Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • be þjálfunarliður 27 bls. 174-bls. 178 gr. 2
  • Mælt af munni fram

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Mælt af munni fram
  • Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Svipað efni
  • Að nota uppkast
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Samband við áheyrendur og minnisblöð
    Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
  • Málfimi, samtalsform og framburður
    Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
  • Að semja ræður ætlaðar almenningi
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
Sjá meira
Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
be þjálfunarliður 27 bls. 174-bls. 178 gr. 2

Námskafli 27

Mælt af munni fram

Hvað þarftu að gera?

Láttu heyrast á mæli þínu að orðin kvikni sjálfkrafa af skýrt mótuðum hugmyndum.

Hvers vegna er það mikilvægt?

Að mæla af munni fram er áhrifaríkasta leiðin til að halda athygli áheyrenda og örva þá.

ÞÚ HEFUR undirbúið ræðuna samviskusamlega. Efnið er fræðandi, þú getur flutt það reiprennandi og rökfærslan er góð. En ef athygli áheyrenda er tvískipt — ef þeir heyra aðeins glefsur af því sem þú segir af því að hugurinn leitar oft annað — þá er ræðan ekki sérlega áhrifarík. Er líklegt að þér takist að snerta hjörtu þeirra ef þeir eiga erfitt með að einbeita sér að ræðunni?

Það geta verið margar ástæður fyrir því að þetta gerist, en sú algengasta er að ræðumaðurinn er of bundinn við minnisblöðin. Hann flytur ekki ræðuna beint af munni fram. Hann rýnir of oft í minnisblöðin eða er of formfastur í tali. Þessi annmarki er nátengdur undirbúningi ræðunnar.

Ef þú byrjar á því að skrifa orðrétt handrit af ræðunni og reynir síðan að breyta því í uppkast kemstu líklega að raun um að þú átt erfitt með að flytja hana af munni fram. Hvers vegna? Vegna þess að þú ert búinn að festa þig við ákveðið orðalag. Þó að þú flytjir ræðuna eftir uppkasti reynirðu að muna hvaða orð þú notaðir í frumgerð hennar. Útskrifaður texti er formlegri en daglegt talmál og setningagerðin flóknari, og þetta kemur niður á flutningnum.

Í stað þess að skrifa orðrétt handrit að ræðunni skaltu reyna eftirfarandi: (1) Veldu stef þess efnis sem þú ætlar að fjalla um og aðalatriðin sem þú ætlar að nota til að vinna úr því. Sé ræðan stutt nægja kannski tvö aðalatriði. Í lengri ræðu geta þau verið fjögur eða fimm. (2) Skrifaðu undir hvert aðalatriði þá ritningarstaði sem þú ætlar að nota til að vinna úr því og punktaðu hjá þér helstu röksemdir, dæmi og líkingar. (3) Veltu fyrir þér hvernig þú vilt hefja ræðuna. Skrifaðu jafnvel niður fyrstu setninguna eða tvær fyrstu. Og hugleiddu einnig niðurlagsorðin.

Það er mjög mikilvægt að undirbúa sjálfan flutninginn vel. En farðu ekki yfir ræðuna orð fyrir orð í þeim tilgangi að leggja hana á minnið. Þegar þú ætlar að flytja ræðu af munni fram felst undirbúningurinn í því að hugsa um hugmyndirnar í ræðunni en ekki orðin. Farðu yfir hugmyndirnar uns ein leiðir eðlilega af annarri í huga þér. Þetta ætti ekki að vera erfitt ef ræðan er rökrétt uppbyggð og vel úthugsuð, og þá ættirðu að geta flutt hana eðlilega og áreynslulítið.

Líttu á kostina. Einn meginkostur þess að mæla af munni fram er sá að þú talar blátt áfram en það nær langbest til fólks. Fyrir vikið verður flutningurinn líflegri og áhugaverðari fyrir áheyrendur.

Með þessari aðferð nærðu að halda næstum stöðugu augnasambandi við áheyrendur og það auðveldar þér að ná til þeirra. Þar sem þú ert ekki háður minnisblöðunum við hverja setningu sem þú segir fá áheyrendur á tilfinninguna að þú gerþekkir efnið og sért sannfærður um gildi þess sem þú ert að segja. Þessi flutningsaðferð stuðlar því að hlýlegri, samtalslegri ræðu sem nær til hjartans.

Með því að mæla af munni fram er einnig hægt að vera sveigjanlegur. Þá er efnið ekki svo rígbundið að það sé ekki hægt að aðlaga það aðstæðum. Segjum til dæmis að athyglisverð frétt nátengd umræðuefni þínu birtist fyrr um daginn sem þú flytur ræðuna. Væri ekki heppilegt að geta vitnað til hennar? Eða setjum sem svo að þú áttir þig á því, þegar þú ert byrjaður að flytja ræðuna, að það eru mörg börn á skólaaldri meðal áheyrenda. Þá væri gott að geta lagað dæmin, sem þú tekur og umfjöllun þína um þau, að börnunum svo að þau átti sig betur á gildi efnisins.

