Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g96 8.10. bls. 26-27
  • Geta sannkristnir menn vænst verndar Guðs?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Geta sannkristnir menn vænst verndar Guðs?
  • Vaknið! – 1996
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Tilgangurinn með vernd Guðs
  • Notaðir í framvindu tilgangs Guðs
  • Er Guð harðlyndur?
  • Verndarmáttur – „Guð er skjól okkar“
    Nálgastu Jehóva
  • Jehóva Guð sem hefur tilgang
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • „Ómenntaðir almúgamenn“
    Vitnum ítarlega um ríki Guðs
  • Mikill meistari gefur okkur skýrari mynd af skaparanum
    Er til skapari sem er annt um okkur?
Sjá meira
Vaknið! – 1996
g96 8.10. bls. 26-27

Sjónarmið Biblíunnar

Geta sannkristnir menn vænst verndar Guðs?

HÓPUR kristinna manna lagði sig í lífshættu með því að fara með bílalest um átakasvæði til að koma hjálpargögnum til trúbræðra sinna. Áður höfðu þeir beðið til Guðs. Þeir komust heilu og höldnu á leiðarenda, hinum stríðandi herjum til mikillar undrunar. Hélt engill Guðs verndarhendi yfir þeim?

Kristin hjón, sem höfðu þjónað í trúboðsstarfi í mörg ár, fórust þegar flugvél hrapaði þar sem þau voru að boða trúna hús úr húsi. Hvers vegna beindi engill Guðs þeim eða flugvélinni ekki eitthvað annað á þessu augnabliki? — Samanber Postulasöguna 8:26.

Þegar við berum þessa tvo atburði saman er eðlilegt að við spyrjum: Hvers vegna deyja sumir kristnir menn þegar þeir eru að gera vilja Guðs en aðrir lifa, oft við mjög hættulegar aðstæður? Geta kristnir menn vænst verndar Guðs, sér í lagi núna á hinum erfiðu „síðustu dögum“? — 2. Tímóteusarbréf 3:1.

Tilgangurinn með vernd Guðs

Jehóva Guð hefur lofað fólki sínu blessun og vernd. (2. Mósebók 19:3-6; Jesaja 54:17) Hann gerði það með mjög áberandi hætti á bernskuskeiði kristna safnaðarins á fyrstu öld. Alls konar kraftaverk áttu sér stað. Jesús margfaldaði fisk og brauð handa þúsundum manna; hann og fylgjendur hans læknuðu alls konar sjúkdóma og bæklun, þeir ráku ofurmannlega illa anda út úr fólki og reistu jafnvel upp dána. Undir handleiðslu Guðs óx söfnuðurinn úr grasi og náði góðri fótfestu. En þrátt fyrir allan þennan augljósa stuðning Guðs dóu margir trúfastir kristnir menn langt um aldur fram. — Samanber Sálm 90:10.

Tökum Jakob og Jóhannes Sebedeussyni sem dæmi. Þeir voru útvaldir sem postular og voru, ásamt Pétri, einhverjir nánustu vinir Krists.a Jakob dó píslarvættisdauða árið 44 en Jóhannes bróðir hans lifði til loka fyrstu aldar. Báðir voru greinilega að gera vilja Guðs. Hvers vegna leyfði Guð að Jakob dæi en Jóhannes lifði?

Alvaldur Guð var vissulega fær um að bjarga lífi Jakobs. Reyndar bjargaði engill lífi Péturs skömmu eftir píslarvættisdauða Jakobs. Hvers vegna bjargaði engillinn ekki Jakobi? — Postulasagan 12:1-11.

Notaðir í framvindu tilgangs Guðs

Til að skilja hvers vegna Guð verndar, verðum við að skilja að hann gerir það ekki bara til að einstakir menn fái að lifa lengur, heldur til verja mikilvægari hagsmuni, það er að segja framvindu tilgangs síns. Til dæmis er tryggt að kristni söfnuðurinn í heild bjargist af því að hann er nátengdur uppfyllingu þessa tilgangs. En Kristur sagði lærisveinum sínum skýrum orðum að sem einstaklingar gætu þeir látið lífið vegna trúar sinnar. Eftir að Jesús sagði þetta lagði hann áherslu á ‚staðfestu allt til enda,‘ ekki undraverða björgun. (Matteus 24:9, 13) Sú staðreynd að sumir menn hlutu vernd en aðrir ekki er ekki vísbending um að Guð sé hlutdrægur. Guð notaði einfaldlega þann sem var í bestri aðstöðu til að koma tilgangi hans í framkvæmd sem er öllu mannkyni til gagns þegar til lengdar lætur.

