Láttu tölvutæknina ekki glepja þér sýn
1 Páll postuli hvatti kristna menn á fyrstu öldinni til að láta ekkert trufla sig vegna þess að „tíminn er orðinn stuttur.“ (1. Kor. 7:29) Núna nálgast endir þessa heimskerfis æ meir og því er brýnt að við ‚leitum fyrst ríkis Guðs og réttlætis‘ og ‚notum hverja stund.‘ Tíminn er dýrmætur. — Matt. 6:33; Ef. 5:15, 16.
2 Tæknin hefur verið lofuð fyrir að spara mikinn tíma. Til dæmis getur tölvunotandi með því að ýta á einn hnapp haft samstundis aðgang að óhemju upplýsingamagni. Tölvur geta oft gert á nokkrum sekúndum það sem tæki margar klukkustundir eða vikur eftir öðrum leiðum. Þær eru gagnleg tæki þegar þær eru notaðar á réttan hátt.
3 Er það í rauninni tímasparnaður?: Slík tækni kemur þó ekki upp í hendur notandans án talsverðs kostnaðar — bæði í fjármunum og tíma. Það getur tekið margar klukkustundir að læra hvernig eigi að láta tölvuna vinna eitthvert verkefni. Ef tæknin sjálf grípur áhuga manns getur hún auk þess étið upp tíma sem betur mætti verja. Í stað þess að láta tæknina glepja okkur sýn verðum við að hafa hugfasta frumregluna í áminningu Páls um að ‚breyta sem vísir og nota hverja stund.‘ — Sjá 1. Korintubréf 7:31.
4 Ýmsir hafa með gott eitt í huga hannað tölvuforrit til að halda utan um safnaðarskýrslur og -skrár. Það er að sjálfsögðu ákvörðun hvers og eins hvernig hann notar tölvuna sína. Hins vegar lætur Félagið söfnuðunum í té eyðublöð fyrir skrýrslur og skrár og ætti ekki að halda þær á tölvu vegna þess að börn og aðrir óviðkomandi gætu þá nálgast þær. Allar safnaðarskýrslur — reikningshaldsskýrslur, boðberakort og svo framvegis — ætti að halda á þessum prentuðu eyðublöðum og upplýsingarnar á þessum safnaðareyðublöðum ætti ekki að geyma í tölvu. Á þennan hátt má varðveita trúnaðarskýrslur safnaðarins.
5 Ábyrgir umsjónarmenn ættu að beita góðri dómgreind þegar þeir úthluta verkefnum og atriðum í Guðveldisskólanum og fyrir þjónustusamkomuna. Þeir þurfa að taka mið af því efni sem fara á yfir. Í skólanum, til dæmis, kann sumt efni að vera þess eðlis að ekki sé viðeigandi að hver sem er flytji ræðu um það. Hugleiða skyldi í hvaða tilgangi efnið sé sett fram, svo og hæfni viðkomandi einstaklings og hvert eðli efnisins er. Tölva skyldi ekki látin um að ákveða þetta og úthluta verkefnum.
6 Bróðir, sem fær úthlutað dagskráratriði á safnaðarsamkomu, ætti ekki að treysta á efni sem einhver annar hefur útbúið, sér í lagi einstaklingur sem hann þekkir ekki, aðeins vegna þess að það er fáanlegt á einhverju tölvuneti og það sparar honum vinnu að nota það. Ábyrgir kristnir menn ætla sér ekki þá dul að útbúa biblíuræður eða samkomuatriði og leggja þau inn í gagnabanka tölvuneta þar sem þau eru tiltæk öðrum til afnota. Tölvan og Varðturnsbókasafn (Watchtower Library) Félagsins á geisladisk getur verið gagnlegt verkfæri í höndum bróðurins sem einstaklings, stuðlað að árangursríku grúski eða efniskönnun á þeim takmarkaða tíma sem hægt er að verja til slíks.
7 Hvað varðar það að afrita og dreifa tölvuforritum, listum og tilheyrandi prentuðum leiðarvísum meðal bræðranna, svo og að semja atriði til flutnings á þjónustusamkomu og í Guðveldisskólanum og dreifa þeim í rafrænu formi eða á annan hátt, er vert að hafa hugfast að yfirleitt er betra fyrir bræður að semja sitt eigið efni og þá með hag eigin safnaðar í huga. (1. Tím. 4:13, 15) Sambönd innan guðveldisins skyldi ekki undir nokkrum kringumstæðum nota til að hafa af þeim fjárhagslegan hagnað.
8 Hvað um það að dreifa tölvuútprentun á ritningarstöðum sem notaðir eru í Varðturnsnáminu eða í safnaðarbóknáminu? Það kann að vera ákjósanlegra fyrir boðbera að setja sínar eigin athugasemdir og merki í ritið sem verið er að nema. Ef tekin er með á samkomuna útprentun ritningarstaða sem vísað er til í námsritinu getur það dregið úr notkun Biblíunnar sjálfrar við að finna þessi vers. Að fletta upp ritningarstöðum í biblíunámi eða á safnaðarsamkomu er hluti þeirrar þjálfunar sem þar er veitt og gerir okkur fær um að nota Biblíuna á áhrifaríkan hátt í boðunarstarfinu. Í flestum tilvikum, og einkum þegar tilvitnanirnar eru langar, er áhrifaríkara að lesa beint úr Biblíunni og sér í lagi þegar áheyrendurnir eru hvattir til að fylgjast með í Biblíunni.