Annar kostur þess að mæla af munni fram er sá að það örvar hugsun þína. Þakklátir og móttækilegir áheyrendur örva þig þannig að þú ferð ítarlega út í ýmsar hugmyndir og gefur þér tíma til að endurtaka viss atriði í áhersluskyni. Ef þú sérð að áhugi áheyrenda er að dvína geturðu brugðist við því í stað þess að halda áfram að tala yfir annars hugar áheyrendum.

Gættu þín á tálgryfjunum. Þú þarft að sjálfsögðu að gæta þín á tálgryfjum sem fylgja því að mæla af munni fram. Ein er sú að fara fram yfir tímamörkin. Ef þú skýtur of mörgum viðbótarhugmyndum inn í ræðuna gætirðu átt erfitt með að halda þig innan tímamarka. Það má forðast það með því að setja niður á minnisblöðin hve langan tíma þú mátt nota fyrir hvern ræðukafla og fylgja síðan tímaáætluninni nákvæmlega.

Oftraust er önnur tálgryfja sem ræðumenn, einkum reyndir, gætu fallið í. Vanir ræðumenn gætu freistast til þess að henda saman einhverjum hugmyndum í fljótheitum til að geta talað þann tíma sem þeim er úthlutaður. En það er gott að vera hógvær og hafa hugfast að við tökum þátt í fræðsluáætlun þar sem Jehóva er sjálfur hinn mikli kennari. Þetta viðhorf ætti að koma okkur til að biðja um leiðsögn Jehóva og undirbúa okkur vel í hvert sinn sem okkur er falið ræðuverkefni. — Jes. 30:20; Rómv. 12:6-8.

Ræðumenn, sem eru óreyndir í að mæla af munni fram, gera sér kannski meiri áhyggjur af því að þeir kunni að gleyma einhverju sem þeir ætluðu að segja. Láttu það ekki aftra þér frá því að stíga þetta framfaraspor í góðri ræðumennsku. Undirbúðu þig vel og biddu Jehóva að hjálpa þér með anda sínum. — Jóh. 14:26.

Aðrir ræðumenn gera sér svo miklar áhyggjur af orðalagi ræðunnar að þeir veigra sér við því að mæla af munni fram. Vissulega má búast við að orðalagið verði ekki eins fágað og málfræðin ekki eins nákvæm og þegar ræða er flutt eftir handriti, en eðlilegt og aðlaðandi samtalsform bætir það fyllilega upp og meira en það. Fólk tekur best við hugmyndum sem settar eru fram með auðskildum orðum og einföldum setningum. Ef þú undirbýrð þig vel kemur eðlilegt orðalag af sjálfu sér, ekki af því að þú hafir lagt það á minnið heldur af því að þú ert búinn að setja þig nógu vel inn í hugmyndirnar. Og ef þú talar gott mál dags daglega gerir þú það líka uppi á ræðupallinum.

Hvernig eiga minnispunktarnir að vera? Með tímanum og æfingunni lærirðu að stytta minnispunktana svo að þú þarft ekki að skrifa nema fáein orð um hvert atriði í ræðunni. Þú getur síðan haft minnispunktana ásamt þeim ritningarstöðum, sem þú ætlar að nota, aðgengilega á blaði eða spjaldi. Í boðunarstarfinu notarðu yfirleitt örstutt uppkast sem þú leggur á minnið. Ef þú hefur kannað eitthvert mál fyrir endurheimsókn geturðu punktað hjá þér nokkur minnisatriði á miða sem hægt er að stinga inn í Biblíuna. Þú gætir líka notað uppkast í smáritinu Umræðuefni úr Biblíunni eða bókinni Reasoning From the Scriptures (Rökræðubókinni).

Kannski þarftu þó ítarlegri minnispunkta ef þér eru falin nokkur samkomuverkefni á fáeinum vikum, og hugsanlega opinberir fyrirlestrar að auki. Af hverju? Af því að þú þarft að geta hresst upp á minnið áður en þú skilar af þér verkefnunum. En ef þú ert of háður minnisblöðunum til að orða hlutina rétt þegar þú flytur verkefnin — og lítur á blöðin næstum í hverri setningu — þá eru kostirnir við það að mæla af munni fram farnir forgörðum. Séu minnispunktarnir mjög ítarlegir skaltu merkja við fáein orð og ritningarstaði og nota sem uppkast.

