Spurningar frá lesendum
◼ Fengu sjúkir og bæklaðir í raun lækningu í Betesda-laug, þegar vatnið hrærðist, eins og Jóhannes 5:2-7 gefur í skyn? Fyrir hvaða mátt gerðust þau kraftaverk, ef svo var?
Í raun réttri staðfestir frásagan í Jóhannesi 5:2-9 ekki að margar kraftaverkalækningar hafi átt sér stað í laug við Forn-Jerúsalem. Eina kraftaverkið, sem við getum vitað með vissu að hafi gerst þar, var það sem Jesús Kristur gerði þegar hann læknaði mann er hafði verið sjúkur í 38 ár. Við getum viðurkennt að það kraftaverk hafi átt sér stað því að hin innblásna ritning geymir frásöguna af því. (2. Tímóteusarbréf 3:16) En margir Jerúsalembúar á þeim tíma trúðu að önnur kraftaverk hefðu gerst á þessum stað, líkt og margir nútímamenn trúa á kraftaverkalækningar tengda helgum dómum.
Við skulum veita athygli hvað Biblían segir og hvað hún segir ekki: „Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug, sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng. Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra, . . . Þarna var maður nokkur, sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár. Jesús sá hann, þar sem hann lá, og vissi, að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: ‚Viltu verða heill?‘ Hinn sjúki svaraði honum: ‚Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina, þegar vatnið hrærist, og meðan ég er að komast, fer annar ofan í á undan mér.‘ Jesús segir við hann: ‚Statt upp, tak rekkju þína og gakk!‘ Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk.“ — Jóhannes 5:2-9.
Umrædd laug var í grennd við „Sauðahliðið“ sem mun hafa verið í norðausturhluta Jerúsalem í grennd við musterisfjallið. (Nehemía 3:1; 12:39) Við nýlegan uppgröft hafa fundist merki um tvær fornar laugar og eru þar brot úr súlum og súlnastöllum sem gefa til kynna að þar hafi verið bygging með súlnagöngum á dögum Heródesar, eins og Jóhannes 5:2 segir. En hvað hélt fólk á þeim tíma að gæti gerst þar?
Þar sem punktarnir þrír standa í textanum í Jóhannesi 5:2-9 hér á undan er í sumum biblíum að finna 4. vers sem hljóðar svo: „En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins, varð heill, hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.“
Í mörgum nútímabiblíum, meðal annars New World Translation of the Holy Scriptures, er þessi ritningargrein felld niður. Hvers vegna? Vegna þess að allt bendir til að hún hafi ekki verið í guðspjalli Jóhannesar. Neðanmálsathugasemd í The Jerusalem Bible segir að „bestu vitnin“ sleppi þessari ritningargrein. Með orðunum „bestu vitnin“ er átt við forn grísk handrit, svo sem Codex Sinaiticus og Vatíkanhandritið nr. 1209 (bæði frá 4. öld okkar tímatals) og fornar þýðingar á sýrlensku og latínu. Eftir að hafa bent á að ‚4. versið vanti í bestu handritatextana‘ segir The Expositor’s Bible Commentary: „Það er yfirleitt álitið textatúlkun sem skotið var inn til að skýra að vatnið skyldi hrærast með vissu millibili, en almenningur leit svo á að það byggi yfir lækningamætti.“
Biblían segir því alls ekki að engill frá Guði hafi unnið kraftaverk við Betesdalaugina. Áttu sér stað kraftaverkalækningar þegar vatnið hrærðist? Enginn nútímamaður getur sagt neitt um það með vissu. Kannski urðu með einhverjum hætti til arfsagnir þess efnis að sjúkir eða bæklaðir hafi læknast þar. Þegar sögur af meintum lækningum komust á kreik kunna sjúkir að hafa safnast þangað í örvæntingarfullri von um lækningu. Við vitum að það hefur gerst víða um heim á okkar tímum, jafnvel þótt engar skjalfestar sannanir séu fyrir guðlegri lækningu.
Við ættum þó ekki að vera efagjörn á sannleiksgildi frásögunnar af lækningunni sem sonur Guðs gerði við Betesdalaug. Þessi mikli læknir læknaði manninn á augabragði án þess að hann þyrfti að fara út í vatnið. Skjalfest hæfni Jesú til að lækna ætti að gefa okkur tilefni til að horfa fram veginn til þeirrar lækningar sem hann mun inna af hendi í þúsundaáraríkinu sem nú nálgast. Þá mun hann lækna trúfasta menn og lyfta þeim upp til fullkomleika. — Opinberunarbókin 21:4, 5; 21:1, 2.
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 31]
Pictorial Archive (Near Eastern History) Est.