Horft á heiminn
Berklar — „allsherjarhættuástand“
Árlega deyr fleira fullvaxta fólk af völdum berkla en af alnæmi, malaríu og öðrum hitabeltissjúkdómum samanlögðum, að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Á hverri sekúndu sýkist einhver af berklum. Berklasýkillinn getur borist með hósta eða hnerra. WHO telur að á næstu tíu árum muni 300 milljónir manna til viðbótar sýkjast af berklum og 30 milljónir deyja af völdum sjúkdómsins. Það sem verra er, fram eru komin lyfþolin afbrigði af berklum þannig að hætta er á að sjúkdómurinn verði ólæknandi. „Aðeins 5-10% þeirra, sem ganga með berkla, veikjast eða eru smitberar, því að ónæmiskerfið heldur berklasýklinum í skefjum,“ að sögn WHO. En svo alvarleg er heimsfarsóttin að WHO lýsti yfir ‚allsherjarhættuástandi‘ af hennar völdum. Það er í fyrsta sinn í sögu stofnunarinnar sem slík yfirlýsing er gefin út.
Rányrkja í höfunum
„Í æðisgengnu kapphlaupi sínu um að finna ný og ábatasöm lyf taka leitarmenn, sem vinna fyrir lyfjafyrirtækin, allt of margar lífverur úr höfunum án þess að hafa nokkra hugmynd um afleiðingarnar,“ segir tímaritið New Scientist. Að sögn Mary Garson, sjávarlífefnafræðings við Queensland-háskóla í Ástralíu, er 98 sýnum af hverjum hundrað hent án ítarlegra rannsókna. Til dæmis gáfu 450 kg af akarnormum og 2400 kg af svömpum aðeins 1 mg hvort af krabbameinslyfi, 1600 kg af sæhéra gáfu 10 mg af peptíði sem notað er við meðferð á sortuæxli, og 850 kg af múrenulifur þurfti til að einangra aðeins 0,35 mg af ciguatoxíni til rannsóknar. „Við megum ekki bara taka lífverur úr höfunum í stórum stíl — hversu gagnlegar sem þær eru — nema við vitum fyrir víst að við séum ekki að útrýma þeim,“ segir Garson.
Hávær tónlist hættuleg
Rokktónleikar geta valdið varanlegum heyrnarskaða, að sögn tímaritsins New Scientist. Franski heyrnarsérfræðingurinn Christian Meyer-Bisch rannsakaði 1364 einstaklinga á aldrinum 14 til 40 ára og uppgötvaði að stór hundraðshluti þeirra, sem sækja tónleika að staðaldri, höfðu orðið fyrir tímabundinni heyrnarskerðingu. Meyer-Bisch varar við því að þessar skaðlegu afleiðingar séu „ekki lengur einstaklingsbundið vandamál heldur sé almannaheill í hættu“ sökum vinsælda rokktónleika.
Heimsmyndin endurskoðuð
Geimvísindamenn eru nú að endurskoða fjölmargar af kenningum sínum í ljósi nýjustu uppgötvana, að sögn dagblaðsins The New York Times. Til dæmis áætla vísindamenn, sem rýna í fjarska himingeimsins með Hubble-geimsjónaukanum, að vetrarbrautir alheimsins séu á bilinu 40 til 50 milljarðar. Þar munar töluverðu á fyrri áætlun sem var 100 milljarðar. Daginn eftir að þetta var tilkynnt skýrðu vísindamenn við Bandaríska stjörnufræðifélagið frá því að þeir hefðu fundið að minnsta kost helming „týnda efnisins“ í alheiminum, massans sem heldur vetrarbrautunum saman með aðdráttarafli sínu. Vísindamennirnir segja að þetta óséða efni geti að stórum hluta til verið mikill fjöldi útbrunninna stjarna sem kallast hvítar dvergstjörnur. Auk þess hafa gögn frá geimfarinu Galileo kallað á að kenningar um reikistjörnuna Júpíter verði endurskoðaðar. „Menn finna alltaf til vissrar auðmýkingar þegar fyrstu gögnin berast,“ segir aðalvísindamaður verkefnisins, dr. Torrence Johnson. „Niðurstöðurnar koma yfirleitt ekki sérlega vel heim og saman við líkönin okkar.“
Grafið eftir Sódómu og Gómorru
Sænskir fornleifafræðingar segjast hafa fundið fornborgirnar Sódómu og Gómorru í El Lisan í Jórdaníu við austanvert Dauðahaf. Þeir hafa unnið þar að rannsóknum í samvinnu við Fornleifaráðuneytið í Amman. Sænska dagblaðið Östgöta-Correspondenten segir það mikið undur að finna menjar húsa sem eyðilögðust um 1900 árum fyrir Krist. Fornleifafræðingarnir eru sannfærðir um að þeir hafi fundið Sódómu og Gómorru. Eftir að hafa rannsakað leirmuni, veggi, grafir og tinnustein hafa þeir komist að þeirri niðurstöðu að borgirnar hafi eyðst í náttúruhamförum. En Biblían bendir á að það hafi verið Guð sjálfur sem eyddi borgunum sökum grófs siðleysis þeirra.