9 Önnur hættuleg tálgryfja: Eins og minnst er á í Varðturninum, 1. febrúar 1994, blaðsíðu 15, getur tölvutenging við „skrafþing“ eða „tölvutorg“ opnað leiðina að alvarlegum andlegum hættum. Alveg eins og ófyrirleitinn maður getur sett tölvuvírus — tölvuforrit sem gert er til að spilla og eyðileggja tölvuskrár — inn á tölvutorg, geta fráhvarfsmenn, klerkar og menn sem leitast við að spilla öðrum siðferðislega eða á annan hátt borið eitraðar hugmyndir sínar óhindrað á tölvutorg. Á tölvutorgi, jafnvel þeim sem merkt eru „JW only [aðeins fyrir votta Jehóva],“ geta kristnir notendur tölvuneta komist í ‚slæman félagsskap‘ ef ekki er viðeigandi umsjón með tölvutorginu og aðgangur að því takmarkaður við þroskaða, trúfasta þjóna Jehóva. (1. Kor. 15:33) Félagið hefur fregnað að slík svonefnd einkanet hafi verið notuð ekki aðeins til vangaveltna um andleg efni heldur einnig til að gefa slæm ráð, dreifa slúðri og ósönnum upplýsingum, gróðursetja neikvæðar hugmyndir, bera fram spurningar og sá efasemdum sem spilla trú sumra og dreifa út einkatúlkunum á ritningargreinum. Á yfirborðinu virðast sumar upplýsingar ef til vill áhugaverðar og fræðandi en eitthvað eitrað hangir samt ef til vill á spýtunni. Kristnir menn sækja tímabæra andlega fæðu og útskýringar til hins „trúa og hyggna þjóns.“ (Sjá Varðturninn, 1. mars 1995, blaðsíðu 9-11.) Á kristnum manni hvílir sú alvarlega ábyrgð að verja trú sína fyrir öllum spillandi áhrifum og til að geta sinnt henni ætti hann alltaf að vita hverja hann umgengst. — Matt. 24:45-47; 2. Jóh. 10, 11.
10 Þessi sama grein í Varðturninum undirstrikaði mikilvægi þess að virða lög um höfundarrétt. Flest fyrirtæki, sem útbúa og selja hugbúnað fyrir tölvur, áskilja sér höfundarrétt og forritunum fylgir leyfi þar sem tekið er fram hver lögleg notkun þeirra er. Leyfið segir yfirleitt að eigandinn megi ekki gefa öðrum afrit af forritinu; raunin er sú að samkvæmt alþjóðlegum lögum um höfundarrétt er það lögbrot. Lögbrot kemur ekki hið minnsta við samvisku margra ágjarnra manna. Kristnir menn ættu þó að vera samviskusamir varðandi ákvæði laganna og greiða keisaranum það sem keisarans er. — Matt. 22:21; Rómv. 13:1.
11 Sum stórfyrirtæki selja tölvur sem hugbúnaður hefur verið settur inn á með leyfi höfundar hans. Í sumum löndum er hins vegar að finna tölvubúðir þar sem leyfi til að nota hugbúnaðinn í tölvunum fylgir ekki með í kaupunum vegna þess að forritin eru ólögleg afrit. Skylt þessu er það að leggja inn á tölvutorg eða ná sér þar í efni sem er með höfundarrétti (eins og rit Félagsins) og sem er afritað án löglegrar heimildar frá eigendum þess; kristnir menn ættu að forðast slíkt. — Hebr. 13:18.
12 Hvenær sem menn hyggjast beita tækninni verða þeir að vega og meta hvort hætturnar, sem í því felast, séu óverulegar miðað við kostina. Hafa má góð not af sjónvarpinu, en hin óheilnæmu áhrif, sem það hefur núna á þorra manna, hafa jafnvel fengið fólk í heiminum til að lýsa yfir verulegum áhyggjum af þróun mála. Tölvunet teygja sig nú orðið um allan heim og geta gefið mönnum bæði á heimili og vinnustað aðgang að ótakmörkuðum, gagnlegum upplýsingum. Þau bjóða fyrirtækjum og stofnunum, svo og einstaklingum sem þurfa að halda í við það sem er að gerast í viðskiptaheiminum í hinu hraða nútímaþjóðfélagi, upp á þjónustu sem mikil þörf er á. En óprúttnir menn notfæra sér líka tölvunetin til að koma á framfæri klámi, sundrandi hatursáróðri og nákvæmum upplýsingum um hvernig framkvæma eigi viðurstyggileg og ill verk.
13 Það eru þess vegna margar mikilvægar ástæður fyrir því hvers vegna kristinn maður má ekki láta tölvutæknina glepja sér sýn. Félagið hefur gefið út á ensku á tölvudisklingum Nýheimsþýðinguna og tveggja binda verkið Innsýn í Ritninguna, svo og tölvuforritið GetVerse, og margir nýta sér þessa tækni. Aðrir hafa haft gagn af því að nota Watchtower Library sem Félagið hefur gefið út á geisladisk til notkunar í tölvu og gefur kost á enn meira grúski og rannsóknum. Jafnframt því að gera sér ljóst gildi vissrar tækni ætti sá sem nýtir sér slíka nútímatækni í gagnlegum tilgangi að gæta þess líka að vernda sig og aðra gegn neikvæðum hliðum hennar. Við þurfum að gæta jafnvægis til þess að jafnvel skaðlaus notkun tækninnar taki ekki til sín óhóflega mikið af tíma okkar eða dragi okkur frá því sem við viljum fyrst og fremst sinna og keppa að. — Matt. 6:22; 28:19, 20.