Fjölskyldur, lofið Guð með söfnuði hans
„Í söfnuðunum vil ég lofa [Jehóva].“ — SÁLMUR 26:12.
1. Nefndu mikilvægan þátt í sannri tilbeiðslu, auk bæna og biblíunáms heima fyrir.
TILBEIÐSLA á Jehóva felur bæði í sér bæn og biblíunám heima fyrir og starf með söfnuði hans. Forn-Ísrael var sagt að „safna . . . saman lýðnum, bæði körlum, konum og börnum,“ til að læra lög Guðs og ganga á vegum hans. (5. Mósebók 31:12; Jósúabók 8:35) Jafnt aldraðir sem „yngismenn og yngismeyjar“ voru hvött til að lofa nafn Jehóva. (Sálmur 148:12, 13) Kristni söfnuðurinn hefur áþekkt fyrirkomulag. Karlar, konur og börn taka fúslega þátt í samkomum, sem haldnar eru í ríkissölum um heim allan, og margir hafa mikla ánægju af því. — Hebreabréfið 10:23-25.
2. (a) Af hverju er undirbúningur lykilatriði í því að börnin njóti samkomanna? (b) Fordæmi hverra er mikilvægt?
2 Það getur vissulega verið töluverður vandi að hjálpa börnum að temja sér heilnæmar venjur hvað varðar safnaðarstarf. Hvað getur verið að ef börn, sem sækja samkomur með foreldrum sínum, virðast ekki njóta samkomanna? Athygli barna endist yfirleitt ekki lengi og þeim leiðist fljótt. Hægt er að vinna gegn því með undirbúningi. Án undirbúnings geta þau ekki tekið þátt í samkomunum að nokkru gagni. (Orðskviðirnir 15:23) Án undirbúnings eiga þau erfitt með að taka andlegum framförum og njóta þeirra. (1. Tímóteusarbréf 4:12, 15) Hvað er til ráða? Í fyrsta lagi þurfa foreldrar að spyrja sig hvort þeir undirbúi sig sjálfir fyrir samkomur. Fordæmi þeirra hefur sterk áhrif. (Lúkas 6:40) Vel skipulagt fjölskyldunám getur líka skipt máli.
Að uppbyggja hjartað
3. Af hverju ætti að leggja sérstaka áherslu á það í fjölskyldunáminu að uppbyggja hjartað og hvað útheimtir það?
3 Fjölskyldunámið ætti að uppbyggja hjartað auk þess að fræða hugann. Til að svo verði er bæði nauðsynlegt að vera vakandi fyrir vandamálum, sem börnin eiga við að etja, og bera ástríka umhyggju fyrir hverju þeirra. Jehóva „rannsakar hjartað.“ — 1. Kroníkubók 29:17.
4. (a) Hvað merkir það að vera „óvitur“? (b) Hvað þarf til að ‚afla sér hygginda‘ í hjarta?
4 Hvað sér Jehóva þegar hann rannsakar hjörtu barna okkar? Flest börn segjast sjálfsagt elska Guð og það er hrósunarvert. En sá sem er ungur að árum eða er rétt byrjaður að kynnast Jehóva hefur takmarkaða reynslu af vegum hans. Sökum reynsluleysis getur hann verið „óvitur“ eins og Biblían orðar það. Ekki svo að skilja að hvatir hans séu að öllu leyti slæmar, en það tekur sinn tíma að gera hjartað þóknanlegt Guði. Til þess þarf að laga hugsanir sínar, langanir, ást, tilfinningar og markmið í lífinu að því sem Guð hefur velþóknun á, að svo miklu leyti sem ófullkomnir menn geta gert það. Þegar einhver mótar sinn innri mann Guði að skapi er hann að ‚afla sér hygginda‘ í hjarta. — Orðskviðirnir 9:4; 19:8.
5, 6. Hvernig geta foreldrar hjálpað börnunum að ‚afla sér hygginda‘ í hjarta?
5 Geta foreldrar hjálpað börnunum að afla sér slíkra „hygginda“ í hjarta? Enginn maður getur auðvitað gefið öðrum ákveðið hjartaástand. Hver maður hefur frjálsan vilja og margt er undir því komið hvað við leyfum okkur að hugsa um. En með góðri dómgreind geta foreldrar oft fengið barn til að tjá sig opinskátt og komist að raun um hvað býr í hjarta þess og hvar hjálpar er þörf. Þú gætir spurt spurninga svo sem: ‚Hvað finnst þér um þetta?‘ og: ‚Hvað langar þig mest til að gera?‘ Hlustaðu síðan þolinmóður. Bregstu ekki of harkalega við. (Orðskviðirnir 20:5) Góðvild, skilningur og ást er nauðsynleg til að ná til hjartans.
