Hvernig fjölskyldan vinnur saman að biblíunámi
1 Sannleikurinn gæðir fjölskyldulífið raunverulegum tilgangi en velgengni í þjónustu Jehóva kemur ekki sjálfkrafa. Það kostar tíma og fyrirhöfn að byggja upp andlega sterka fjölskyldu. Það er mikilvægt að fjölskyldan vinni náið saman að þessu marki. Þessi grein er sú fyrsta af þrem sem beinir athyglinni að því hvernig fjölskyldur geti unnið saman að því að rækta með sér góðar námsvenjur.
2 Með því að lesa Biblíuna á hverjum degi: Orðskviðirnir 24:5 segja að „fróður maður [sé] betri en aflmikill.“ Þekkingin sem maður öðlast með reglulegum lestri í orði Guðs gefur manni þann innri styrk sem þarf til að standast árásir Satans á andlegt hugarfar manns. (Sálm. 1:1, 2) Lesið þið Biblíuna saman sem fjölskylda á hverjum degi? Í námsskrá Guðveldisskólans er að finna áætlun um aukabiblíulestur fyrir hverja viku ársins. Fjölskyldan þarf aðeins að verja tíu mínútum til lestrarins á hverjum degi. Veljið hentugan tíma eins og við morgunverðarborðið, eftir kvöldmat eða fyrir háttatíma til að lesa Biblíuna og íhuga dagstextann í bæklingnum Rannsökum daglega ritningarnar. Gerið þetta að daglegri venju fjölskyldunnar.
3 Með því að nema saman í hverri viku: Biblíunám fjölskyldunnar ætti að vera hápunktur vikunnar. Allir ættu að styðja námið með því að taka þátt í því af áhuga. Fjölskyldufaðirinn íhugar þarfir fjölskyldunnar bæði þegar hann velur námsefnið og ákveður hvenær og hve lengi námið verður haldið. Láttu fjölskyldunámið ganga fyrir í áætlun vikunnar. Leyfðu ekki þýðingarminni málum að trufla það. — Fil. 1:10, 11.
4 Faðir nokkur, sem fékk oft viðskiptasímtöl, tók símann úr sambandi meðan á fjölskyldunáminu stóð. Ef viðskiptavinir komu heim til hans var þeim boðið að vera með í náminu eða bíða þar til því lyki. Faðirinn var staðráðinn í að ekkert skyldi trufla fjölskyldunámið. Það hafði djúp áhrif á börnin og viðskiptin blómstruðu.
5 Það er mjög ánægjulegt þegar allir í fjölskyldunni vinna saman að andlegum málum! Það hefur blessun Jehóva í för með sér ef við leggjum okkur trúfastlega fram um að eiga fullan þátt í biblíunámi fjölskyldunnar. — Sálm. 1:3.