„Hvaðan koma peningarnir?“
1 Myndbandið „Vottar Jehóva — skipulagið að baki nafninu“ vekur hrifningu þeirra sem á horfa. Þeir sjá snyrtilega karla og konur af ýmsum kynþáttum og uppruna vinna brosandi saman í einingu. Það eru ekki einungis þessar þúsundir ánægðra starfsmanna sem vekja athygli þeirra heldur líka hinar miklu samstæður bygginga á höfuðstöðvum Félagsins í Brooklyn og á búgarðinum við Wallkill í New York. Myndbandið sýnir að innan veggja þessara bygginga er að finna nýjustu tækni — hraðvirkar prentvélar og bókbandsvélar sem framleiða margar milljónir rita á mánuði, fjölbreyttan og fullkominn tölvubúnað og heila fylkingu þjónustudeilda.
2 Það er augljóst að þetta kostar allt mikla fjármuni. Þess vegna spyrja sumir: „Hvaðan koma peningarnir?“
3 Þeir sem heimsækja aðalstöðvar Félagsins eru á sama hátt mjög hrifnir. Þeir teygja fram álkuna til að skoða nýju 30-hæða íbúðarbygginguna sem er ein af mörgum sem hýsir þá rúmlega 3000 starfsmenn sem þar vinna. Heimsókn til hinnar nýju menntamiðstöðvar Varðturnsins, sem er um 110 kílómetra norður af Brooklyn, lætur einnig marga falla í stafi af hrifningu. Smíði hennar er ekki að fullu lokið en þar búa um 1200 starfsmenn. Tveir bekkir trúboða munu fá þar þjálfun ár hvert og vera sendir til starfa í öðrum löndum. Það er einnig frá þessum stað sem hinir rúmlega 10.000 söfnuðir votta Jehóva í Bandaríkjunum fá leiðbeiningar. Margar deildarskrifstofur víða um heim hafa líka stækkað við sig nýlega eða eru að því núna. Öll þessi starfræksla kallar á verulegar fjárhæðir. Fólk spyr: „Hvaðan koma peningarnir?“
4 Svarið er að þeir koma frá venjulegu fólki eins og okkur. Þetta er fólk út um allan heim sem vill gera allt sem það megnar til að styðja hið lífsnauðsynlega kristna boðunar- og kennslustarf. Slíkur fúsleiksandi er ekkert einsdæmi í sögunni.
5 Fordæmi Ísraelsmanna til forna: Fyrir meira en 3500 árum var þörf á rausnarlegum framlögum. Jehóva hafði boðið Móse að láta reisa tjaldbúð eða ‚samfundatjald‘ til nota við tilbeiðsluna á honum. Fyrirmæli Guðs um gerð hennar kölluðu á margs konar verðmæta hluti. Fyrirmæli Jehóva voru þessi: „Færið [Jehóva] gjöf af því, sem þér eigið. Hver sá, er gefa vill af fúsum huga, beri fram gjöf [Jehóva] til handa.“ (2. Mós. 35:4-9) Hvernig brást fólkið við? Frásagan segir okkur: „Komu þá allir, sem gáfu af fúsum huga og með ljúfu geði, og færðu [Jehóva] gjafir til að gjöra af samfundatjaldið og allt það, sem þurfti til þjónustugjörðarinnar í því og til hinna helgu klæða.“ Þessar „sjálfviljagjafir“ urðu smám saman svo miklar að þær urðu ‚miklu meiri en þörf gjörðist til að vinna það verk sem Jehóva hafði boðið að gjöra.‘ (2. Mós. 35:21-29; 36:3-5) Fólkið sýndi svo sannarlega óeigingjarnan og örlátan anda!
6 Ekki voru liðin 500 ár þegar aftur var kallað eftir örlátum framlögum frá Ísraelsmönnum. Þrá Davíðs konungs að reisa Jehóva varanlegt hús í Jerúsalem var um það bil að verða að veruleika fyrir milligöngu Salómons sonar hans. Davíð safnaði sjálfur saman og lagði fram stóran hluta af því sem þurfti til byggingarinnar. Aðrir slógust í hópinn þegar Davíð kallaði eftir ‚ríflegum fórnargjöfum‘ Jehóva til handa. Hver varð árangurinn? „Þá gladdist lýðurinn yfir örlæti þeirra, því að þeir höfðu af heilum hug fært [Jehóva] sjálfviljagjafir, og Davíð konungur gladdist einnig stórum.“ (1. Kron. 22:14; 29:3-9) Aðeins silfrið og gullið myndu kosta meira en 3250 milljarða króna á núvirði. — 2. Kron. 5:1.
7 Af þessum dæmum er ljóst að enginn var þvingaður til að gefa. Þetta voru algerar „sjálfviljagjafir“ og gefnar „af heilum hug.“ Ekkert minna hefði verið Jehóva þóknanlegt. Þegar álíka tækifæri kom upp til að leggja fram peninga til hjálpar þurfandi kristnum mönnum skrifaði Páll postuli að slíkar gjafir skyldu ekki vera „nauðung.“ Hann bætti við: „Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara.“ — 2. Kor. 9:7.
8 Þörfin nú á dögum: Er þörf á fjárframlögum nú á dögum? Svo sannarlega, og hún eykst jafnvel með tímanum. Hvers vegna?
9 Kristnir menn hafa fengið sérstök fyrirmæli varðandi þessa tíma endalokanna. Jesús sagði lærisveinum sínum: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ — Matt. 28:19, 20.
10 Það krefst bæði verulegs tíma og fjármuna að framkvæma þetta mikla kennslu- og prédikunarstarf þegar við nálgumst æ meir ‚endalok veraldar.‘ Hvers vegna? Vegna þess hve mikið er falið í því að flytja boðskapinn um Guðsríki „allt til endimarka jarðarinnar.“ (Post. 1:8) Gyðingar á fyrstu öldinni voru vel að sér í Ritningunni en það eru fæstir manna nú á dögum. Verulegur hluti íbúa jarðarinnar þekkir ekki einu sinni Biblíuna og lítur ekki á hana sem orð Guðs. Þjálfa þarf prédikara og senda þá til fjarlægra landa. (Rómv. 10:13-15) Og ímyndaðu þér hversu mörg tungumál er hér um að ræða. Þeir sem prédikað er fyrir þurfa að hafa biblíur og biblíutengd rit til að lesa og nema á sínu eigin máli. Það þarf stórt og mikið skipulag til að ná kerfisbundið og stig af stigi til allra og koma þeim til andlegs þroska svo að þeir geti síðan hjálpað öðrum. — 2. Tím. 2:2.
11 Jesús sagði að ‚fagnaðarerindið um ríkið yrði fyrst að vera prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá myndi endirinn koma.‘ (Matt. 24:14) Núna er þess vegna tíminn til að verja öllu því sem við getum til þess að vinna þetta bráðnauðsynlega starf. Efnum okkar verður ekki betur varið áður en efnislegur auður hættir að hafa hagnýtt gildi. — Esek. 7:19; Lúk. 16:9.
12 Hvert fara peningarnir? Varðturnsfélagið gefur út biblíurit á fleiri en 230 tungumálum, svo og á blindraletri og myndbönd á táknmáli fyrir heyrnarlausa. Það kallar á teymi þýðenda og próflesara á hverju tungumáli. Varla er hægt að ímynda sér alla þá vinnu sem í þessu felst, einkum við tímaritið Varðturninn sem kemur út í hverjum mánuði á 121 tungumáli og af þeim eru 101 samtímaútgáfur. Það er engu að síður nauðsynlegt til þess að fólk um alla jörð geti fengið og lesið sömu upplýsingarnar. Ár hvert verður verðhækkun á pappír og öðru hráefni sem notað er til að gefa boðskapinn um Guðsríki út í prentuðu máli eða á hljóðsnældum eða myndböndum. Slíkum kostnaði verður að mæta með frjálsum framlögum frá bræðrunum.
13 Prédikunar- og kennslustarfið er unnið á svæðum sem meira en 75.000 söfnuðir votta Jehóva um allan heim annast. Til að samræma starf safnaðanna og uppörva þá heimsækja þjálfaðir farandumsjónarmenn hvern söfnuð um það bil tvisvar á ári. Mót gegna líka mikilvægu hlutverki í að veita fræðslu. Leigja þarf stóra sali eða leikvanga fyrir umdæmismótin sem eru svo trústyrkjandi. Framlög þín eru einnig notuð í þessum tilgangi.
