Horft á heiminn
Lágt endurgjald
„Hve mikils virði er mannslífið?“ var spurt í U.S. News & World Report. „Í Bandaríkjunum er svarið núna sjö ár. Það er meðaltíminn sem dæmdir morðingjar sitja inni, samkvæmt upplýsingum frá Dómsmálaráðuneytinu.“ Margir sitja ekki einu sinni svo lengi í fangelsi. Samkvæmt könnun, sem gerð var í 30 af fylkjum Bandaríkjanna, situr einn af hverjum sjö föngum, sem hlýtur lífstíðardóm, inni í þrjú ár eða skemur.
Hiti úr iðrum jarðar
Vísindamenn við Los Alamos National Laboratory og Orkumálaráðuneytið í Bandaríkjunum hafa skýrt frá því að tekist hafi að beisla jarðvarma með nýjum hætti. Sú aðferð var notuð að bora tvær, fjögurra kílómetra djúpar borholur, dæla köldu vatni niður aðra þeirra og fá heita gufu upp hina. Gufuna má síðan nota til að knýja hverfla til raforkuframleiðslu. Á tilraunastigi hefur fengist orka sem nægja myndi 2000 manna byggð. Þessi aðferð er ólík venjulegri jarðvarmanýtingu eins og þekkt er á Íslandi. Með henni má nýta hinn nánast ótakmarkaða jarðvarma sem er að finna djúpt í iðrum jarðar. Vísindamenn frá Bretlandseyjum, Japan og Evrópu vonast til að hér sé fundinn orkugjafi er komið geti í stað kjarnorku og jarðeldsneytis.
Mikil flughæfni
Skrofan er mikill fluggarpur. Árið 1949 voru nokkrir fuglar af vissu skrofuafbrigði merktir. Í nóvember 1985 náðist fugl sem fyrst hafði verið merktur árið 1950 en það þýddi að hann var orðinn meira en 35 ára gamall! Þessi litli fugl verpti enn og flaug enn sína árlegu farleið. Hin árlega farleið fuglanna liggur frá Tasmaníu, út af suðausturodda Ástralíu, allt til Beringshafs norður af Japan. Hinar 35 ferðir fuglsins fram og til baka nema alls 1.050.000 kílómetrum. Í samanburði við um það bil 813.400 kílómetra ferð til tungslins og heim aftur hefur fuglinn greinilega skotið tunglförunum ref fyrir rass!
Nýjar tölur
Vetrarbraut okkar er fjórðungi minni en áður var haldið, að sögn vísindamanna. Með nýrri tækni, sem styðst við háþróaða rúmfræði, hefur alþjóðlegur vinnuhópur stjarnfræðinga komist að þeirri niðurstöðu að þvermál vetrarbrautarinnar, sem í eru e.t.v. 200 milljarðar stjarna, sé um 70.000 ljósár. Sólkerfi okkar er nú staðsett í 23.000 ljósára fjarlægð frá miðju vetrarbrautarinnar — töluvert nær en áður var haldið.
Hraði ljóssins í lofti er auk þess nokkuð minni en áður var haldið. Eftir að hljóðmúrinn var rofinn árið 1947 var hraði hljóðsins í lofti við 0° C reiknaður 331,45 metrar á sekúndu. Þegar rannsóknarmaður við kanadíska rannsóknaráðið, George S. K. Wong að nafni, var að gera tilraunir með nákvæma stillingu á hljóðnemum fyrir nokkru uppgötvaði hann reikniskekkju sem gerð hafði verið árið 1942 og hefur gengið í gegnum vísindatímarit allar götur síðan. Nýja talan, sem nú er gefin upp, er 331,29 metrar á sekúndu.
Slys með vetnissprengju
Bandarísk leyniskjöl, sem nýlega hafa verið birt, drógu fram í dagsljósið að einhver öflugasta vetnissprengja sem gerð hefur verið — 19 tonn — féll fyrir slysni úr bandarískri sprengjuflugvél nálægt borginni Albuquerque í Nýju-Mexíkó fyrir 29 árum. Sprengjan sprakk ekki og enginn slasaðist, þótt aðrar sprengihleðslur í henni hafi sprungið og skilið eftir 3,7 metra djúpan og 7,6 metra breiðan gíg, að því er segir í blaðinu Albuquerque Journal. „Vera má að þetta sé öflugasta sprengja sem gerð hefur verið,“ segir sérfræðingur um kjarnorkuvopn. Vísindamenn álíta að afl sprengjunnar kunni að hafa numið meira en tíu megatonnum (samsvarandi tíu milljónum tonna af TNT), yfir 600 sinnum öflugri en kjarnorkusprengjan sem varpað var á Híróshíma í síðari heimsstyrjöldinni.
