KAFLI 11
Er í lagi að eiga vini á Netinu?
Hvernig finnst þér best að eiga samskipti við fólk?
□ Augliti til auglitis
□ Í síma
□ Á Netinu
Við hverja finnst þér auðveldast að tala?
□ Skólafélaga
□ Fjölskylduna
□ Trúsystkini
Hvar finnst þér auðveldast að tjá þig?
□ Í skólanum
□ Heima
□ Á samkomum
SKOÐAÐU svar þitt við fyrstu spurningunni. Finnst þér betra að eiga samskipti við fólk í gegnum Netið heldur en augliti til auglitis? Ef svo er ertu ekki ein(n) um það. Margir unglingar nota Netið til að eignast vini og halda sambandi við þá. „Það er spennandi að geta kynnst fólki alls staðar í heiminum — fólki sem maður myndi annars aldrei geta hitt,“ segir ung kona að nafni Elaine. Tammy, 19 ára, bendir á annað sem heillar: „Maður getur stjórnað því hvernig fólk lítur á mann. Þegar maður hittir fólk augliti til auglitis og passar ekki hópinn er ekkert hægt að gera í því.“
Skoðaðu nú svör þín við annarri og þriðju spurningunni. Vertu ekki hissa þótt þér finnist auðveldara að tala við skólafélaga en við trúsystkini á samkomum. „Í skólanum eru meiri líkur á að hitta aðra sem eru að ganga í gegnum það sama og maður sjálfur,“ segir Jasmine sem er 18 ára. „Þess vegna getur verið miklu auðveldara að opna sig og slaka á með þeim.“
Það er þess vegna ekkert óeðlilegt að þú viljir tala við skólafélaga á Netinu. Tammy gerði það um tíma. „Allir skólafélagarnir töluðu saman á Netinu og mig langaði ekki til að vera út undan,“ segir hún.a Natalía, 20 ára, bjó til vefsíðu til að geta haft samband við vini sína. „Tækniframfarir eru miklar,“ segir hún. „Það eru komnar nýjar leiðir til að tala saman. Þetta er ein af þeim og mér finnst hún góð.“
Að meta hætturnar
Það er engin spurning að sumum finnst auðveldara að eignast vini og halda sambandi við þá á Netinu. „Netið veitir manni ákveðið sjálfstraust sem maður hefði ekki annars,“ segir Natalía. Tammy er sammála því. „Á Netinu getur maður ákveðið nákvæmlega hvað maður ætlar að segja og það er frábært ef maður er feiminn,“ segir hún.
En það fylgja því ýmsar hættur að tala við fólk á Netinu, og það væri heimskulegt af þér að hunsa þær. Tökum dæmi. Myndirðu ganga í gegnum hættulegt hverfi með bundið fyrir augun? Af hverju ættirðu þá að vafra um Netið án þess að vera vakandi fyrir hættunum?
Hugleiddu hætturnar sem fylgja því að reyna að finna vini á Netinu. „Það er mjög auðvelt að rekast á vafasamt fólk,“ segir Elaine sem hafði einu sinni gaman af því að tala við ókunnuga á Netinu. Hún heldur áfram og segir: „Stundum tekur það ekki nema nokkrar mínútur áður en einhver segir eitthvað klæmið eða spyr sóðalegra spurninga eins og: ,Ertu hrein mey? Stundarðu munnmök?‘ Sumir bjóða manni jafnvel upp á kynlíf á Netinu.“
En hvað ef þú ert bara að tala við vin sem þú treystir? Þú ættir samt að vera á varðbergi. „Maður getur notað allt of mikinn tíma í að tala við einhvern af hinu kyninu þótt hann sé ,bara vinur‘,“ segir Joan. „Eftir því sem maður notar meiri tíma í að tala við viðkomandi á Netinu þeim mun nánari verður vinskapurinn og það er auðvelt að fara að tala um of persónuleg mál.“
Þeir sem villa á sér heimildir
Davíð konungur vissi að það er nauðsynlegt að vara sig á slæmum vinum. Hann skrifaði: „Ég tek mér ekki sæti hjá lygurum og umgengst ekki fláráða [„þá sem villa á sér heimildir“, New World Translation].“ — Sálmur 26:4.
Hefurðu hitt einstaklinga á Netinu sem eru eins og þeir sem Davíð talaði um? Hvenær villir fólk á sér heimildir á Netinu? ․․․․․
Villir þú kannski á þér heimildir á Netinu? „Ég byrjaði að tala við fólk og þóttist síðan hafa persónuleika sem hentaði umræðunum,“ segir Abígail sem fór inn á spjallrásir.
Stelpa, sem heitir Leanne, var óheiðarleg á annan hátt. Hún segir: „Ég talaði reglulega við strák á Netinu sem var í nágrannasöfnuði. Við fórum fljótt að tjá hvort öðru,ást‘ okkar. Þegar mamma og pabbi löbbuðu fram hjá minnkaði ég síðuna á tölvuskjánum þannig að þau höfðu ekki hugmynd um hvað var í gangi. Ég held að þau hafi ekki talið það mögulegt að 13 ára dóttir þeirra væri að skrifa 14 ára strák ástarljóð. Þeim datt það ekki í hug.“
Vertu varkár
Auðvitað eru sum samskipti á Netinu viðeigandi. Margir — líka fullorðnir — nota Netið til að halda sambandi við vini. Á það við um þig? Er þá eitthvað sem þú þarft að varast? Hugleiddu eftirfarandi.
● Fylgstu með hvað þú eyðir miklum tíma á Netinu, og láttu það ekki taka tíma frá mikilvægari málum — eins og nætursvefninum. „Sumir krakkar í skólanum sögðust hafa verið á Netinu til klukkan þrjú um nóttina,“ segir unglingur að nafni Brian. — Efesusbréfið 5:15, 16.
● Hafðu einungis samband við þá sem þú þekkir eða veist örugglega hverjir eru. Það er fullt af skuggalegum einstaklingum á Netinu sem reyna að notfæra sér grunlausa unglinga. — Rómverjabréfið 16:18.
● Vertu varkár þegar þú verslar á Netinu. Hafðu allan varann á þegar þú gefur upp persónulegar upplýsingar. Annars gætirðu orðið fórnarlamb fjársvikara — eða eitthvað þaðan af verra. — Matteus 10:16.
● Þegar þú sendir vinum þínum myndir skaltu spyrja þig: „Gefur þetta rétta mynd af einhverjum sem segist þjóna Guði?“ — Títusarbréfið 2:7, 8.
● Ef umræðan fer að snúast um „svívirðilegt hjal eða ósæmandi spé“ skaltu slíta samtalinu líkt og þú myndir gera í samtali augliti til auglitis. — Efesusbréfið 5:3, 4.
● Vertu alltaf opinská(r) og heiðarleg(ur) í sambandi við netnotkun þína. Ef þú þarft að fela fyrir foreldrunum hvað þú ert að gera þá er eitthvað að. „Ég tala opinskátt við mömmu,“ segir Kari. „Ég sýni henni hvað ég er að gera á Netinu.“ — Hebreabréfið 13:18.
„Biðin er þess virði“
Það er eðlilegt að vilja eiga vini. Mennirnir voru skapaðir þannig að þeir hefðu ánægju af félagsskap hver annars. (1. Mósebók 2:18) Það að þig langi til að eignast vini er því í samræmi við það hvernig við erum úr garði gerð! Vertu bara varkár þegar þú velur þér vini.
Þú getur verið viss um að eignast bestu vinina með því að velja þá í samræmi við siðferðiskröfur Biblíunnar. Ein 15 ára stelpa segir: „Það er erfitt að finna vini sem elska Jehóva og þykir vænt um mann. En biðin er þess virði þegar maður finnur þá!“
Hver sagði að orð gætu ekki sært? Slúður getur stungið mann eins og sverð. Hvernig geturðu stöðvað það?
[Neðanmáls]
LYKILRITNINGARSTAÐUR
„Ég tek mér ekki sæti hjá lygurum og umgengst ekki fláráða [„þá sem villa á sér heimildir“, New World Translation].“ — Sálmur 26:4.
RÁÐ
Tíminn líður hratt þegar maður er á Netinu! Settu þér því tímamörk og haltu þig við þau. Ef nauðsyn krefur geturðu látið klukku hringja þegar þú ætlar að hætta.
VISSIR ÞÚ . . .?
Þú þarft ekki að gefa nema örlitlar upplýsingar um þig á Netinu — kannski nafnið þitt, skólann og símanúmerið þitt — til að einhver sem hefur illan ásetning geti fundið þig.
HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?
Ég ætla aðeins að nota Netið í tíma á viku, og til að geta staðið við það ætla ég að ․․․․․
Ef ég uppgötva að ég er að tala við ókunnuga á Netinu ætla ég að ․․․․․
Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․
HVAÐ FINNST ÞÉR?
● Hverjir eru kostirnir og gallarnir við að tala við fólk á Netinu í samanburði við að tala við fólk augliti til auglitis?
● Af hverju er auðvelt að þykjast vera einhver annar en maður er á Netinu?
● Hvernig geturðu stjórnað því hve mikinn tíma þú notar á Netinu?
● Hvenær geta netsamskipti verið til góðs?
[Innskot á bls. 103]
„Ég hef hvorki samskipti við ókunnugt fólk á Netinu né þá sem ég myndi ekki umgangast annars.“ — Joan
[Mynd á bls. 100, 101]
Myndirðu ganga í gegnum hættulegt hverfi með bundið fyrir augun? Af hverju ættirðu þá að hafa samskipti við fólk á Netinu án þess að vera varkár?