Námskafli 42
Fræðandi fyrir áheyrendur
ÞAÐ er ekki nóg að tala um eitthvað markvert til að kynning eða ræða sé fræðandi fyrir áheyrendur. Þú þarft að spyrja þig: ‚Af hverju þurfa þessir áheyrendur að heyra þetta? Hvað get ég sagt til að áheyrendur finni að þeir hafi haft verulegt gagn af því?‘
Ef þú færð það verkefni í Boðunarskólanum að sýna hvernig þú vitnar fyrir öðrum, þá er sá sem er í hlutverki „húsráðandans“ áheyrandi þinn. Í öðrum tilfellum talarðu hins vegar til alls safnaðarins.
Hvað vita áheyrendur nú þegar? Spyrðu þig: ‚Hvað vita áheyrendur um efnið?‘ Það ætti að vera grunnurinn sem þú byggir ræðuna á. Ef þú ávarpar söfnuð þar sem margir eru þroskaðir í trúnni ættirðu ekki að láta nægja að nefna grundvallaratriði sem flestir þekkja. Notaðu þau heldur sem grundvöll til að byggja á. Ef margir eru viðstaddir, sem hafa nýlega sýnt áhuga, þarftu auðvitað að taka mið af þörfum beggja hópanna.
Láttu flutningshraðann ráðast af þekkingu áheyrenda. Ef þú nefnir ýmis atriði, sem líklegt er að flestir þekki, skaltu renna fremur fljótt yfir þau. En hægðu á þegar þú fjallar um hluti sem kunna að vera flestum nýlunda, þannig að þeir eigi auðvelt með að meðtaka þá.
Hvað er fræðandi? Efni þarf ekki að vera splunkunýtt til að vera fræðandi. Sumir ræðumenn hafa lag á því að koma kunnuglegum sannindum þannig á framfæri að margir skilji þau fullkomlega þegar þeir heyra þau í fyrsta sinn.
Úti í boðunarstarfinu er ekki nóg að vísa í einhverja frétt til að sýna fram á að við lifum á síðustu dögum. Þú þarft að nota Biblíuna til að sýna fram á þýðingu atburðarins. Þá er þetta fræðandi fyrir húsráðanda. Eins er það ef þú nefnir eitthvað í sambandi við náttúrulögmálin, jurtirnar eða dýrin. Þá ættirðu ekki aðeins að benda á athyglisverða, vísindalega staðreynd sem húsráðandi hefur aldrei heyrt nefnda áður, heldur ættirðu að tengja vitnisburð náttúrunnar við orð Biblíunnar til að sýna fram á að til sé skapari sem elskar okkur. Þá sér húsráðandinn nýjan flöt á málinu.
Það getur verið töluverður vandi að fjalla um efni sem áheyrendur hafa margheyrt. En þú þarft að læra það til að vera góður kennari. Hvernig er hægt að gera þetta?
Það er góð byrjun að rannsaka efnið vel. Nefndu ekki aðeins hluti sem þú hefur á hraðbergi heldur leitaðu fanga með hjálp þeirra námsgagna sem rætt er um á blaðsíðu 33 til 38. Skoðaðu tillögurnar, sem þar eru gefnar, um þau markmið sem þú ættir að reyna að ná. Rannsóknin gæti skilað þér lítt þekktu söguatriði sem er nátengt efninu, eða þú gætir rekist á ummæli í nýlegri frétt sem skýrir það sem þú ætlar að fjalla um.
Þegar þú ferð gegnum efnið ættirðu að örva hugsunina hjá sjálfum þér með því að nota spurnarorð eins og hvað, hvers vegna, hvenær, hvar, hver og hvernig. Spyrðu til dæmis: Hvers vegna er þetta svona? Hvernig get ég sannað það? Hvaða algengur átrúnaður gerir að verkum að sumir eiga erfitt með að meðtaka sannleika Biblíunnar? Hvers vegna er þetta mikilvægt? Hvaða áhrif ætti þetta að hafa á líf fólks? Hvaða dæmi sýna kosti þess að fylgja því? Hvað opinberar þetta um persónuleika Jehóva? Ef efnið býður upp á það gætirðu spurt: Hvenær gerðist þetta? Hvaða hagnýtt gildi hefur þetta núna? Þú gætir jafnvel lífgað upp á flutninginn með því að spyrja nokkurra slíkra spurninga í ræðunni og svara þeim síðan.
Þú gætir þurft að nota ritningarstaði sem áheyrendur þekkja vel. Hvernig geturðu fjallað þannig um þá að þeir séu fræðandi? Með því að útskýra þá en ekki aðeins lesa.
Hægt er að auka fræðslugildi þekkts ritningarstaðar með því að fjalla um hann lið fyrir lið og draga út úr honum og skýra orð og setningar sem tengjast stefinu. Líttu á möguleikana í ritningargrein eins og Míka 6:8. Hvað er „rétt“? Hver ákveður hvað sé rétt? Hvernig gætirðu lýst með dæmi hvað það merkir að „gjöra rétt“? Eða „ástunda kærleika“? Hvað er lítillæti? Hvernig myndirðu heimfæra efnið á aldraða manneskju? En þú ákveður auðvitað hvaða efni þú notar með hliðsjón af stefinu, markmiði ræðunnar, áheyrendum og tímanum sem þú hefur til umráða.
