BÝR HÖNNUN AÐ BAKI?
Slím slímálsins
Hlaupkennt slím sem slímállinn framleiðir hefur lengi vakið áhuga vísindamanna. Hvað kemur til? Hlaupi slímálsins hefur verið lýst sem „einu mýksta teygjanlega lífefni sem fyrirfinnst“.
Hugleiddu málið: Slímállinn lifir á hafsbotni. Þegar rándýr reynir að éta slímál gefur hann frá sér slím sem kemur úr sérstökum kirtlum. Slímið samanstendur af slímmyndandi próteinum ásamt þúsundum langra þráða úr öðrum próteinum. Þegar þessi prótein koma saman breyta þau vatninu sem umlykur slímálinn í seigfljótandi slím. Slímið stíflar tálkn rándýra sem reyna að ráðast á slímálinn með þeim afleiðingum að þau losa sig við slímálinn og hverfa á braut.
Hlaup slímálsins hefur einstaka eiginleika. Þykkt hvers próteinþráðar er einn hundraðasti hluti af þykkt mannshárs og er allt að tíu sinnum sterkara en nælon. Þegar blanda af slími og próteinþráðum kemst í snertingu við sjóinn verður til þrívíddarform líkt og þéttriðið sigti. Þetta form getur haldið vatni sem samsvarar 26.000 sinnum eigin þyngd. Reyndar er slímið næstum 100 prósent vatn.
Vísindamönnum hefur ekki tekist að líkja eftir hlaupi slímálsins. „Þetta náttúrulega kerfi er allt of flókið,“ segir einn vísindamaður. Vísindamenn ætla sér samt að búa til samsvarandi próteinþræði erfðafræðilega með því að nota bakteríur. Takmarkið er að framleiða vöru sem er létt, sterk, teygjanleg og niðurbrjótanleg. Gervipróteinþræðir gætu verið gagnlegir til að þróa endingargott efni fyrir textíliðnað og læknismeðferðir. Möguleikarnir til að nýta þau virðast endalausir.
Hvað heldur þú? Þróaðist flókið form slímsins sem slímállinn gefur frá sér? Eða býr hönnun að baki?