Ásetningur okkar — að fylgja lífsvegi Jehóva
1 Einn af hápunktum mótsins „Lífsvegur Guðs“ var ályktunin sem samþykkt var í lokaræðunni. Hún hófst á yfirlýsingunni „Við . . . erum sammála um að vegur Guðs sé besti lífsvegurinn sem til er.“ Rifjum nú upp fáein mikilvæg atriði úr yfirlýsingunni sem við sögðum „JÁ!“ við.
2 Það er ásetningur okkar að halda okkur hreinum frammi fyrir Jehóva, óflekkuðum af heiminum. Við látum vilja Guðs áfram ganga fyrir í lífi okkar. Við notum orð hans Biblíuna sem vegvísi og víkjum hvorki til hægri né vinstri. Þannig staðfestum við að vegur Guðs er langtum æðri vegi heimsins.
3 Heimurinn virðir almennt lífsveg Guðs að vettugi og uppsker afleiðingar þess. (Jer. 10:23) Látum þess vegna hinn mikla fræðara, Jehóva, halda áfram að kenna okkur, en hann segir: „Hér er vegurinn! Farið hann!“ (Jes. 30:21) Lífsvegur Jehóva, eins og Ritningin kunngerir hann, ber af á allan hátt. Til að fylgja þeim vegi er nauðsynlegt að við nýtum okkur til hlítar allt sem Jehóva kennir okkur.
4 Framúrskarandi kennsluáætlun Jehóva: Jehóva kennir okkur hver sé raunverulegur tilgangur lífsins og hvernig best sé að notfæra sér lífið. Hann kennir okkur hvernig við getum bætt líf okkar hugarfarslega, siðferðilega og andlega. Hann kennir okkur hvernig við getum lifað í sátt og samlyndi við bræður okkar, fjölskylduna og náungann. Þetta gerir hann fyrir milligöngu kennslubókar sinnar, Biblíunnar, og skipulags síns.
5 Samkomur okkar eru afar þýðingarmiklar í þessu tilliti. Er við sækjum reglulega allar fimm samkomurnar og tökum þátt í þeim, hljótum við yfirgripsmikla þjálfun sem boðberar fagnaðarerindisins og alhliða menntun í kristnu líferni. (2. Tím. 3:16, 17) Hinn mikli fræðari sér okkur þar að auki fyrir guðræðislegri menntun á svæðismótum og umdæmismótum. Það ætti að vera markmið okkar að sleppa aldrei samkomu eða mótsdagskrá ef heilsan og kringumstæðurnar gera okkur kleift að mæta.
6 Megum við halda áfram að fylgja lífsvegi Guðs af kostgæfni á komandi dögum, Jehóva til lofs og okkur til ævarandi gagns! — Jes. 48:17.