Oft er gott að skilgreina hugtök með einföldum hætti. Það er til dæmis hrein „opinberun“ fyrir suma að átta sig á því hvað ‚ríkið‘ er sem nefnt er í Matteusi 6:10. Með góðri skilgreiningu er jafnvel hægt að skerpa skilning kristins manns, sem er gamalreyndur í trúnni, á merkingu ákveðinna ritningarorða. Þetta er til dæmis ljóst ef við lesum 2. Pétursbréf 1:5-8 og skilgreinum merkingu hinna ýmsu orða sem eru nefnd þar: trú, dyggð, þekking, sjálfsögun, þolgæði, guðrækni, bróðurelska og kærleikur. Þegar merking orða í sömu ritningargrein skarast er auðveldara að gera greinarmun á þeim ef þau eru skilgreind. Þetta á til dæmis við um orð eins og speki, þekking, hyggindi og skynsemi sem koma fyrir í Orðskviðunum 2:1-6.
Það getur verið fræðandi fyrir áheyrendur ef þú einfaldlega rökræðir út frá ákveðnum ritningarstað. Til dæmis kemur það mörgum á óvart að Adam er sagður vera lifandi sál í 1. Mósebók 2:7, og að sálin deyr samkvæmt Esekíel 18:4. Jesús kom saddúkeum einu sinni í opna skjöldu með því að vitna í 2. Mósebók 3:6, sem þeir sögðust trúa, og heimfæra orðin síðan upp á upprisu dauðra. — Lúk. 20:37, 38.
Stundum er mjög fróðlegt að benda á samhengi ritningarstaðar, aðstæðurnar þegar hann var skrifaður og segja deili á mælanda og áheyrendum. Farísear þekktu Sálm 110 mætavel en Jesús benti þeim á mikilvægt atriði í fyrsta versinu. Hann spurði þá: „‚Hvað virðist yður um Krist? Hvers son er hann?‘ Þeir svara: ‚Davíðs.‘ Hann segir: ‚Hvernig getur þá Davíð, innblásinn andanum, kallað hann drottin? Hann segir: Drottinn sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar, þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni. Fyrst Davíð kallar hann drottin, hvernig getur hann þá verið sonur hans?‘“ (Matt. 22:41-45) Þú hjálpar fólki að lesa orð Guðs af meiri nákvæmni þegar þú rökræðir út frá ritningarstað eins og Jesús gerði.
Þegar mælandi tiltekur hvenær ákveðin biblíubók var skrifuð eða viss atburður átti sér stað ætti hann jafnframt að lýsa aðstæðum á þeim tíma. Þá fá áheyrendur betri innsýn í gildi bókarinnar eða atburðarins.
Samanburður getur einnig aukið fræðslugildi ræðu. Þú gætir borið almenn viðhorf saman við það sem Biblían segir um sama málefni eða borið saman tvær hliðstæðar frásögur í henni. Er munur á þeim? Af hverju? Hvað lærum við af þeim? Með þessum hætti geturðu gefið áheyrendum nýja sýn á efnið.
Ef þú færð það verkefni að fjalla um einhvern þátt hinnar kristnu þjónustu gætirðu auðgað umfjöllunina með því að byrja á yfirliti. Nefndu hvað eigi að gera, hvers vegna þurfi að gera það og hvernig það tengist heildarmarkmiðum okkar sem votta Jehóva. Ræddu síðan hvar, hvenær og hvernig verkið verði unnið.
Setjum sem svo að þú þurfir að fjalla um „djúp Guðs“ í ræðunni. (1. Kor. 2:10) Ef þú byrjar á því að benda á og útskýra ákveðin lykilatriði efnisins auðveldarðu mönnum að skilja aðrar upplýsingar. Og ef þú lýkur ræðunni með gagnorðu yfirliti er líklegt að áheyrendur hafi þá ánægjulegu tilfinningu að þeir hafi lært eitthvað mikilvægt.
Leiðbeiningar um kristið líferni. Það er sérstaklega gagnlegt fyrir áheyrendur ef þú sýnir þeim fram á að efnið í ræðunni snerti þá persónulega. Spyrðu þig þegar þú grannskoðar ritningargreinar í efninu sem þér er úthlutað: ‚Af hverju voru þessar upplýsingar varðveittar í Biblíunni fram á okkar dag?‘ (Rómv. 15:4; 1. Kor. 10:11) Veltu fyrir þér mismunandi aðstæðum sem áheyrendur þínir standa frammi fyrir. Hugleiddu síðan aðstæðurnar sjálfar í ljósi þeirra ráðlegginga og meginreglna sem Biblían gefur. Í ræðunni geturðu svo rökrætt út frá Biblíunni og sýnt fram á hvernig hún getur auðveldað fólki að bregðast viturlega við slíkum aðstæðum. Alhæfðu ekki heldur ræddu um ákveðin viðhorf og verk.
Í fyrstu atrennu gætirðu notað eina eða tvær hugmyndir í þessum kafla þegar þú býrð þig undir að flytja ræðu. Með æfingunni geturðu svo bætt fleirum við. Þegar fram líða stundir kemstu að raun um að áheyrendur hlakka til að hlusta á þig því að þeir vita í ljósi reynslunnar að þú hefur margt gagnlegt fram að færa.