Vinna gegn sjálfum sér
Orrustuflugvélar eru orðnar svo hraðfleygar og snarar í snúningum á síðustu árum að þær eru að verða ofjarlar mannanna sem stjórna þeim. Flugvélar fyrri heimsstyrjaldarinnar voru með á bilinu tíu til fimmtán mæla og stjórntæki. Talan hækkaði upp í 35 í orrustuflugvélum síðari heimsstyrjaldarinnar. Núna er hún komin upp í hér um bil 300. Flugmaðurinn þarf að fylgjast með og meta allar þær upplýsingar, sem mælitækin gefa, og taka ákvarðanir á sekúndubroti í hættulegu umhverfi. Auk þess er stýrihæfni flugvélanna á miklum hraða slík að álagið á flugmanninn er gífurlegt. Tímaritið The Wall Street Journal sagði viðvíkjandi beygju sem hægt er að taka á einni slíkri flugvél: „Þegar best lætur mun slík beygja sprengja æðar í handleggjum hans, valda skammvinnri blindu, slengja höfði hans niður í bringju, draga blóð úr heila hans og láta honum finnast hann nífalt þyngri en eðlilegt er. Þegar verst lætur getur hann misst meðvitund og farist.“ Fjöldi flugmanna hefur týnt lífi með þessum hætti.
Tillitsleysi við aldraða
„Áður en sumarleyfisferðalögin hefjast er hundinum komið fyrir í almennu hundabyrgi og afa á spítala.“ Þannig lýsti Peter Breitenfellner, aðstoðarframkvæmdastjóri spítala í Linz í Austurríki, nýrri stefnu sem orðið hefur vart meðal fólks. Að sögn þýska dagblaðsins Frankfurter Allgemeine Zeitung fjölgaði öldruðum sjúklingum nokkuð um sumarleyfistíma síðastliðins árs. Allmörg dæmi voru um að aldraðir hefðu beinlínis verið látnir veikjast. „Nokkur dæmi voru um að sykursjúkum væri ekki gefinn sinn daglegi innsúlínskammtur þannig að leggja þurfti þá inn á spítala. Þess voru einnig dæmi að aldraðir fengju ekki hjartalyf svo að tryggt væri að þeir yrðu lagðir inn,“ sagði læknirinn.
Dómur staðfestur
Æðsti áfrýjunardómstóll í Tyrklandi hefur gefið út lokaúrskurð varðandi stöðu votta Jehóva þar í landi. Úrskurðurinn, sem er bindandi, var birtur þann 26. maí síðastliðinn og staðfesti dóm hæstaréttar frá 19. júní 1985 þess efnis að vottar Jehóva hefðu ekki farið út fyrir mörk þess trúfrelsis sem tryggt er í stjórnarskrá landsins. Þessi nýi úrskurður sýknar 23 votta, sem höfðu áður verið dæmdir til fangelsisvistar árið 1984, sakaðir um að hafa brotið 163. grein refsilaga sem leggur bann við því að reynt sé með starfi trúfélaga að breyta stjórnskipan landsins. Í úrskurðinum segir að vottar Jehóva séu ekki sekir um brot á þessum lögum og þeir eru viðurkenndir sem trúfélag.
Átt þú erfitt um svefn?
Tæplega þriðjungur aldraðra kvartar undan svefnleysi að sögn The New York Times. „Þó má vera að sumir, sem halda sig eiga erfitt um svefn, séu hreinlega að ganga í gegnum eðlilegar breytingar sem fylgja öldrun.“ Fjögurra ára barn sefur að meðaltali tíu stundir á sólarhring, unglingar níu stundir, ungt, fullvaxta fólk sjö eða átta, en aldraðir sofa að jafnaði fjórar til sex stundir og komast stundum ágætlega af með einungis þriggja til fjögurra stunda nætursvefn. „Svefninn verður lausari og slitróttari með aldrinum,“ bætir greinin við. „Það er hvorki slæmt né gott; það er einfaldlega eðlilegt.“ Þeim sem eiga að jafnaði erfitt um svefn er ráðlögð hófleg líkamshreyfing að minnsta kosti tveim stundum fyrir háttatíma, slakandi bað, færri miðdegislúrar, að gefa gaum matarvenjum og forðast koffín. Dr. Nathaniel Kleitmann, sérfræðingur um svefnfarir, minnir á: „Enginn hefur nokkur tíma dáið úr svefnleysi.“
Plast drepur sjávarlífverur
Plastúrgangur í sjónum „er sjávarlífi mjög dýrkeyptur, einkum selum, sæljónum, skjaldbökum og sjófuglum,“ segir tímaritið Time. Plastruslið, sem er á reki í sjónum, kemur frá skipum, smábátum og þeim sem stunda strendurnar, svo og veiðarfærum sem fiskimenn týna eða henda og sorpi sem hent er í sjóinn. „Nær undantekningarlaust sýna athuganir að plast er yfir helmingur rusls á yfirborði sjávar,“ segir fiskifræðingurinn Al Pruter. Þúsundir sela deyja ár hvert þegar þeir festast í netum sem annaðhvort þreyta þá til dauðs eða takmarka veiðihæfni þeirra. Sæskjaldbökur éta plastpoka í misgripum fyrir marglyttur sem eru uppáhaldsfæða þeirra. Vitað er um 42 tegundir sjófugla sem éta plast. Sumir kafna við það að festast í plasti sem notað er til að hengja saman sex drykkjardósir. Plastið, sem dýrin gleypa, veldur magasárum eða stíflar meltingarveginn. Tilraunir til að draga úr plastmenguninni hafa enn sem komið er verið árangurslausar.