Er það trygging fyrir framtíðina að vera góð manneskja?
Öldum saman hefur það verið skoðun margra að góðvild og ráðvendni væri besta leiðin til að tryggja framtíð sína. Austurlandabúar höfðu til dæmis miklar mætur á orðum heimspekingsins Konfúsíusar (551–479 f.Kr.) sem sagði: „Gerðu ekki öðrum það sem þú vilt ekki að þeir geri þér.“a
STEFNA SEM MARGIR FYLGJA
Margir eru enn þeirrar skoðunar að góð breytni sé lykillinn að öruggri framtíð. Þeir leitast við að sýna öðrum virðingu, temja sér kurteisi, virða eigin stöðu í samfélaginu og varðveita góða samvisku. „Ég taldi alltaf að mér yrði umbunað ef ég væri heiðarleg og einlæg,“ segir Linh sem býr í Víetnam.
Sumir finna hvata til að breyta vel í trúarbrögðum sínum. Maður að nafni Hsu-Yun sem býr í Taívan segir: „Mér var kennt að breytni manns í lífinu réði því hvort manns biði endalaus sæla eða eilíf kvöl eftir dauðann.“
HVER ER ÁRANGURINN?
Það er rétt að ef við gerum öðrum gott njótum við góðs af á marga vegu. En margir sem reyna einlæglega að vera góðir við aðra hafa komist að því að það leiðir ekki alltaf til þeirrar útkomu sem vænst var. „Ég komst að raun um að þeir sem gera góð verk njóta ekki alltaf umbunar fyrir,“ segir kona að nafni Shiu Ping sem býr í Hong Kong. „Ég gerði mitt besta til að annast fjölskylduna og láta gott af mér leiða. En hjónabandið fór út um þúfur og eiginmaður minn yfirgaf mig og son minn.“
Margir hafa rekið sig á að trúin gerir fólk ekki alltaf að betri manneskjum. „Ég var virk í trúarsamtökum og leiðtogi æskulýðsstarfs,“ segir Etsuko en hún býr í Japan. „Það var mér áfall að sjá lauslætið, valdabaráttuna og óheiðarleikann í því hvernig farið var með fjármuni í trúfélagi mínu.“
„Ég gerði mitt besta til að annast fjölskylduna og láta gott af mér leiða. En hjónabandið fór út um þúfur og eiginmaður minn yfirgaf mig og son minn.“ – SHIU PING, HONG KONG
Sumir sem eru einlægir í trú sinni hafa orðið fyrir vonbrigðum þegar góðverk þeirra höfðu enga umbun í för með sér. Þannig leið Van en hún er frá Víetnam. „Ég keypti ávexti, blóm og mat á hverjum degi og bar þau fram á altari látinna forfeðra minna í þeirri trú að það myndi færa mér blessanir í framtíðinni,“ segir hún. „En þrátt fyrir öll góðverkin og trúarsiðina sem ég stundaði árum saman fékk maðurinn minn alvarlegan sjúkdóm. Síðar lést dóttir mín sem var enn þá ung að árum meðan hún var við nám erlendis.“
Ef góðsemi tryggir ekki framtíð manns hvað gerir það þá? Við þurfum áreiðanlegan leiðarvísi til að svara þeirri spurningu – leiðarvísi sem getur svarað spurningum okkar og vísað leiðina að öruggri framtíð. Hvar er slíkan leiðarvísi að finna?
a Rætt er um áhrif kenninga Konfúsíusar í 7. kafla, grein 31–35, í bókinni Mankind’s Search for God sem Vottar Jehóva gefa út og er fáanleg á ensku og mörgum öðrum tungumálum á www.jw.org.