BÝR HÖNNUN AÐ BAKI?
Límkennt slím skuggasnigilsins
Skurðlæknar hafa lengi séð þörfina á límefni sem má nota við skurðlækningar og til að lagfæra skemmdir í vefjum eða líffærum. Mörg lím sem eru nú notuð má ekki nota innvortis. Þau eru eitruð og harðna þegar þau þorna og loða ekki við raka líkamsvefi. Vísindamenn hafa fundið leið til að leysa þetta vandamál með því að rannsaka slím skuggasnigilsins.a
Hugleiddu þetta: Þegar skuggasnigillinn skynjar ógn seytir hann frá sér slími sem er nógu klístrað til að hann geti loðað við rakt laufblað. Þessi varnarviðbrögð vernda snigilinn en gera honum þó enn kleift að hreyfa sig lítillega.
Vísindamenn hafa efnagreint slímið og uppgötvað nokkra þætti sem gera það afar áhrifaríkt sem náttúrulegt lím. Til dæmis er viðloðunarhæfni slímsins bæði vegna efnahvarfa og rafkrafta. Slímið smýgur gegnum yfirborðið sem snigillinn skorðar sig fastan við en er samt eftirgefanlegt við álag. Með því að hanna efni sem hermir eftir eiginleikum slíms skuggasnigilsins hafa vísindamenn fundið upp límefni sem er mun sterkara en þau lím sem eru á markaðnum í dag og það getur loðað við lifandi líffæri. Þeir segja að það bindist „líffærum jafn vel og brjósk binst beinum“.
Sérfræðingar telja að þetta lím gæti orðið eitt af því sem allir skurðlæknar hafa við höndina og að ekki verði lengur þörf á innvortis saumum eða heftum. Límið gæti gagnast við að laga brjósk eða græða tæki í líkama sjúklings á nákvæmlega réttan stað. Prófanir hafa þegar sýnt að límið virkar vel til að loka fyrir göt í hjarta svíns og lifrum rotta.
Vísindamenn finna oft frábærar lausnir á algengum vandamálum með því að rannsaka náttúruna í kringum sig. „Þetta snýst um að vita hvar á að leita og að þekkja góða hugmynd þegar maður sér hana,“ segir Donald Ingber, forstöðumaður stofnunarinnar sem þróaði þetta lím.
Hvað heldur þú? Er límið í slími skuggasnigilsins afurð þróunar? Eða býr hönnun að baki?
a Fræðiheitið er Arion subfuscus.