14 Mótin eru yfirleitt haldin aðeins þrisvar á ári en hver söfnuður hefur fimm samkomur á viku. (Samanber 2. Mósebók 34:23, 24.) Innstreymi nýs fólks, sem brugðist hefur vel við fagnaðarboðskapnum, hefur þýtt að söfnuðunum fjölgar um mörg þúsund á hverju ári. Með hjálp fjármagns, sem í heild nemur milljónum dollara og lánað er út fyrir milligöngu Félagsins, eru reistir hundruð nýrra ríkissala ár hvert og margir aðrir eru endurbættir og stækkaðir. Þó að ríkissalasjóðurinn sé „hringrásarsjóður“ og sama fjármagnið því notað aftur og aftur er álagið á hann sífellt að aukast.
15 Dæmi um fordæmislausan vöxt er að finna hjá þeim Austur-Evrópuþjóðum sem áður lutu yfirráðum Sovétríkjanna. Var ekki ánægjulegt að fylgjast með fréttunum um hvernig boðunarstarfinu opnaðist leið á þessum landsvæðum hverju á fætur öðru? Núna eru trúboðar sendir til margra þessara landa. Nýjar deildarskrifstofur hafa verið settar á stofn í sumum löndum sem leitt hefur til þess að tala sjálfboðaliðanna, sem mynda Betelfjölskylduna um heima allan, er komin yfir 15.000. Vitaskuld hefur þurft að kaupa eða byggja húsnæði til að hýsa þetta fólk. Framlög þín hjálpa til við að mæta þessari þörf.
16 Allt þetta starf hefur ekki farið fram hjá Satan og illum englum hans. Þeir gera allt sem þeir geta til að ónýta viðleitni trúfastra þjóna Jehóva og gera þeim erfitt fyrir. (Opinb. 12:17) Þetta þýðir að berjast þarf í auknum mæli fyrir dómstólum til að vernda réttindi fólks Guðs til að prédika og lifa í samræmi við réttlát lög hans. Eyðileggingin, sem fylgir styrjöldunum í heimi Satans, svo og náttúruhamfarir, hefur þar að auki í för með sér að oft er þörf á að senda hjálpargögn til bræðra okkar og systra og annarra sem lenda með þeim í slíku. Framlög þín stuðla að því að hægt sé að veita þessa lífsnauðsynlegu aðstoð.
17 Jehóva mun umbuna þér: Ef við notum tíma okkar og efni af örlæti til að styðja verk Drottins færir það okkur mikla blessun. Hvernig þá? Á þann hátt að Guð, sem allt í rauninni tilheyrir, umbunar okkur. Orðskviðirnir 11:25 segja: „Velgjörðasöm sál mettast ríkulega, og sá sem gefur öðrum að drekka, mun og sjálfur drykk hljóta.“ Jehóva er vissulega ánægður þegar við gerum það sem á okkar valdi stendur til að stuðla að tilbeiðslu hans. (Hebr. 13:15, 16) Ísraelsmönnum til forna, sem leggðu það fram sem lagasáttmálinn kvað á um, gaf hann þetta fyrirheit: „Reynið mig einu sinni á þennan hátt — segir [Jehóva] allsherjar —, hvort ég lýk ekki upp fyrir yður flóðgáttum himinsins og úthelli yfir yður yfirgnæfanlegri blessun.“ (Mal. 3:10) Hin andlega velsæld, sem þjónar Jehóva njóta nú á tímum, ber vitni um að Guð stendur við loforð sitt.
18 Þetta mikla starf að kunngera öllum hjálpræðisdaginn og hjálpa hjartahreinu fólki inn á veginn til lífsins heldur ekki áfram endalaust. (Matt. 7:14; 2. Kor. 6:2) En safna verður inn öllum ‚öðrum sauðum‘ Drottins. (Jóh. 10:16) Það er sannarlega aðkallandi að takast á við þetta viðfangsefni nú á tímum og ljúka því. Og hvílíka hamingju mun það ekki veita okkur hverju og einu að geta í hinum nýja réttlætisheimi litið um öxl og sagt: ‚Ég átti svo sannarlega fulla hlutdeild í uppskerustarfinu á hinum síðustu dögum!‘ — 2. Pét. 3:13.