Notaðu boðsmiðana vel
1 Boðsmiðar safnaðanna koma að góðu gagni við að upplýsa fólk í byggðarlaginu um það hvar ríkissalurinn sé og um réttan samkomutíma. Það væri viðeigandi að láta hvern þann sem þú hittir fá boðsmiða í hendur. Með það í huga ætti hver söfnuður að hafa nægar birgðir af boðsmiðum fyrirliggjandi. Söfnuðir, sem breyta um samkomutíma í janúar ár hvert, ættu að panta nýja boðsmiða í október á hverju ári áður en breytingin tekur gildi til að boðsmiðar séu alltaf fyrir hendi með gildandi samkomutíma. Nota skal venjulegt pöntunareyðublað þegar boðsmiðar eru pantaðir. En hvernig geturðu notað boðsmiðana sem best þegar þú hefur fengið þá í hendur?
2 Margir boðberar hafa komist að raun um að áhrifarík leið til að kynna sig og hefja samræður sé að rétta húsráðandanum boðsmiða. Með því að benda á samkomulýsingarnar og -tímana er hægt að koma af stað umræðum um starf okkar og tilgang þess. Foreldrar geta látið litlu börnin sín bjóða boðsmiða við dyrnar svo að þau geti átt hlutdeild í boðunarstarfinu. Boðberar, sem taka þátt í að bera vitni bréflega, ættu að láta boðsmiða fylgja bréfinu og bjóða viðtakandanum að sækja samkomurnar. Hugsanlega mætti skilja boðsmiða eftir þar sem fólk er ekki heima. Gætið þess að láta miðann í póstkassann eða lúguna svo að ekki sjáist í hann utan frá.
3 Boðsmiðar hafa átt stóran þátt í að beina hjartahreinu fólki til sannleikans. Frásaga nokkur greinir frá konu sem gat uppfyllt þá lífstíðarósk sína að kynnast Biblíunni, þökk sé einum boðsmiða. Morguninn eftir að hún hafði legið heila nótt á bæn til Guðs hringdu vottahjón dyrabjöllunni hjá henni. Hún kíkti út um gægjugatið og kallaði að hún gæti ekki opnað. Vottarnir stungu boðsmiða undir hurðina. Á honum stóð: „Kynnstu Biblíunni.“ Hún sá miðann og opnaði dyrnar. Námskeiði var strax komið af stað og síðar lét konan skírast. Vanmetum aldrei mátt anda Guðs og notum að staðaldri boðsmiðana vel um leið og við fullnum þjónustu okkar. — Sjá ennfremur Ríkisþjónustu okkar fyrir febrúar 1994, bls. 1.