6 Styrkið heilnæmar tilhneigingar með því að ræða oft um ávöxt andans — hvern einasta þátt hans — og vinna saman að því sem fjölskylda að rækta hann. (Galatabréfið 5:22, 23) Byggið upp kærleika til Jehóva og Jesú Krists, ekki aðeins með því að segja að við eigum að elska þá heldur einnig með því að ræða um ástæður fyrir því að við elskum þá og hvernig við getum tjáð þennan kærleika. (2. Korintubréf 5:14, 15) Styrkið löngunina til að gera það sem rétt er með því að rökræða um gagnið sem af því hlýst. Byggið upp löngun til að forðast rangar hugsanir, talsmáta og hegðun með því að ræða um hin slæmu áhrif af því. (Amos 5:15; 3. Jóhannesarbréf 11) Bendið á hvernig hugsanir, málfar og hegðun — bæði góð og slæm — getur haft áhrif á samband okkar við Jehóva.
7. Hvernig er hægt að hjálpa börnunum að glíma við vandamál og varðveita náið samband við Jehóva?
7 Þegar barn er í vanda statt eða þarf að taka mikilvæga ákvörðun gætum við spurt: ‚Hvernig heldurðu að Jehóva líti á þetta? Hvað veistu um Jehóva sem fær þig til að segja þetta? Hefurðu rætt þetta við hann í bæn?‘ Byrjaðu eins snemma og hægt er og æfðu barnið í að temja sér að reyna alltaf að ganga úr skugga um hver sé vilji Guðs og fara svo eftir því. Þegar börnin eignast náið einkasamband við Jehóva njóta þau þess að ganga á vegum hans. (Sálmur 119:34, 35) Þannig læra þau að meta þau sérréttindi að tilheyra söfnuði hins sanna Guðs.
Undirbúningur fyrir safnaðarsamkomur
8. (a) Hvað getur auðveldað okkur að koma öllu fyrir sem gefa þarf gaum í fjölskyldunáminu? (b) Hve mikilvægt er þetta nám?
8 Margt þarf að skoða og fjalla um í fjölskyldunáminu. Hvernig er hægt að koma öllu fyrir? Það er ekki hægt að gera allt samtímis. En það getur verið gott að gera sér minnislista. (Orðskviðirnir 21:5) Farið yfir hann af og til og veltið fyrir ykkur hverju gefa þurfi sérstakan gaum. Sýnið fullan áhuga á framförum hvers og eins í fjölskyldunni. Fjölskyldunámið er þýðingarmikill þáttur í kristinni menntun. Það gerir okkur hæf fyrir þetta líf og býr okkur undir eilífa lífið sem framundan er. — 1. Tímóteusarbréf 4:8.
9. Hvaða markmiðum væri hægt að vinna að smám saman í sambandi við undirbúning fyrir samkomur?
9 Er fjölskyldunámið notað til undirbúnings fyrir samkomur? Hægt er að vinna jafnt og þétt að mörgum verkefnum í hinu sameiginlega námi. Sum þeirra geta tekið margar vikur, mánuði eða jafnvel ár. Lítum á nokkur markmið: (1) Hver og einn í fjölskyldunni er tilbúinn að svara á safnaðarsamkomum; (2) allir leitast við að svara með eigin orðum, (3) flétta ritningarstöðum inn í svörin og (4) brjóta efnið til mergjar til að heimfæra það á sjálfan sig. Allt getur þetta verið hjálp til að tileinka sér sannleikann. — Sálmur 25:4, 5.
10. (a) Hvernig mætti gefa gaum að hverri safnaðarsamkomu um sig? (b) Af hverju er það þess virði?
10 Jafnvel þegar fjölskyldunámið er byggt á vikulegu námsefni Varðturnsins má ekki gleyma undirbúningi fyrir safnaðarbóknámið, Guðveldisskólann og þjónustusamkomuna. Allar þessar samkomur gegna mikilvægu hlutverki í því að kenna okkur að ganga á vegi Jehóva. Stundum getið þið kannski búið ykkur undir þessar samkomur í sameiningu. Með því að vinna saman bætið þið námstækni ykkar. Fyrir vikið verða samkomurnar enn gagnlegri. Meðal annars er gott að ræða um gildi þess að búa sig sameiginlega undir samkomurnar og hafa ákveðinn tíma frátekinn til þess. — Efesusbréfið 5:15-17.
