Geta menntun og peningar tryggt þér örugga framtíð?
Margir álíta að þeir sem eru vel menntaðir og ríkir eigi örugga framtíð vísa. Þeir eru sannfærðir um að háskólamenntun geti gert mann að betri starfsmanni og borgara og bætt fjölskyldulífið. Þeir telja að góð menntun sé lykillinn að vel launuðu starfi og að þeir sem þéna vel verði hamingjusamir.
VAL MARGRA
Veltu fyrir þér því sem Zhang Chen frá Kína segir um málið: „Mér fannst ég þurfa á háskólagráðu að halda til að losna úr fátækt og hélt að hálaunað starf myndi tryggja mér hamingju og innihaldsríkt líf.“
Margir sækjast eftir að komast inn í fræga háskóla, jafnvel erlendis, til að tryggja framtíð sína. Stöðuga aukningu í þessa átt mátti merkja allt fram að COVID-19-faraldrinum, en hann tálmaði öllum ferðalögum til muna. Í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) frá árinu 2012 segir: „Námsmenn frá Asíu eru 52% stúdenta á erlendri grund.“
Foreldrar færa oft umtalsverðar fórnir til að börnin þeirra geti sótt háskóla erlendis. Qixiang frá Taívan segir: „Foreldrar mínir voru ekki efnaðir en samt sendu þeir okkur öll fjögur systkinin í háskóla í Bandaríkjunum.“ Fjölskylda hans þurfti, líkt og margar aðrar, að steypa sér í miklar skuldir til að standa straum að þessari menntun.
HVER ER ÁRANGURINN?
Margir sem keppa eftir æðri menntun og auðæfum verða fyrir vonbrigðum.
Menntun getur bætt lífið á ýmsa vegu en hún mætir samt ekki alltaf væntingum námsmanna. Margir finna til dæmis ekki draumastarfið þrátt fyrir margra ára fórnir og skuldasöfnun. Í grein eftir Rachel Mui í tímaritinu Business Times frá Singapúr má lesa: „Atvinnuleysi meðal útskrifaðra nemenda virðist vera vaxandi vandi.“ Jianjie sem býr í Taívan og er með doktorsgráðu hefur þetta að segja: „Margir hafa ekki um annað að velja en að taka að sér störf sem hafa ekkert með námsferil þeirra að gera.“
Þeim sem tekst að fá vinnu í þeirri grein sem þeir stefndu að uppgötva stundum að lífið er ekki eins og vonir stóðu til. Þegar Niran frá Taílandi sneri heim eftir að hafa stundað háskólanám á Bretlandseyjum fékk hann vinnu á sínu starfssviði. „Eins og ég bjóst við hjálpaði námsgráðan mér að fá vel launað starf. En launin góðu útheimtu meiri vinnu og kröfðust meiri tíma. Að lokum fór það svo að fyrirtækið sagði upp flestum starfsmönnum sínum og mér líka. Ég áttaði mig á að ekkert starf er öruggt.“
Jafnvel ríkt fólk sem hefur náð því sem kallast góður lífsstíll þarf að glíma við fjölskylduvandamál, óvænta sjúkdóma og efnahagslega óvissu. Katsutoshi frá Japan viðurkennir að hann hafi notið margs konar efnislegra gæða. „En ég var vonsvikinn vegna samkeppninnar, öfundarinnar og eineltisins,“ segir hann. Lam býr í Víetnam. Hún segir: „Ég sé marga leggja hart að sér við að fá vel launuð störf og öðlast fjárhagslegt öryggi en raunin er allt önnur – óöryggi, heilsuvandi, tilfinningaleg örmögnun og þunglyndi.“
Margir hafa, líkt og Franklin, komist að þeirri niðurstöðu að lífið snúist ekki um æðri menntun og ríkidæmi. Í stað þess að láta það snúast um efnislega hluti hafa sumir leitast við að bæta framtíð sína með því að reyna að verða betri manneskjur og láta gott af sér leiða. Getur slík lífsstefna tryggt örugga framtíð? Næsta grein svarar þeirri spurningu.