Gerið allt Guði til dýrðar
1 Það er sannarlega hressandi að safnast saman með okkar kæru bræðrum og systrum! (1. Kor. 16:17, 18) Við gerum það á samkomum, mótum og í boðunarstarfinu. Við eigum einnig stundir saman við óformleg tækifæri, eins og þegar við höfum gesti í heimsókn á heimili okkar. Þegar við gerum það sýnum við gestrisni og uppörvum hvert annað. (Rómv. 12:13; 1. Pét. 4:9) Þegar brúðkaupsveislur eru haldnar skulum við hafa hugfastar góðu ráðleggingarnar í Varðturninum frá 1. janúar 1985.
2 Skipulögð boð: Hvort sem við ‚etum eða drekkum eða hvað sem við gerum‘ ættum við að ‚gera það allt Guði til dýrðar.‘ (1. Kor. 10:31-33) Ekki fara allir eftir þessum ráðleggingum og vandamál halda áfram að koma upp vegna skemmtiboða sem eru stærri en svo að hægt sé að hafa viðeigandi umsjón með því sem fram fer. Í nokkrum tilvika skipta þeir hundruðum sem boðið er til mannfagnaðar sem mikið er lagt í og þar sem veraldlegir skemmtikraftar leika stórt hlutverk. Stundum er farið fram á aðgangseyri eða aðra þóknun. Slík boð líkjast mjög veraldlegum skemmtunum, en andinn í slíkum skemmtunum samræmist ekki góðu velsæmi og biblíulegum frumreglum. — Rómv. 13:13, 14; Ef. 5:15-20.
3 Skýrt hefur verið frá því sums staðar að stórir hópar votta hafi safnast saman á stöðum sem teknir hafa verið á leigu og skemmtiatriðin þar verið óheilnæm og veraldleg og viðeigandi umsjón ekki verið fyrir hendi. Svipaðar „uppákomur“ hafa átt sér stað á hótelum eða fjölsóttum dvalarstöðum og verið auglýstar sem helgarskemmtun fyrir „votta Jehóva.“ Vegna þess hve erfitt er að hafa viðeigandi umsjón með svo stórum hópum hafa komið upp vandamál. Stundum hefur afleiðingin orðið uppivöðslusemi, ofneysla áfengra drykkja og jafnvel siðleysi. (Ef. 5:3, 4) Boð eða skemmtisamkomur, þar sem slík hegðun á sér stað, heiðra ekki Jehóva. Þess í stað eru þau álitshnekkir fyrir söfnuðinn og hneyksla aðra. — 1. Kor. 10:23, 24, 29.
4 Kristnir menn eru hvattir til að sýna gestrisni, en áherslan ætti að vera á gagnkvæm andleg samskipti. (Rómv. 1:11, 12) Yfirleitt er best að koma saman til afþreyingar í litlum hópum. Í Þjónustubókinni okkar segir á blaðsíðu 135-6: „Stundum er ef til vill nokkrum fjölskyldum boðið heim til einhvers til kristins félagsskapar. . . . Eðlilegt er að þeir sem eru gestgjafar við slík tækifæri telji sig persónulega ábyrga fyrir því sem fram fer. Með þetta í huga hafa glöggir kristnir menn séð viskuna í því að takmarka stærð slíkra hópa og lengd slíkra boða.“ Jesús gaf til kynna að ekki þurfi að vera krásir á borðum þegar markmið okkar er að uppörva vini okkar andlega. — Lúk. 10:40-42.
5 Það er gott að sýna öðrum kristnum mönnum gestrisni. Hins vegar er stór munur á látlausu samkvæmi á heimili okkar og margbrotnum fagnaði, sem endurspeglar veraldlegan anda, á leigðum stað. Þegar þú býður öðrum að vera gestir þínir ættir þú að vera viss um að þú getir tekið fulla ábyrgð á því sem fram fer. — Sjá Varðturninn frá 1. febrúar 1993, blaðsíðu 29-32.
6 Jehóva hefur sannarlega blessað okkur með bræðrafélagi sem getur orðið okkur til hressandi uppörvunar er hvetur okkur til að halda áfram að vinna góð verk. (Matt. 5:16; 1. Pét. 2:12) Ef við sýnum hæversku og skynsemi hvað varðar skemmtun og afþreyingu munum við alltaf vera Guði til dýrðar og öðrum til uppbyggingar. — Rómv. 15:2.