Þar eð kristnir menn geta hæglega dáið um aldur fram í þjónustu Guðs ættu þeir að hafa sömu yfirveguðu afstöðuna og trúföstu Hebrearnir þrír sem dæmdir voru til dauða fyrir að tilbiðja Guð. Þeir sögðu konungi Babýlonar: „Ef Guð vor, sem vér dýrkum, vill frelsa oss, þá mun hann frelsa oss úr eldsofninum brennandi og af þinni hendi, konungur. En þótt hann gjöri það ekki, þá skalt þú samt vita, konungur, að vér munum ekki dýrka þína guði né tilbiðja gull-líkneskið, sem þú hefir reisa látið.“ — Daníel 3:17, 18.

Jehóva hélt verndarhendi yfir bæði Pétri og Jóhannesi af því að þeir gegndu lykilhlutverki í framvindu tilgangs hans. Pétur var notaður til að ‚styrkja‘ söfnuðinn með hirðisstarfi sem fól í sér að rita tvær innblásnar biblíubækur. (Lúkas 22:32) Jóhannes ritaði fimm biblíubækur og var ‚máttarstólpi‘ í frumkristna söfnuðinum. — Galatabréfið 2:9; Jóhannes 21:15-23.

Enginn getur sagt nákvæmlega fyrir hvernig Jehóva ákveður hvenær og á hvaða hátt hann skerst í leikinn og verndar líf þjóna sinna. Það eina, sem hægt er að segja með vissu, er að Kristur hét að vera með fylgjendum sínum „alla daga allt til enda veraldar.“ (Matteus 28:20) Sérstaklega verður hann ‚með okkur‘ í prédikunarstarfinu fyrir milligöngu engla sem stýra því. (Matteus 13:36-43; Opinberunarbókin 14:6) Að þessum almennu vísbendingum undanskildum getum við ekki séð nákvæmlega fyrir hvernig hjálp Guðs muni birtast eða hver kunni að njóta verndar hans. Hvað þá ef kristnum manni finnst hann hafa notið verndar og leiðsagnar Guðs? Þar eð slíkt verður hvorki sannað né afsannað ætti enginn að áfellast þá sem fullyrða slíkt í einlægni.

Er Guð harðlyndur?

Er Guð þá harðlyndur á einhvern hátt fyrst hann leyfir að kristnir menn deyi? Alls ekki. (Prédikarinn 9:11) Jehóva vinnur að því að vernda okkur ekki aðeins í fáein ár eða áratugi heldur um eilífð. Frá sínum háa sjónarhóli stýrir hann atburðum þannig að það verði til eilífrar velferðar hverjum manni sem elskar hann eða kemur til hans. (Samanber Matteus 18:14.) Þegar tilgangur Guðs nær fram að ganga verða allar þær þjáningar, sem við höfum liðið í þessu heimskerfi, að engu gerðar — meira að segja dauðinn. Svo margbrotin og fullkomin eru verk Guðs að Páll postuli fann sig knúinn til að segja: „Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans og órekjandi vegir hans!“ — Rómverjabréfið 11:33.

Þar eð ekkert getur gert okkur viðskila við kærleika Guðs ætti hver einstakur kristinn maður að spyrja sig hvort hann njóti blessunar hans en ekki hvort hann muni njóta verndar hans. Ef við höfum blessun hans veitir hann okkur eilíft líf — óháð því hvað fyrir okkur kann að koma í þessu heimskerfi. Samanborið við eilífðina mun sérhver þjáning í þessu heimskerfi — meira að segja dauðinn — virðast „skammvinn og léttbær.“ — 2. Korintubréf 4:17.

[Neðanmáls]

a Pétur, Jakob og Jóhannes urðu vitni að ummyndun Jesú (Markús 9:2) og upprisu dóttur Jaírusar (Markús 5:22-24, 35-42); þeir voru nærstaddir í Getsemanegarðinum meðan réttarhöldin yfir Jesú stóðu yfir (Markús 14:32-42) og þeir, ásamt Andrési, spurðu Jesú um eyðingu Jerúsalem, framtíðarnærveru hans og endalok heimskerfisins. — Matteus 24:3; Markús 13:1-3.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila