Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g97 8.1. bls. 3-5
  • Er til land án glæpa?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Er til land án glæpa?
  • Vaknið! – 1997
  • Svipað efni
  • Baráttan við glæpina
    Vaknið! – 1997
  • Hin vonlausa barátta gegn glæpum
    Vaknið! – 1998
  • Þegar glæpir voru ekki til
    Vaknið! – 1998
  • Loksins — stjórn se upprætir glæpi
    Vaknið! – 1997
Vaknið! – 1997
g97 8.1. bls. 3-5

Er til land án glæpa?

Útför hans var ein sú fjölmennasta sem sést hafði í Moskvu um áraraðir. Þúsundir manna stóðu meðfram götunum til að votta þessum unga Rússa virðingu sína. Vladislav Listjev, sem féll fyrir byssukúlu launmorðingja hinn 1. mars 1995 nánast á tröppunum heima hjá sér, var afar vinsæll sjónvarpsmaður og hafði verið kjörinn fréttamaður ársins 1994.

TÆPLEGA þrem vikum síðar, á háannatíma að morgni 20. mars, var gerð eiturgasárás á neðanjarðarlestarstöð í Tókíó. Nokkrir dóu og margir slösuðust alvarlega.

Og 19. apríl sama ár var Oklahoma City í Bandaríkjunum í sviðsljósinu. Sjónvarpsáhorfendur um heim allan horfðu með hryllingi á björgunarmenn grafa illa farin lík upp úr rústum stjórnarbyggingar sem hrunið hafði við sprengingu sem hryðjuverkamenn báru ábyrgð á. Alls létust 168 manns.

Síðla í júní 1996 létust einir 19 Bandaríkjamenn og um 400 slösuðust í annarri slíkri árás í Dhahran í Sádí Arabíu.

Þessi fjögur dæmi sýna glöggt að glæpir eru að taka á sig nýja mynd. Grimmileg hryðjuverk eru nú í vaxandi mæli að bætast við „venjulega“ glæpi. Og allir þessir fjórir atburðir sýna hver á sinn veg hve berskjaldaðir allir eru fyrir árásum glæpamanna. Glæpir og afbrot geta náð til þín hvort heldur þú ert heima, í vinnunni eða á götu úti. Í könnun, sem gerð var á Bretlandi, kom í ljós að næstum þrír fjórðu allra Breta telja líklegra að þeir verði fórnarlömb glæpa nú en fyrir tíu árum. Ef til vill er ástandið svipað þar sem þú býrð.

Löghlýðnir borgarar þrá stjórn sem gerir meira en bara að halda glæpum í skefjum. Þeir vilja fá stjórn sem upprætir glæpi. Og þótt samanburður á afbrotatíðni geti bent til þess að stjórnum sumra landa takist betur en öðrum að koma í veg fyrir glæpi, sýnir heildarmyndin að stjórnir manna fara halloka í baráttunni við glæpina. Það er þó ekki óraunsæi eða draumsýn að halda að stjórnvöld bindi bráðlega enda á glæpi. En hvaða stjórnvöld? Og hvenær?

[Rammi/Kort á blaðsíðu 4,5]

HEIMUR FULLUR GLÆPA

EVRÓPA: Ítölsk bók („Tækifærið og þjófurinn“) segir að á skömmum tíma hafi innbrot og skemmdarverk á Ítalíu „náð stigi sem einu sinni var talið óhugsandi.“ Í Úkraínu, einu lýðveldi Sovétríkjanna fyrrverandi, voru skráð 490 afbrot á 100.000 íbúa árið 1985 en 922 árið 1992. Og talan stígur jafnt og þétt. Það er engin furða að rússneskt dagblað („Rök og staðreyndir“) skuli hafa sagt: „Okkur dreymir um að lifa — að halda lífi — að komast lifandi gegnum þessa skelfilegu tíma . . . við óttumst að ferðast með járnbrautarlest — hún gæti farið út af sporinu eða orðið fyrir skemmdarverki — við óttumst að fljúga — flugrán eru tíð eða flugvélin gæti hrapað; við óttumst að ferðast með neðanjarðarlest — vegna árekstra eða sprengjutilræða; við óttumst að ganga um göturnar — maður gæti lent í miðjum skotbardaga eða orðið fyrir ráni, nauðgun, líkamsárás eða verið myrtur; við óttumst að ferðast í bíl — kannski verður kveikt í honum, hann sprengdur í loft upp eða honum stolið; við óttumst að ganga inn í veitingahús, verslun eða stigagang í fjölbýlishúsi — alls staðar má búast við árás eða morði.“ Ungverska tímaritið HVG líkti sólríkri borg í Ungverjalandi við „aðalstöðvar Mafíunnar“ og sagði að á síðastliðnum þrem árum hafi hún verið „upphafsstaður allra nýrra glæpategunda . . . Keðjuverkun óttans breiðist út þegar fólk sér að lögreglan er óviðbúin að berjast gegn Mafíunni.“

AFRÍKA: Nígeríublaðið Daily Times skýrir frá því að „æðri menntastofnanir“ einnar Vestur-Afríkuþjóðar búi við „glæpa- og ógnaröld leynitrúarreglna sem geti nánast komið í veg fyrir allt marktækt háskólanám.“ Blaðið bætir við: „Aldan breiðir úr sér og henni fylgir mann- og eignatjón.“ Dagblaðið The Star í Suður-Afríku segir um annað ríki þar í álfu: „Til er tvenns konar ofbeldi: þjóðfélagsátök og venjulegir ofbeldisglæpir. Stórlega hefur dregið úr hinu fyrra en hið síðara hefur rokið upp úr öllu valdi.“

AMERÍKA: Kanadablaðið The Globe and Mail skýrir frá því að ofbeldisglæpir í Kanada hafi aukist á 12 ára tímabili og sé „þáttur í þróun sem hafi aukið ofbeldi um 50 af hundraði á síðastliðnum áratug.“ Dagblaðið El Tiempo í Kólumbíu segir að á einu ári ekki alls fyrir löngu hafi verið framin 1714 mannrán þar í landi „sem er meira en helmingi fleiri mannrán en samanlagt um heim allan á sama tímabili.“ Að sögn dómsmálaráðuneytisins í Mexíkó var að meðaltali framið kynferðisafbrot í höfuðborginni á fjögurra klukkustunda fresti á heilu ári nýverið. Talsmaður ráðuneytisins benti á að 20. öldin hafi einkennst af vaxandi lítilsvirðingu fyrir gildi einstaklingsins. „Viðhorf okkar kynslóðar er það að nota og henda svo,“ sagði hann.

EYJAÁLFA: Afbrotafræðistofnun Ástralíu áætlar að glæpir þar í landi kosti „í það minnsta 27 milljarða dollara [1415 milljarða ÍSK] á ári eða næstum 1600 dollara [84.000 ÍSK] á hvert mannsbarn.“ Það er „um 7,2 af hundraði vergrar landsframleiðslu.“

ALLUR HEIMURINN: Bókin The United Nations and Crime Prevention segir að „glæpastarfsemi hafi aukist jafnt og þétt um heim allan á áttunda og níunda áratugnum.“ Síðan segir: „Skráðum afbrotum fjölgaði úr um það bil 330 milljónum árið 1975 í nærri 400 milljónir árið 1980 og eru talin hafa náð hálfum milljarði árið 1990.“

[Rétthafi myndar]

Kort og hnötturinn: Mountain High Maps® Copyright © 1995 Digital Wisdom, Inc.

[Rétthafi myndar á blaðsíðu 3]

Jörðin á bls. 3, 6 og 9: Ljósmynd frá NASA

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila