Múrinn mikli – minnismerki um draum keisara
ÞAÐ hlaut að gerast einn góðan veðurdag. Maður fyrirskipaði að múr skyldi reistur í kringum heimili hans. Maðurinn var keisari og heimilið allt Kínaveldi! En hver var þessi keisari og hvers vegna setti hann heilt keisaradæmi til starfa við að reisa slíkan múr?
Til að leita svara þurfum við að beina athygli okkar að því tímabili í sögu Kína þegar mörg smáríki þar um slóðir áttu í baráttu sín í milli (403-222 f.o.t.). Höfum þó hugfast að stundum er erfitt að greina milli sögulegra staðreynda og munnmæla. Kína var klofið í mörg smáríki sem áttu oft í innbyrðis erjum og styrjöldum. Ekki bætti úr skák að „barbarar“ eða hirðingjar úr norðri voru sífellt að ráðast inn í Kína og ræna afurðum hins gjöfula og frjósama lands í suðri. Mörg smáríkjanna tóku að reisa múra sér til varnar.
Það moldviðri, sem þessi barátta olli, varð til þess að litlu ríki í Kína, nefnt Chin, var lítill gaumur gefinn í fyrstu þegar það fór að láta til sín taka. En smám saman lagði þetta árásargjarna ríki, sem hinir siðmenntuðu Kínverjar fyrirlitu, undir sig öll smærri ríkin nema sex.
Þá komst til valda í Chin árið 246 f.o.t. þrettán ára prins að nafni Cheng. Hann sá fyrir sér keisaradæmi sameinað undir ægivaldi sínu og beið ekki boðanna að leggja til atlögu við hin ríkin. Árið 221 f.o.t. féll síðasta kínverska ríkið fyrir her hans. Loksins hafði konunginum í Chin tekist það sem fyrri konungar í Kína höfðu tæpast vogað sér að dreyma um. Hann var drottnari Kína — alls Kína! Himinlifandi sæmdi Cheng sjálfan sig nýjum titli: Chin Shih Huang Ti, fyrsti keisarinn af Chin.
Tvennt var það sem keyrði Chin Shih Huang Ti áfram — sá metnaður að sameina keisaradæmi sitt og sú eigingjarna þráhyggja að hann væri ódauðlegur. Í annan stað hefur hann hlotið mikið lof sem stjórnmálasnillingur. Hann kom á miðstýrðri stjórn, staðlaði ritmál landsins, endurbætti peningakerfið og lét gera vegi sem hrísluðust út frá höfuðborginni Hsien Yang.
Í hinn stað gefur sagan fremur ófagra mynd af þessum manni. Chin Shih Huang Ti hræddist dauðann meira en nokkuð annað. Allmargar tilraunir til að ráða hann af dögum mögnuðu ótta hans svo að jaðraði við móðursýki. Hann lét reisa sér bústaði í tugatali, alls um 270 í höfuðborginni einni, og lágu neðanjarðargöng milli þeirra svo að hinn hrjáði keisari gæti farið með leynd stað úr stað og sofið á mismunandi stöðum hverja nótt.
Draumur keisarans, martröð keisarans
Opinber útgjáfa af sögu Kína segir að árið 214 f.o.t. hafi Chin Shih Huang Ti fengið þá hugmynd að draga tjald meðfram öllum norðurlandamærum keisaradæmisins. Reyndu að sjá fyrir þér keisarann draga upp glansmynd af nýjasta hugarfóstri sínu fyrir verkfræðingum sínum. Hann er sagður hafa tilkynnt: ‚Vér munum reisa múr!‘ Múrinn átti að vera yfir átta metra hár sums staðar og nógu breiður til að átta hermenn gætu gengið hlið við hlið eftir honum. Framkvæmd þessa ægilega verks kom í hlut hins óþreytandi Meng Tien sem var einn af virtustu hershöfðingjum Chins. Hann kallaði út herinn og rak mannfjöldann af stað til að uppfylla draum húsbóndans. Þar eð tilgangur múrsins átti að vera sá að veita vörn gegn hinum ógnvekjandi ræningjum í norðri þurfti líka að byggja varðturna til að fylgjast mætti með ferðum óvinanna meðfram gervöllum múrnum. Meng Tien lét því reisa þessar risastóru varðstöðvar sem voru um 13 metrar á kant niðri við jörð og mjókkuðu niður í 10 metra í toppinn. Fjarlægðin milli varðturnanna var tvöfalt skotfæri með boga og ör svo að skyttur gætu varið hvern einasta metra múrsins frá turnunum. Alls 25.000 turnar risu á hæðum uppi, í dölum og fjallaskörðum þvert yfir landið.
Hvenær sem því var við komið notfærði Meng Tien sér eldri múra og turna og tengdi þá saman í það sem Kínverjar síðan kölluðu Wan Li Chang Cheng, múr hinna tíu þúsund li. (Li er kínversk mælieining sem samsvarar um það bil hálfum kílómetra.) Í raun var múrinn aðeins um 3000 kílómetrar að lengd. Síðari kynslóðir lengdu hann í ýmsar áttir með krókum og hlykkjum. Síðustu mælingar kínverskra stjórnvalda, sem hafa „rakið leifar múrsins á afskekktum slóðum og í fjallahéruðum, sýna að heildarlengd hans hafi verið um 10.000 kílómetrar,“ segir í ritinu China Reconstructs.
Talið er að sums staðar hafi verið notaðar í undirstöður múrsins granítblakkir 4,3 metra langar og 1,2 metra breiðar og í ytri klæðninguna 60 til 150 cm þykkar steinblakkir, svipaðar og byggingarmeistarar notuðu á dögum Ming-keisaraættarinnar á 16. öld. Milli klæðninganna var fyllt í með þjöppuðum jarðvegi og klætt að ofan með tígulsteini. Þegar byggingu múrsins miðaði til vesturs teygði hann sig yfir víðáttumikla, frjósama sléttu þar sem lítið var um steina til byggingar. Byggjendurnir neyddust því til að nota eina tiltæka byggingarefnið — fíngerðan gulan jarðveg sem nefndur er fokmold. Sums staðar var reist trégrind og blautri fokmold mokað inn í hana. Annars staðar var látið nægja að moka burt jarðvegi á tvær hendur og skilja eftir mjóa ræmu í milli. Þar sem svo var að farið er lítið eftir núna.
Múrinn mikli trónaði á fjallatindunum, steyptist niður í dýpstu dali og teygði sig þvert yfir brennheitar eyðimerkurauðnir. Í austri kvöldu nístandi vindar og blindandi snjóbylir verkamennina. Í vestri þjakaði þá miskunnarlaus eyðimerkursólin og stingandi sandstormar. Múrinn er minnismerki um þjáningar hundruð þúsunda verkamanna sem þræluðu næstum meira en mannlegur máttur megnar. Þeim sem ekki voru nógu afkastamiklir var hent lifandi ofan í skurðina, sem grafnir voru fyrir undirstöður múrsins, ásamt þeim sem urðu hungri og vosbúð að bráð. Múrinn hlaut þá óhugnanlegu viðurkenningu að vera nefndur „lengsti grafreitur á jörð“ því að um 400.000 manns lágu í valnum að lokinni gerð hans.
Í valnum lágu meðal annars margir af menntamönnum Kína sem taldir voru ógna pólitískum stöðugleika heimsveldisins. Lénshugmyndir þeirra og gagnrýni á róttækar endurbætur keisarans urðu tilefni hinna illræmdu bókabrenna og fræðimannamorða árið 213 f.o.t. sem sverti nafn Chin Shih Huang Ti í augum komandi kynslóða. Enn þann dag í dag er í frásagnakvæðum harmað það manntjón sem bygging múrsins mikla olli. Svo sannarlegar reyndist hann mikil martröð!
Keisaraætt líður undir lok
Þeirri spurningu er enn ósvarað hvers vegna keisarinn hafi að yfirlögðu ráði gert þjóð sína nær lémagna með því að steypa henni út í svona ógurlegt verk. Á yfirborðinu getur svo virst sem honum hafi gengið það eitt til að verja ríki sitt. Sú varð líka raunin að hirðingjunum var bægt frá, að minnsta kosti um hríð. En reynum eitt augnablik að sjá fyrir okkur hið mikla ríki Chins á hátindi frægðar sinnar — volduga stríðsvél sigrihrósandi yfir afli sínu og veldi. Hvert myndi hún næst beina kröftum sínum? Kannski var keisarinn enn hræddari við þennan gríðarstóra, eirðarlausa her en hirðingjana.
Bygging múrsins reyndist hins vegar banabiti fyrir keisarann og reið næstum Kínaveldi að fullu. Sunnan múrsins fór uppreisnarherjum að vaxa fiskur um hrygg. Smábændur byrjuðu að gera uppreisn vegna hinnar þjakandi skattabyrði sem óhóflega kostnaðarsamar framkvæmdir keisarans höfðu í för með sér. Maðurinn, sem hafði háð svo örvæntingarfulla baráttu fyrir ódauðleika sínum, lést árið 210 f.o.t. Valdabaráttan, sem þá hófst, skildi keisaradæmið eftir í rústum. Hin volduga Chin-keisaraætt hafði staðið í aðeins 14 ár, frá 221 til 207 f.o.t. Samt sem áður hafði þessi skammi stjórnarferill hennar haft í för með sér einhverja róttækustu atburði í sögu Kína.
Rétt eins og Chin gat ekki komist undan mesta óvini mannsins, dauðanum, er lítið eftir af upphaflegum múr hans til að sýna sóma þeim milljónum sem þræluðu til að uppfylla draum keisarans. Þeir tilkomumiklu hlutar múrsins, sem enn standa og ferðamenn virða fyrir sér, voru reistir á 16. öld á dögum Wan Lis af Ming-keisaraættinni.
[Rammi á blaðsíðu 30]
Hver langur er kínverski múrinn?
◻ Í sinni upphaflegu gerð myndi kínverski múrinn ná meðfram öllum hringveginum um Ísland — á báðar hendur, eða í beina línu frá Reykjavík til Madrid.
◻ Efnið, sem fór í kínverska múrinn, myndi nægja til að reisa tveggja metra háan og eins metra þykkan múr um miðbaug jarðar — hátt í 40.000 kílómetra langan.
[Kort á blaðsíðu 29]
(Sjá uppraðaðan texta í blaðinu)
MONGÓLÍA
KÍNA
Jiayugúan-skarð
Lintaó
Yanmengúan
Shanhaiguan-skarð
KÓREA
Múrinn mikli á dögum Chin Shih Huang Ti
Múrinn mikli á dögum Ming-keisaraættarinnar