Við þörfnumst safnaðarins
1 Synir Kóra tjáðu eitt sinn hve mikils þeir mætu söfnuð Jehóva með þessum orðum: „Einn dagur í forgörðum þínum er betri en þúsund aðrir.“ (Sálm. 84:11) Í þeirra augum komst ekkert, sem heimurinn hafði að bjóða, í samjöfnuð við þetta. Ef þú ert sama sinnis ættir þú að gera söfnuðinn að miðpunktinum í lífi þínu.
2 Kristni söfnuðurinn hefur, allt frá því er hann var stofnaður, sýnt að hann nýtur blessunar Jehóva. (Post. 16:4, 5) Enginn okkar ætti að taka söfnuðinn sem sjálfsagðan hlut eða finnast hann einfaldlega verkfæri til að safna okkur líkamlega saman. Í söfnuðinum fá vottar Jehóva á hverjum stað uppörvun og styrk. Hann gerir okkur kleift að safnast saman í einingu til þess að við getum fengið fræðslu frá Jehóva og boðað Guðsríki á skipulegan hátt. — Jes. 2:2.
3 Kristni söfnuðurinn er grundvallarverkfærið til að kenna okkur sannleikann. (1. Tím. 3:15) Fylgjendur Jesú verða ‚allir að vera eitt‘ — í einingu við Guð, við Krist og hver annan. (Jóh. 17:20, 21; samanber Jesaja 54:13.) Hvar sem við komum í heiminum trúa bræður okkar kenningum og frumreglum Biblíunnar og hegða sér í samræmi við þær.
4 Við fáum góða þjálfun og frábær verkfæri til að sinna til fulls því verkefni okkar að gera menn að lærisveinum. Í hverjum mánuði koma Varðturninn, Vaknið! og Ríkisþjónusta okkar með gagnlegar upplýsingar til að hjálpa okkur að færa biblíuleg málefni á tal við alls konar fólk. Safnaðarsamkomurnar miða að því að sýna okkur hvernig við getum fundið áhugasamt fólk og kynnt undir áhuga þess. Aukningin, sem við sjáum um heim allan, sannar að við njótum stuðnings frá himni í þessu starfi. — Matt. 28:18-20.
5 Í gegnum söfnuðinn fáum við daglega uppörvun sem ‚hvetur okkur til kærleika og góðar verka.‘ (Hebr. 10:24, 25) Við styrkjumst til að standast margvíslegar raunir án þess að slaka nokkru sinni á trúfesti okkar. Kærleiksríkir umsjónarmenn hjálpa okkur að takast á við álag og áhyggjur. (Préd. 4:9-12) Við fáum nauðsynlegar ráðleggingar þegar okkur hættir til að leiðast afvega. Hjá hvaða skipulagi öðru er að finna svo kærleiksríka umhyggju? — 1. Þess. 5:14.
6 Jehóva vill að við höldum okkur fast við skipulag hans til að varðveita einingu okkar. (Jóh. 10:16) Söfnuðurinn hjálpar okkur að viðhalda sambandi við hinn trúa þjón með því meðal annars að senda farandumsjónarmenn okkur til uppörvunar. Þegar við bregðumst vel við kærleiksríkri leiðsögn tengir það okkur nánum böndum sem stuðlar að því að halda okkur andlega sterkum.
7 Söfnuðurinn er okkur lífsnauðsynlegur til þess að lifa af andlega. Án hans væri ógerlegt að þjóna Jehóva svo honum líkaði. Við skulum þess vegna halda okkur fast við það sem Jehóva hefur af mikilli gæsku látið okkur í té. Megum við starfa í samræmi við markmið safnaðarins og taka af heilindum við þeim ráðleggingum sem við fáum þar. Það er okkar eina leið til að sýna hversu mikla þýðingu söfnuðurinn hefur fyrir okkur. — Sálm. 27:4.