11, 12. Hvaða gagn er að því að búa sig undir sönginn á safnaðarsamkomum og hvernig mætti gera það?
11 Á landsmótinu „Lífsvegur Guðs“ vorum við hvött til að búa okkur undir annan þátt í samkomum okkar — sönginn. Hafið þið gert það? Það getur átt þátt í því að festa sannindi Biblíunnar í huga okkar og hjarta og gert samkomurnar ánægjulegri fyrir okkur.
12 Með því að lesa og ræða um merkingu orðanna í sumum þeirra söngva, sem eru á dagskrá, getum við frekar sungið af hjartans lyst. Hljóðfæri voru mikið notuð í tilbeiðslunni í Forn-Ísrael. (1. Kroníkubók 25:1; Sálmur 28:7) Leikur einhver í fjölskyldunni á hljóðfæri? Hví ekki að æfa einhvern af söngvum vikunnar á hljóðfærið og syngja hann svo saman? Eins væri hægt að nota hljóðritaða tónlist. Sums staðar í heiminum syngja bræður okkar mjög fallega án undirleiks. Þegar þeir ganga á vegum úti eða vinna úti á ökrum syngja þeir gjarnan þá söngva sem sungnir verða á samkomum vikunnar. — Efesusbréfið 5:19.
Sameiginlegur undirbúningur fyrir boðunarstarfið
13, 14. Af hverju eru fjölskylduumræður gagnlegar til að búa hjartað undir boðunarstarfið?
13 Það er mikilvægur þáttur í lífi okkar að bera vitni um Jehóva og tilgang hans. (Jesaja 43:10-12; Matteus 24:14) Ungir sem aldnir njóta þessa starfs betur og áorka meiru ef þeir eru undirbúnir. Hvernig getum við undirbúið okkur með fjölskyldunni?
14 Eins og í öllu, sem viðkemur tilbeiðslu okkar, er mikilvægt að undirbúa hjartað. Við þurfum að ræða saman bæði hvað við ætlum að gera og hvers vegna við gerum það. Á dögum Jósafats konungs var fólk frætt um lögmál Guðs, en Biblían segir okkur að það hafi ‚ekki snúið hjörtum sínum til Guðs.‘ Fyrir vikið var það ekki á varðbergi fyrir tálbeitum sem gátu lokkað það burt frá sannri tilbeiðslu. (2. Kroníkubók 20:33; 21:11) Markmið okkar með boðunarstarfinu er ekki eingöngu það að geta skilað starfstímaskýrslu eða dreifa ritum. Boðunarstarfið ætti að vera merki um kærleika okkar til Jehóva og kærleika til fólks sem þarf að fá tækifæri til að velja lífið. (Hebreabréfið 13:15) Í þessu starfi erum við „samverkamenn Guðs.“ (1. Korintubréf 3:9) Hvílík sérréttindi! Þegar við tökum þátt í boðunarstarfinu erum við að vinna með hinum heilögu englum. (Opinberunarbókin 14:6, 7) Það er ekki hægt að hugsa sér betri vettvang til að halda þessu á loft en í umræðum fjölskyldunnar, hvort heldur það er í vikulegu námi hennar eða þegar farið er yfir viðeigandi texta í Rannsökum daglega ritningarnar.
15. Hvenær getur fjölskyldan búið sig undir boðunarstarfið?
15 Notið þið fjölskyldunámstímann stundum til að aðstoða börnin við að búa sig undir boðunarstarf vikunnar? Það getur reynst mjög gagnlegt og stuðlað að innihaldsríku og árangursríku starfi. (2. Tímóteusarbréf 2:15) Endrum og eins mætti nota allan námstímann til slíks undirbúnings. Yfirleitt mætti þó fjalla um ýmsa þætti boðunarstarfsins í styttri umræðum í lok fjölskyldunámsins eða á öðrum tímum vikunnar.
16. Hvaða skref eru talin upp í greininni?
16 Fjölskylduumræðurnar gætu snúist um ákveðin og markviss skref svo sem þessi: (1) Undirbúið og æfið kynningu þar sem lesinn er ritningarstaður ef þess er kostur. (2) Gangið úr skugga um að allir hafi eigin starfstösku, biblíu, minnisbók, penna eða blýant, smárit og önnur rit í góðu ásigkomulagi. Starfstaskan þarf ekki að vera dýr en hún ætti að vera snyrtileg. (3) Ræðið hvar og hvernig hægt sé að bera óformlega vitni. Fylgið hverju skrefi eftir með því að fara saman í boðunarstarfið. Gefið góð ráð en takið ekki of margt fyrir í einu.