Þó að reyndur ræðumaður ætti yfirleitt að mæla að mestu leyti af munni fram getur verið gott að beita öðrum aðferðum inn á milli. Inngangs- og niðurlagsorðin þurfa að vera mjög skýr og vel valin og þá skiptir líka miklu máli að eiga gott augnasamband við áheyrendur. Það getur verið gott að læra þessar setningar utan að. Þegar vísað er í tölur og aðrar staðreyndir, vitnað í orð annarra eða ritningarstaði getur verið mjög áhrifaríkt að lesa.

Þegar þú ert krafinn skýringar. Stundum þurfum við að gera grein fyrir trú okkar án þess að hafa tíma til að undirbúa okkur að nokkru marki. Þetta getur til dæmis gerst úti í boðunarstarfinu þegar viðmælandi kemur með mótbáru. Hið sama getur gerst meðal ættingja, á vinnustað eða í skóla. Yfirvöld geta líka krafið okkur um skýringar á trú okkar, siðum og venjum. Biblían hvetur: „Verið ætíð reiðubúnir að svara hverjum manni sem krefst raka hjá yður fyrir voninni, sem í yður er. En gjörið það með hógværð og virðingu.“ — 1. Pét. 3:15, 16.

Taktu eftir hvernig Pétur og Jóhannes svöruðu æðstaráði Gyðinga, samkvæmt Postulasögunni 4:19, 20. Þeir skýrðu afstöðu sína í aðeins tveim setningum, og tóku mið af því hverjir áheyrendur voru er þeir bentu á að dómstóllinn stæði frammi fyrir sömu spurningu og postularnir. Síðan var Stefán ákærður á fölskum forsendum og leiddur fyrir þennan sama dómstól. Lestu kröftugt en óundirbúið svar hans í Postulasögunni 7:2-53. Hann setti efnið fram í tímaröð. Á viðeigandi stað vakti hann athygli á uppreisnaranda Ísraelsmanna og lauk máli sínu með því að benda á að æðstaráðið hefði sýnt sams konar hugarfar með því að lífláta son Guðs.

Hvað getur hjálpað þér að velja réttu orðin ef þú þarft að gera grein fyrir trú þinni án þess að fá tíma til að undirbúa þig? Líktu þá eftir Nehemía sem bað hljóðrar bænar áður en hann svaraði spurningu Artaxerxesar konungs. (Nehem. 2:4) Taktu síðan saman uppkast í huganum í snatri. Helstu skrefin gætu verið þessi: (1) Veldu eitt eða tvö atriði sem eiga heima í svarinu (þú gætir valið efni úr bókinni Reasoning From the Scriptures (Rökræðubókinni).) (2) Ákveddu hvaða ritningarstaði þú notar til að styðja þessi atriði. (3) Veldu inngangsorðin af nærgætni þannig að spyrjandann langi til að hlusta. Síðan geturðu byrjað að tala.

Ætli þú munir hvað þú átt að gera þegar þú ert undir álagi? Jesús sagði fylgjendum sínum: „[Hafið ekki] áhyggjur af því, hvernig eða hvað þér eigið að tala. Yður verður gefið á sömu stundu, hvað segja skal. Þér eruð ekki þeir sem tala, heldur andi föður yðar, hann talar í yður.“ (Matt. 10:19, 20) Þetta merkir ekki að þér verði gefin einhver sérstök málspeki eins og frumkristnum mönnum. (1. Kor. 12:8) En Jehóva veitir þjónum sínum menntun í kristna söfnuðinum og ef þú notfærir þér hana að staðaldri mun heilagur andi minna þig á nauðsynlegar upplýsingar þegar þú þarft á þeim að halda. — Jes. 50:4.

Það getur verið mjög áhrifaríkt að mæla af munni fram. Ef þú æfir þig reglulega í því þegar þú ert með verkefni í söfnuðinum, þá þarf ekki að vera erfitt fyrir þig að svara undirbúningslaust þegar þörf krefur, því að sama aðferðin er notuð til að gera uppkast. Vertu ekki hikandi. Þú gerir þjónustu þína á akrinum áhrifameiri með því að læra að tala af munni fram. Og ef þú færð að flytja ræður í söfnuðinum áttu auðveldara með að halda athygli áheyrenda og snerta hjörtu þeirra.

AÐ NÁ ÁRANGRI

  • Minntu sjálfan þig á kosti þess að mæla af munni fram.

  • Semdu einfalt uppkast í stað þess að skrifa ræðuna upp orðrétta.

  • Undirbúðu flutninginn með því að rifja upp hvert aðalatriði út af fyrir sig. Gerðu þér ekki óþarfar áhyggjur af orðalagi heldur leggðu áherslu á að vinna rökrétt úr hugmyndum.

ÆFINGAR: (1) Strikaðu aðeins undir lykilorð en ekki heilar setningar þegar þú býrð þig undir Varðturnsnámið. Svaraðu með eigin orðum. (2) Byrjaðu á að rifja upp í huganum stefið og aðalatriðin tvö eða þrjú þegar þú býrð þig undir næsta verkefni í skólanum.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila