Skólinn hefst á ný
1 Í septembermánuði hefst skólinn aftur hjá börnum okkar og unglingum með nýju skólaári. Þar eiga þau von á mörgu ánægjulegu en þau geta líka borið kvíðboga fyrir sumu. Mörg börn fá nýja kennara, byrja á nýjum áfanga og lenda í nánum félagsskap við ókunna nemendur. Unga fólkið okkar vill vera samvinnuþýtt við skólayfirvöld og þægilegt við skólasystkini sín, en það ætti að hafa í huga að það verður að vera á varðbergi gegn hverju því sem gæti verið andlega skaðlegt. — 1. Kor. 15:33.
2 Börn og unglingar meðal votta Jehóva þurfa að gefa því vandlega gaum að forðast spillandi áhrif heimsins sem gagnsýra menntakerfin í mörgum löndum nú á dögum. Kristnir menn, ungir sem aldnir, verða af hugrekki að hafna þeim veraldlegu mælikvörðum og hugsunarhætti sem núna er verið að ýta undir í siðferðismálum, og þeim er nauðsynlegt að vera á verði með því að „gefa gaum“ að orði Jehóva og láta það leiðbeina sér. (Sálm. 119:9) Umhyggjusamir foreldrar þurfa að vera upplýstir um hvað er innifalið í námsskrá skólans til þess að geta veitt börnum sínum þá leiðsögn sem við hæfi er. Ef það sem kennt er í skólanum eða annars staðar gengur í berhögg við þann heilagleika og hreinleika, sem krafist er af þjónum Jehóva, verður að sneiða hjá slíku efni. — 1. Pét. 1:15, 16.
3 Það er einnig talsvert algengt að skólanemendur standi andspænis málum er varða þjóðernislegar siðvenjur eða athafnir, hátíðarhöld og helgidaga, íþróttastörf eða boð, hópferðir og annað slíkt. Bæklingurinn School and Jehovah’s Witnesses (Skólinn og vottar Jehóva) getur reynst kristnum ungmennum gagnlegur í þessu efni. Bæklingurinn er ekki til á íslensku en margir foreldrar gætu engu að síður farið yfir hann með börnum sínum og rætt um efni hans og staðfært eftir því sem við á. Ef foreldrar ungra barna eiga frumkvæðið að því að fara til kennara barna sinna og ræða við þá um efni bæklingsins og jafnvel láta þá fá eintak getur það komið í veg fyrir að börnin þeirra lendi í erfiðum aðstæðum eða að minnsta kosti mildað þær. Foreldrarnir geta útskýrt fyrir kennaranum hvernig samtal þeirra og efni bæklingsins muni hjálpa honum að skilja hvers vegna vottar Jehóva velja að taka ekki þátt í vissri starfsemi. Ef kennarinn hefur aðgang að slíkum upplýsingum getur það stuðlað mjög að því að góður samstarfsandi skapist milli hans annars vegar og barnanna og foreldra þeirra hins vegar.
4 Þess fyrir utan væri gott fyrir kristna skólanemendur að hafa nokkur eintök af smáritum með sér í skólann. Oft gefst tækifæri til að bera vitni fyrir öðrum nemendum sem spyrja spurninga þegar athyglin beinist að trúarskoðunum okkar. Börn votta Jehóva ættu alltaf að hafa á sér blóðkortið, „Upplýsingar um læknismeðferð,“ eða Nafnskírteinið og þess gætt að það sé rétt útfyllt, vottað, undirritað og ekki orðið of gamalt. Þeir sem taka til sín þessa áminningu eru vissulega eins og „vitur maður [sem] sér ógæfuna og felur sig.“ — Orðskv. 22:3.