Baráttan við glæpina
„UNGT fólk segir leiðindi helstu orsök unglingaafbrota,“ sagði fyrirsögn í útbreiddu, bresku dagblaði. „Heimiliserjum kennt um vaxandi glæpi,“ sagði annað. Og þriðja blaðið sagði: „‚Þúsundir glæpa‘ raktir til efnafíknar.“ Tímaritið Philippine Panorama áætlar að fíkniefnaneytendur fremji 75 prósent allra ofbeldisglæpa í Maníla.
Fleira getur stuðlað að afbrotahneigð. „Fátækt innan um ríkidæmi“ er eitt af því sem yfirlögreglustjóri Nígeríu bendir á. Hópþrýstingur og bágar atvinnuhorfur, slök refsilöggjöf, almenn hnignun fjölskyldugilda, virðingarleysi fyrir yfirvöldum og lögum og óhóflegt ofbeldi í kvikmyndum og á myndböndum er einnig nefnt til sögunnar.
Þá hefur það sitt að segja að margir eru hættir að trúa að glæpir borgi sig ekki. Þjóðfélagsfræðingur við Bologna-háskóla á Ítalíu segir þá breytingu hafa orðið að „þjófnuðum, sem kærðir eru, hafi fjölgað en mönnum, sem dæmdir eru fyrir þjófnað, fækkað.“ Hann bendir á að „sakfellingar sem hlutfall af kærðum þjófnuðum hafi hrapað úr 50 í 0,7 af hundraði.“
Það er sorglegt en satt sem alfræðibókin The New Encyclopædia Britannica segir: „Auknir glæpir virðast einkenna öll iðnaðarþjóðfélög nútímans og ekki er hægt að sýna fram á að nokkur þróun á sviði laga eða refsifræði hafi haft marktæk áhrif á vandann . . . Í borgarþjóðfélagi nútímans, þar sem efnahagsvöxtur og persónuleg velgengni eru ráðandi öfl, er ekki hægt að reikna með að afbrotatíðni hætti að vaxa.“
Er of djúpt í árinni tekið?
Er ástandið virkilega svona slæmt? Fer ekki afbrotum fækkandi sums staðar samkvæmt skýrslum? Jú, sums staðar, en talnaskýrslur geta verið villandi. Til dæmis var frá því skýrt að glæpum hefði fækkað um 20 prósent á Filippseyjum eftir að byssubann var sett á. En tímaritið Asiaweek bendir á að embættismaður nokkur telji að bílaþjófar og bankaræningjar hafi hætt að stela bílum og ræna banka og „séu farnir að stunda mannrán í staðinn.“ Færri bankarán og bílaþjófnaðir ollu því að afbrotum fækkaði á heildina litið, en þessi samdráttur var lítils virði í ljósi þess að mannrán fjórfölduðust!
Tímaritið HVG segir um Ungverjaland: „Afbrotum hefur fækkað um 6,2 af hundraði miðað við fyrri árshelming 1993. Það sem lögreglan gleymdi að nefna er að fækkunin . . . er aðallega tilkomin vegna stjórnsýslubreytinga.“ Lágmarksverðmætið, sem miðað hafði verið við þegar þjófnaðir, fjársvik og skemmdarverk voru skráð, var hækkað um 250 prósent. Auðgunarbrot og skemmdarverk undir því verðmæti eru þess vegna ekki skráð lengur. Þar eð eignatengdir glæpir nema þrem fjórðu allra glæpa þar í landi var varla um fækkun að ræða.
Vissulega er erfitt að fá nákvæmar tölur um afbrot og glæpi. Ein ástæðan er sú að margir glæpir — kannski allt að 90 af hundraði á sumum sviðum — eru aldrei kærðir. En í rauninni skiptir engu máli hvort afbrotum hefur fækkað eða fjölgað. Fólk þráir að glæpir séu upprættir, ekki bara að þeim fækki.
Ríkisstjórnir reyna
Í könnun á vegum Sameinuðu þjóðanna árið 1990 kom í ljós að velferðarríki heims eyða að meðaltali 2 til 3 af hundraði ríkisútgjalda til afbrotavarna en þróunarlöndin meiru, eða að meðaltali 9 til 14 af hundraði. Sums staðar er lögð áhersla á að fjölga í lögreglu og búa hana betur. En árangurinn er misjafn. Sumir ungverskir borgarar kvarta: „Það eru aldrei nógu margir lögregluþjónar til að handsama glæpamennina en alltaf nógu margir til að grípa umferðarlagabrjóta.“
Margar stjórnir hafa talið nauðsynlegt að herða refsilöggjöf upp á síðkastið. Til dæmis „hafa mannrán færst í vöxt um alla Rómönsku-Ameríku,“ segir tímaritið Time, þannig að ríkisstjórnir þar hafa sett lög sem eru „bæði kröftug og áhrifalaus. . . . Það er eitt að setja lög en annað að framfylgja þeim,“ segir blaðið.
Talið er að árið 1992 hafi verið stundaðar hverfisvaktir á meira en 100.000 svæðum á Bretlandi er náð hafi til að minnsta kosti fjögurra milljóna heimila. Svipaðri vörsluáætlun var komið á í Ástralíu um miðjan níunda áratuginn. Markmiðið, segir Afbrotafræðistofnun Ástralíu, er að draga úr glæpum „með því að vekja borgarana betur til vitundar um almenningsöryggi, bæta viðhorf borgara til þess að tilkynna um glæpi og grunsamlega atburði í hverfinu, og með því að auka varnir gegn glæpum á þann hátt að stuðla að því að eignir séu merktar og áhrifarík öryggistæki séu sett upp.“
Sums staðar eru verslana- og athafnasvæði tengd lögreglustöðvum með lokuðum sjónvarpsrásum. Lögregla, bankar og verslanir nota sjónvarpsmyndavélar sem afbrotafælu eða til að bera kennsl á lögbrjóta.
Í Nígeríu er lögregla með eftirlitsstöðvar við þjóðvegi í því skyni að klófesta ræningja og bílaþjófa. Ríkisstjórnin hefur skipulagt sérsveit gegn viðskiptaglæpum til að berjast á móti fjársvikum. Samstarfsnefndir lögreglu og samfélags, skipaðar forystumönnum hvers byggðarlags, upplýsa lögregluna um glæpastarfsemi og vafasama náunga.
Sá sem heimsækir Filippseyjar sér að heimili standa yfirleitt ekki auð og eftirlitslaus og að margir eru með varðhunda. Kaupsýslumenn ráða öryggisverði til að gæta fyrirtækja sinna. Þjófavarnir fyrir bíla rokseljast. Þeir sem hafa efni á, flytjast í byggðakjarna eða fjölbýlishús sem eru með strangri öryggisgæslu.
Lundúnablaðið The Independent segir: „Jafnhliða dvínandi tiltrú á lög og reglur, færist í vöxt að almennir borgarar skipuleggi varnir byggðarlaga sinna.“ Og æ fleiri vopnast. Í Bandaríkjunum er til dæmis talið að til sé að minnsta kosti ein byssa á öðru hverju heimili.
Stjórnvöld leita stöðugt nýrra leiða í baráttunni gegn glæpum. En V. Vsevolodov við Innanríkisakademíuna í Úkraínu bendir á að samkvæmt heimildum innan Sameinuðu þjóðanna sé svo margt hæfileikafólk að leita „nýrra leiða til að stunda glæpastarfsemi“ að „þjálfun löggæslumanna“ nái ekki að halda í við þá. Snjallir glæpamenn veita stórfé til atvinnustarfsemi og félagslegrar þjónustu, láta sig falla inn í þjóðfélagið og „komast í háar stöður í þjóðfélaginu.“
Traustið dvínar
Þeim fer fjölgandi sem álíta jafnvel að stjórnvöld séu sjálf hluti af vandanum. Tímaritið Asiaweek hefur eftir yfirmanni vinnuhóps gegn glæpum: „Um 90 af hundraði grunaðra manna, sem við handtökum, eru annaðhvort í lögreglunni eða hernum.“ Hvort sem það er rétt eða ekki urðu fréttir af þessu tagi til þess að þingmaður sagði: „Ef þeir sem hafa svarið að halda uppi lögum eru lögbrjótar sjálfir, þá er þjóðfélag okkar í vondum málum.“
Spillingarhneyksli, sem háttsettir embættismenn eru flæktir í, hafa orðið mikill álitshnekkir fyrir ríkisstjórnir víða um heim og grafið enn meir undan trausti almennings. Auk þess að missa trúna á að stjórnvöld geti stemmt stigu við glæpum er fólk nú farið að efast um að þau ætli sér að gera það. Kennari spurði: „Hvernig geta þessi yfirvöld barist gegn glæpum fyrst þau eru sjálf sokkin í fenið?“
Stjórnir koma og fara en glæpirnir halda áfram. En sá tími er nálægur að glæpir verði upprættir!
[Mynd á blaðsíðu 7]
Afbrotafælur: Myndavél og skjár, öryggisgrind fyrir glugga og vörður með þjálfaðan varðhund.
[Mynd á blaðsíðu 8]
Glæpir gera fólk að föngum á eigin heimili.