheimilum
1. Af hverju þurfum við að ná til þeirra sem búa á öldrunarheimilum og segja þeim frá fagnaðarboðskapnum?
1 Margir glíma við kvillana sem fylgja elliárunum. (Préd. 12:1-7) Sumir eldri borgarar búa á öldrunar- eða hjúkrunarheimilum og því getur verið erfitt að ná til þeirra í boðunarstarfinu hús úr húsi. Þetta á jafnvel við í löndum þar sem venjan er að aldraðir foreldrar flytjist til barna sinna eða annarra ættingja. Þrátt fyrir að eldra fólk og aðrir sem búa á öldrunarheimilum séu farnir að missa minnið eða hreyfigetu geta þeir samt kynnst Jehóva, lært að meta hann að verðleikum og bundist honum kærleiksböndum. Hvernig getum við náð til þeirra með fagnaðarboðskapinn um góðu vonina? – Tít. 2:13.
2. Hvernig getum við tekið saman lista yfir öldrunarheimili á svæðinu?
2 Fyrsta skrefið: Auðveldlega má taka saman lista yfir öldrunar- og hjúkrunarheimili með því að fletta þeim upp í símaskránni. Leitið eftir orðum eins og elliheimili, öldrunarheimili, hjúkrunarheimili, dvalarheimili og vistheimili. Starfshirðirinn getur átt frumkvæðið og fundið hæfa boðbera til þess að heimsækja þessa staði. Með góðum undirbúningi og með því að treysta á Jehóva er oft hægt að koma á fót biblíunámshópi. – Orðskv. 21:5; 1. Jóh. 5:14, 15.
3, 4. (a) Við hvern ættum við að ræða til að koma á fót námshópum? (b) Hvernig getum við útskýrt hvernig biblíunámið fer fram?
3 Það fer mikið eftir starfsemi öldrunarheimilisins hvernig biblíufræðslan er kynnt. Á stórum stofnunum með marga starfsmenn og vistmenn er best að hitta einhvern í móttökunni og biðja um viðtal við umsjónarmann staðarins. Hins vegar gæti verið best að mæla sér mót við forstöðumanninn á smærri heimilum með fáa vistmenn og þar sem aðeins tveir eða þrír starfsmenn vinna.
4 Hvort sem við komum á stærri eða smærri heimili er nauðsynlegt að útskýra að við séum sjálfboðaliðar sem notum tíma okkar til að uppörva þá sem vilja lesa og ræða um Biblíuna. Spyrðu hvort einhverjir vistmenn hefðu áhuga á að vera með í biblíuumræðum í hálfa klukkustund í hverri viku. Hægt er að nota ýmis rit en mörgum hefur fundist gott að nota Biblíusögubókina mína og Mesta mikilmenni sem lifað hefur. Það gæti verið ráðlegt að sýna umsjónarmanninum ritin. Hægt er að semja við hann um dag, tíma og staðsetningu og láta síðan upplýsingarnar hanga á tilkynningatöflunni á öldrunarheimilinu. Ekki hika við að láta vita að þú sért vottur Jehóva. Láttu umsjónarmanninn líka vita að ekki sé um að ræða helgistund heldur biblíufræðslu.
5. Hvaða hagnýtu tillögur getum við nýtt okkur til að gera námið ánægjulegt og gagnlegt?
5 Að halda námskeiðið: Það fer eftir aðstæðum og umhverfi hvernig við högum námskeiðinu. Það er því mikilvægt að við sýnum dómgreind og séum sveigjanleg. Sá sem stjórnar biblíuumræðunum ætti að taka með sér nokkur eintök af námsritinu og safna þeim svo saman aftur að námsstundinni lokinni. Það gæti verið gott að hafa meðferðis nokkur eintök með stækkuðu letri. Hægt er að lesa greinarnar, spyrja spurninga og leyfa áheyrendum svo að svara eins og við erum vön að gera. Bjóða má þeim sem vilja og geta að lesa greinarnar upphátt eða lesa vers úr Biblíunni. Vertu líflegur, jákvæður og vingjarnlegur meðan á náminu stendur. Þú gætir líka beðið umsjónarmanninn um leyfi til að sýna af og til myndbönd sem styrkja trú á Biblíuna eða útskýra vissar biblíufrásögur. Ef til vill væri hægt að hefja námsstundina og ljúka henni með bæn. Sumir boðberar hafa meira að segja sungið ríkissöngva.
6. Hvernig er best að bregðast við andmælum?
6 Hvað er best að gera ef vistmaður andmælir einhverju sem er lesið eða rætt í biblíuumræðunum? Sýndu dómgreind þegar þú svarar. (Kól. 4:6) Þú getur kannski notað fáein biblíuvers sem útskýra málið. Ef það hentar ekki skaltu bjóðast til að ræða við hann um athugasemdina eftir námsstundina.
7. Hvað geturðu gert ef vistmaður ber upp spurningu eða sýnir mikinn áhuga?
7 Stundum spyrja vistmenn spurninga eða óska eftir nánari upplýsingum. Trúsystir okkar notar eftirfarandi aðferð: „Þetta er mjög góð spurning, en þar sem þetta er aukaspurning skulum við bíða með að svara henni þar til eftir umræðurnar. Þá skal ég útskýra málið betur fyrir þér.“ Oft er mögulegt að hafa sér biblíunámskeið með áhugasömum einstaklingum á öðrum tíma og stað.
8. Hvernig ætti að telja hópnámskeið og önnur biblíunámskeið á starfsskýrslunni?
8 Það er yfirleitt best að sami votturinn stjórni umræðum biblíunámshópsins á hverjum stað. Aðrir boðberar, sem eru með í umræðum námshópsins á öldrunarheimili, geta líka skráð starfstíma. Þegar búið er að koma á fót námshópi má boðberinn, sem stýrir umræðunum, telja eina endurheimsókn í hvert skipti sem umræður biblíunámshópsins fara fram og eitt biblíunámskeið í hverjum mánuði. Önnur biblíunámskeið fyrir einstaka vistmenn, sem geta lært og skilið efnið, teljum við eins og við erum vön.
9, 10. Hvers konar eiginleikum ættu þeir sem taka þátt í þessu starfi að búa yfir? Útskýrðu svarið.
9 Haldið námskeiðinu gangandi: Best er að hafa ákveðinn dag og tíma fyrir hópnámskeiðið. Vistmenn og starfsmenn vænta þess ábyggilega að námskeiðið sé haldið reglulega og hefjist og ljúki á réttum tíma. (Matt. 5:37) Við þurfum því að standa við orð okkar, vera stundvís og sýna kostgæfni. Reynslan hefur sýnt að best er að tveir hæfir boðberar vinni saman að því að sjá um hópnámskeiðið. (Préd. 4:9, 10) Á stærri stofnunum gæti þurft fleiri en tvo boðbera.
10 Það er líka mikilvægt að vera vingjarnlegur og sýna fólki persónulegan áhuga. (Fil. 2:4) Taktu þér tíma í fyrstu heimsókn til að heilsa persónulega þeim vistmönnum sem mæta. Skrifaðu hjá þér nöfn þeirra og reyndu að leggja þau á minnið fyrir næsta skipti. Ef þú sýnir þolinmæði og umhyggjusemi kemur öllum til með að líða vel.
11. Hvernig geta þeir sem halda biblíunámskeiðið sýnt starfsfólki og ættingjum vistmanna virðingu?
11 Það er líka nauðsynlegt að sýna starfsfólki og ættingjum vistmanna virðingu og vinsemd. Eftir að námskeiðið er komið í fastar skorður er ekki heppilegt að breyta formi þess eða tíma án þess að ræða fyrst við umsjónarmann staðarins. Við og við gætir þú spurt hann hvað honum finnist um námskeiðið. Þegar ættingjar koma í heimsókn á meðan biblíunámskeið stendur yfir skaltu taka frumkvæðið og heilsa þeim. Útskýrðu fyrir þeim tilganginn með biblíunámshópnum. Láttu þá vita að þér sé innilega umhugað um ættingja þeirra. Bjóddu þeim að fá sér sæti og vera með.
12, 13. Lýsið því hvað það getur verið árangursríkt að boða trúna á öldrunarheimilum.
12 Árangurinn: Góðar fréttir af þessu starfi berast bæði frá farandhirðum og söfnuðum. Á einum stað voru um 20 vistmenn viðstaddir fyrstu umræðurnar. Þetta varð til þess að sex áhugasamir vistmenn þáðu biblíunámskeið og einn þeirra lét seinna meir skírast. Á öðrum stað fór 85 ára gömul kona að sækja samkomur og lét í ljós löngun til að láta skírast. Á enn öðrum stað var ákveðið að draga úr starfsemi sem varð til þess að vottar Jehóva voru látnir hætta með biblíunámshópinn. Vistmennirnir voru ósáttir við þá ákvörðun og kvörtuðu við umsjónarmanninn. Að lokum var námskeiðinu komið aftur á og þá fóru á bilinu 25 til 30 manns að sækja það.
13 Kærleikurinn, sem við sýnum þeim sem eru á öldrunarheimilum, hefur djúpstæð áhrif á fleiri en vistmennina. Það er ekki óalgengt að starfsmenn séu viðstaddir námsstundina og taki jafnvel þátt í umræðunum. Þegar við leggjum okkur fram um að sýna fólki á öldrunarheimilum persónulegan áhuga skapar það góðan orðstír í samfélaginu. (1. Pét. 2:12) Þegar einn umsjónarmaður heyrði um tilganginn með námskeiðinu sagði hann: „Eftir hverju voruð þið eiginlega að bíða? Hvenær getið þið hafist handa?“ Annar umsjónarmaður skrifaði: „Ég myndi svo sannarlega mæla með þessu hópnámskeiði fyrir öll öldrunarheimili hér um slóðir. Vottar Jehóva bjóða öllum í samfélaginu þessa ókeypis þjónustu, en hún er hluti af trúboði þeirra.“ Öldrunarheimili á Hawaii-eyjum veitti Vottum Jehóva sjálfboðaliðaverðlaun og lýsti sjálfboðaliðunum sem „ómetanlegum fjársjóði“ fyrir vistmenn heimilisins.
14. Af hverju ættum við að vilja ná til þeirra sem búa á öldrunarheimilum?
14 Jehóva býður þeim sem eru aldraðir að lofa nafn sitt. (Sálm. 148:12, 13) Þetta boð nær einnig til þeirra sem búa á öldrunarheimilum. Eru öldrunarheimili á ykkar starfssvæði þar sem aldraðir hefðu gagn af því að heyra fagnaðarboðskapinn? Með aðstoð öldunga á staðnum og umsjónarmanna öldrunarheimila getum við svo sannarlega boðað vistmönnum fagnaðarerindið. Við líkjum eftir Jehóva ef við gleymum ekki þeim sem komnir eru á efri ár. – Sálm. 71:9, 18.