Námskafli 43
Notaðu úthlutað efni
BIBLÍAN líkir kristna söfnuðinum við mannslíkama. Hver líkamshluti er nauðsynlegur en „limirnir hafa ekki allir sama starfa.“ Við ættum þar af leiðandi að vinna vel að öllu sem okkur er treyst fyrir. Þess vegna þurfum við að skilja og sinna vel öllum ræðu- og samtalsverkefnum sem okkur eru falin en ekki gera lítið úr sumum verkefnum af því að okkur þykja önnur merkilegri. (Rómv. 12:4-8) Hinum trúa og hyggna þjóni er falið að útbýta andlegri fæðu „á réttum tíma.“ (Matt. 24:45) Við sýnum þessu fyrirkomulagi þakklæti og virðingu þegar við notum hæfileika okkar til að skila verkefnum okkar í samræmi við þær leiðbeiningar sem við fáum. Þetta stuðlar að snurðulausu starfi safnaðarins í heild.
Hvað á að taka með? Þegar þér er falið að fjalla um ákveðið viðfangsefni í skólanum skaltu halda þig við það en ekki fara út í eitthvað annað. Oftast er gefið upp heimildarefni sem vinna á úr við gerð ræðunnar. Ef það er ekki gefið upp geturðu valið heimildarefnið sjálfur. En þegar þú semur ræðuna þarftu að gæta þess að öll ræðan sé byggð á því efni sem þér er falið að flytja. Taktu líka mið af áheyrendum þegar þú ákveður hvaða efni þú tekur með.
Kynntu þér heimildarefnið vel og brjóttu til mergjar ritningarstaðina sem fylgja því. Veltu svo fyrir þér hvernig það geti komið áheyrendum að sem mestu gagni. Veldu síðan tvö eða kannski þrjú atriði úr þessum heimildum sem aðalatriði ræðunnar. Veldu líka úr þeim þá ritningarstaði sem þú ætlar að lesa og fjalla um.
Hve stóran hluta efnisins áttu að fara yfir? Ekki meira en þú kemst yfir með góðu móti. Fórnaðu ekki góðri kennslu til að geta troðið sem mestu efni inn í ræðuna. Ef eitthvað af efninu fellur ekki að markmiði hennar skaltu einbeita þér að efni sem stuðlar að því að þú náir settu marki. Notaðu þá efnishluta sem áheyrendur hafa mest gagn af og eru fróðlegastir fyrir þá. Markmiðið með þessu þjálfunarstigi er ekki að kanna hve mikið þú kemst yfir heldur að æfa þig í að nota það sem þér er úthlutað til að semja ræðuna.
Ræðan á ekki aðeins að vera yfirlit yfir úthlutað efni eða samantekt á því. Þú átt að undirbúa þig með það fyrir augum að útskýra vissa hluti, fara ítarlega yfir þá og lýsa þeim með dæmum og líkingum. Ef þú grípur til annars efnis ættirðu að nota það til að vinna úr mikilvægum atriðum hins úthlutaða efnis en ekki í stað þess.
Bræðrum, sem eru góðir kennarar, er hugsanlega falið að kenna á þjónustusamkomum þegar fram líða stundir. Þeim er ljóst að þeir eiga að vinna vel úr hinu úthlutaða efni en ekki að taka annað efni í staðinn. Bræður, sem flytja opinbera fyrirlestra, fá sömuleiðis í hendur uppkast til að vinna úr. Uppkastið býður upp á nokkurn sveigjanleika en afmarkar þó skýrt aðalatriðin sem eiga að koma fram, rökin sem styðja þau og þá ritningarstaði sem ræðan er byggð á. Það er nauðsynlegt að kunna að nota hið úthlutaða efni til að kenna og það er mikilvægur undirbúningur undir önnur ræðuverkefni.
Þessi þjálfun getur líka hjálpað þér að stuðla að framförum hjá biblíunemendum sem þú kennir. Þú lærir að beina athygli að námsefninu og forðast útúrdúra sem geta auðvitað verið fróðlegir og athyglisverðir en eru kannski ekki til skilningsauka á því efni sem er til umræðu. En að sjálfsögðu er hægt að staldra við og auka skýringum við efnið eftir þörfum til að nemandinn skilji það, og það stríðir alls ekki gegn inntaki þessa námskafla.