17, 18. (a) Hvers konar sameiginlegur undirbúningur getur gert boðunarstarfið árangursríkara? (b) Hvað væri hægt að undirbúa í hverri viku?
17 Jesús Kristur fól fylgjendum sínum að gera menn að lærisveinum og það er veigamikill þáttur í starfi okkar. (Matteus 28:19, 20) Að gera menn að lærisveinum er ekki aðeins prédikun heldur einnig kennsla. Hvernig getur fjölskyldunámið hjálpað ykkur að ná árangri í þessari starfsgrein?
18 Ræðið saman í fjölskyldunni hverja væri gott að heimsækja aftur. Sumir þeirra hafa kannski þegið rit en aðrir aðeins hlustað. Þið hafið kannski hitt þá í starfi ykkar hús úr húsi eða vitnað óformlega fyrir þeim úti á götu eða í skólanum. Látið orð Guðs leiðbeina ykkur. (Sálmur 25:9; Esekíel 9:4) Ákveðið hverja þið heimsækið í vikunni. Hvað ætlið þið að tala um? Fjölskyldan getur hjálpast að við að undirbúa hvern og einn. Skrifið hjá ykkur ákveðna ritningarstaði, sem þið ætlið að benda áhugasömum á, og viðeigandi efni í bæklingnum Hvers krefst Guð af okkur? eða bókinni Þekking sem leiðir til eilífs lífs. Reynið ekki að fara yfir of mikið efni í einni heimsókn. Látið ósvarað einhverri spurningu hjá húsráðanda sem þið ætlið að svara næst. Hví ekki að gera það að föstum þætti á vikulegri dagskrá fjölskyldunnar að raða niður endurheimsóknum, ákveða hvenær farið verði í heimsóknina og hverju reynt verður að áorka. Það getur stuðlað að árangursríkara boðunarstarfi allra í fjölskyldunni.
Haldið áfram að kenna þeim veg Jehóva
19. Hvað þarf fjölskyldan að upplifa til þess að halda áfram að ganga á vegi Jehóva og hvað stuðlar að því?
19 Það er krefjandi verkefni að veita fjölskyldu forstöðu í þessum illa heimi. Satan og illir andar hans reyna að spilla andlegu hugarfari þjóna Jehóva. (1. Pétursbréf 5:8) Og álagið á ykkur foreldrana, einkum einstæða foreldra, er mikið. Það er enginn hægðarleikur að finna tíma til alls sem ykkur langar til að gera. En það er áreynslunnar virði, jafnvel þótt þið getið aðeins notfært ykkur eina tillögu í einu til að bæta námsdagskrá fjölskyldunnar. Það er mikil umbun að sjá ástvini sína ganga trúfasta á vegi hans. Til að ganga farsællega á vegi Jehóva þarf fjölskyldan að njóta þess að sækja safnaðarsamkomurnar og taka þátt í boðunarstarfinu. Það kostar undirbúning sem uppbyggir hjartað og gerir hvern og einn hæfan til að taka góðan þátt í samkomunum og boðunarstarfinu.
20. Hvernig geta fleiri foreldrar notið þeirrar gleði sem lýst er í 3. Jóhannesarbréfi 4?
20 Jóhannes postuli skrifaði um þá sem hann hafði veitt andlega hjálp: „Ég hef enga meiri gleði en þá að heyra, að börnin mín lifi í sannleikanum.“ (3. Jóhannesarbréf 4) Fjölskyldunám, sem hefur skýrt markmið, og fjölskylduhöfuð, sem sinnir þörfum hvers og eins af áhuga og hlýju, getur átt stóran þátt í að allir í fjölskyldunni njóti þessarar gleði. Með því að byggja upp jákvætt mat á lífsvegi Guðs hjálpa foreldrar börnum sínum að ganga besta lífsveg sem til er. — Sálmur 19:8-12.
Geturðu svarað?
◻ Af hverju er mikilvægt fyrir börnin að búa sig undir samkomurnar?
◻ Hvernig geta foreldrar hjálpað börnunum að ‚afla sér hygginda‘ í hjarta?
◻ Hvernig getur fjölskyldunámið falið í sér undirbúning fyrir allar samkomurnar?
◻ Hvernig getur sameiginlegur undirbúningur fjölskyldunnar fyrir boðunarstarfið gert okkur skilvirkari boðbera?
[Mynd á blaðsíðu 20]
Fjölskyldunámið getur meðal annars falist í undirbúningi fyrir safnaðarsamkomur.
[Mynd á blaðsíðu 21]
Það er gott að æfa sig fyrir söng á samkomum.