Þau slá ekki slöku við að bera vitni
1 Nafn okkar, vottar Jehóva, auðkennir okkur og lýsir því sem við gerum. Við berum vitni um ágæti Guðs okkar, Jehóva. (Jes. 43:10, 12) Hver og einn verður að taka þátt í að bera vitni ef hann á að verða meðlimur safnaðarins. Við berum vitni fyrst og fremst með boðunarstarfi okkar meðal almennings, og er þar með talið að starfa hús úr húsi, á götum úti, fara í endurheimsóknir og stýra biblíunámum. Við erum öll réttilega hvött til að reyna að eiga fulla hlutdeild í því. — 1. Kor. 15:58.
2 Það eru hins vegar takmörk fyrir því hve mikið sumir safnaðarmeðlimir geta gert. Alvarleg veikindi eða hrumleiki getur sett þeim skorður. Mótsnúnir ættingjar kunna að hindra þá verulega. Foreldri, sem ekki er í trúnni, setur ef til vill hömlur á ungmenni. Þeim sem búa á einangruðum svæðum án samgangna kann að finnast þeir múlbundnir. Meðfædd feimni gæti látið óframfærna einstaklinga veigra sér við að vitna. Sumum boðberum, sem eru í þess konar eða svipaðri aðstöðu, finnst kannski að þeir standi sig ekki sem kristnir menn vegna þess að það sem þeir geti gert sé miklu minna en það sem aðrir gera og minna en þá langar í raun til að gera. Það er engin ástæða fyrir þá að gera lítið úr eigin viðleitni. (Gal. 6:4) Þeir geta huggað sig við þá vitneskju að Jehóva er ánægður þegar þeir gera sitt besta við þær aðstæður sem þeir búa. — Lúk. 21:1-4.
3 Að finna leið til þátttöku: Við höfum þúsundir dæma um hvernig einstaklingar, sem búa við erfiðar aðstæður, hafa ekki leyft hindrunum að koma í veg fyrir að þeir bæru vitni. Að eigin frumkvæði létu þeir sér detta í hug margvíslegar leiðir til að bera óformlega vitni. Þeir sem eiga ekki heimangengt hafa notað símann til að opna víðar dyr. Litið er á hvern þann sem ber að garði sem mögulegan áheyranda. Jafnvel þótt eiginkona með mótsnúna fjölskyldu geti ef til vill ekki borið vitni á heimilinu notfærir hún sér tækifærin til að tala við nágranna eða aðra sem hún hittir í dagsins önn.
4 Foreldri, sem ekki er í trúnni, kann að banna ungmenni að taka þátt í boðunarstarfinu meðal almennings. Í stað þess að taka það sem óyfirstíganlega hindrun gæti það litið á bekkjarfélaga sína og kennara sem sitt eigið „starfssvæði“ og haft tök á að gefa góðan vitnisburð og stýra ef til vill biblíunámi. Margir sem búa á einangruðum svæðum hafa getað tekið þátt í starfinu með því að skrifa bréf. Ef kristin kostgæfni knýr menn til verka finna þeir alltaf leið til að verða ekki „iðjulausir né ávaxtalausir í þekkingunni á Drottni vorum Jesú Kristi.“ — 2. Pét. 1:8.
5 Jehóva gerir sömu kröfu til allra um hlutdeild í vitnisburðarstarfinu, nefnilega að við vinnum „af heilum huga.“ (Kól. 3:23) Þó að við notum mismikinn tíma og áorkum ekki öll jafnmiklu er hvötin, sem að baki býr, sú sama — ósvikinn kærleikur af „öllu hjarta.“ (1. Kron. 28:9; 1. Kor. 16:14) Ef við gefum okkar besta höfum við aldrei ástæðu til finnast okkur skorta trú eða að við séum gagnslaus sem meðlimir safnaðarins af því að það sem við getum gert sé lítið að vöxtum. Eins og Páll getum við með sanni sagt að ‚við höfum ekkert dregið undan, sem mönnum mætti að gagni verða, heldur boðað það og kennt opinberlega.‘ — Post. 20:20.