KAFLI 33
Af hverju ætti ég að forðast klám?
Hversu oft rekstu óvart á klám?
□ Aldrei
□ Sjaldan
□ Oft
Hvar gerist þetta oftast?
□ Á Netinu
□ Í skólanum
□ Í sjónvarpinu
□ Annars staðar
Hvernig bregstu við?
□ Ég sný mér strax undan.
□ Ég lít á það í stutta stund vegna forvitni.
□ Ég stari á það og leita jafnvel uppi meira.
ÞEGAR foreldrar þínir voru á þínum aldri þurfti fólk, sem vildi horfa á klám, að leita það uppi. En nú á dögum er eins og klámið leiti þig uppi. Nítján ára stelpa segir: „Stundum þegar ég er að vafra eða versla á Netinu eða bara athuga bankareikninginn minn kemur klámsíða skyndilega upp á skjáinn!“ Þetta er alls ekki óalgengt. Í einni könnun sögðust 90 prósent unglinga á aldrinum 8 til 16 ára hafa rekist óvart á klám á Netinu — oftast þegar þeir voru að gera heimavinnuna sína.
Í ljósi þess hve klám er útbreitt hugsarðu kannski: Er klám virkilega svo slæmt? Svarið er já! Klám lítilsvirðir bæði þá sem taka þátt í því og þá sem horfa á það. Oft er það líka fyrsta skrefið í átt að því að drýgja syndir af kynferðislegu tagi. En það er ekki allt og sumt.
Það getur verið vanabindandi að horfa á klám og haft hræðilegar og langvarandi afleiðingar. Tökum sem dæmi mann sem heitir Jeff. Fjórtán árum eftir að hann hætti að horfa á klám viðurkenndi hann: „Þetta er dagleg barátta. Löngunin er enn til staðar þótt hún sé miklu veikari. Forvitnin er enn til staðar. Myndirnar eru enn í hausnum á mér. Ég vildi að ég hefði aldrei lagt út á þessa andstyggilegu braut. Þetta virtist svo skaðlaust í byrjun. En nú veit ég betur. Klám er skaðlegt, það er afbrigðilegt og það lítilsvirðir alla sem koma nálægt því. Þrátt fyrir það sem málsvarar þess segja er ekkert — alls ekki neitt — jákvætt við klám.“
Við hvaða aðstæður rekst þú á klám?
Hvernig geturðu komist hjá því að rekast óviljandi á klám? Í fyrsta lagi skaltu skoða við hvaða aðstæður þú rekst á klám. Hugleiddu eftirfarandi dæmi:
Eru sumir skólafélagar þínir líklegir til að senda þér klám í tölvupósti eða í gegnum farsímann? Þá væri skynsamlegt að eyða tölvupóstinum eða skilaboðunum frá þeim án þess að opna þau.
Koma upp auglýsingasíður á Netinu þegar þú slærð viss orð inn í leitarvélina? Ef þú veist af því gæti það hjálpað þér að vera nákvæmari og varfærnari þegar þú velur leitarorð.
Skrifaðu hér fyrir neðan við hvaða aðstæður þú hefur rekist á klám.
․․․․․
Er eitthvað sem þú getur gert til að koma í veg fyrir eða draga úr hættunni á að það gerist? Ef svo er skrifaðu þá hér fyrir neðan hvað þú ætlar að gera.
․․․․․
Ef þú hefur þegar fest þig í snörunni
Það er eitt að rekast óviljandi á klám en allt annað að skoða það viljandi. Hvað ef þetta er jafnvel að verða að vana hjá þér? Eitt er víst — það er ekki auðvelt að losna við slíkan ávana. Tökum dæmi: Segjum að hendur þínar séu bundnar saman með einföldum bómullarþræði. Þú getur sennilega slitið þráðinn með handafli. En hvað ef þráðurinn væri vafinn margsinnis í kringum hendurnar á þér? Þá væri mun erfiðara að losa sig. Hið sama er að segja um þá sem leggja það í vana sinn að horfa á klám. Því meira sem þeir horfa á það þeim mun háðari verða þeir klámi. Ef þetta hefur komið fyrir þig hvernig geturðu þá losað þig?
Áttaðu þig á hvað klám er í raun og veru. Klám er ekkert annað en tilraun Satans til að vanvirða eitthvað sem Jehóva ætlaðist til að væri heiðvirt. Ef þú sérð klám í þessu ljósi hjálpar það þér að ,hata illt‘. — Sálmur 97:10.
Hugsaðu um afleiðingarnar. Klám leggur hjónabönd í rúst. Það niðurlægir og óvirðir þá sem sýndir eru og þann sem horfir á það. Það er góð ástæða fyrir því að í Biblíunni segir: „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig.“ (Orðskviðirnir 22:3) Skrifaðu hér fyrir neðan dæmi um,ógæfu‘ sem þú gætir orðið fyrir ef þú gerðir það að vana þínum að horfa á klám.
․․․․․
Taktu ákvörðun og stattu við hana. „Ég hef gefið hátíðlegt loforð um að horfa aldrei á stúlku með girndarauga,“ sagði hinn trúfasti Job. (Jobsbók 31:1, Today’s English Version) Hér á eftir eru nokkur ,hátíðleg loforð‘ sem þú getur gefið:
Ég ætla ekki að nota Netið þegar ég er ein(n).
Ég ætla strax að loka öllum klámsíðum sem koma óvænt upp á skjáinn.
Ég ætla að tala við þroskaðan vin ef ég fer aftur að horfa á klám.
Dettur þér í hug fleiri loforð sem þú getur gefið til að hjálpa þér í baráttunni gegn klámi? Ef svo er skrifaðu þau þá hér.
․․․․․
Nefndu þetta í bænum þínum. Sálmaritarinn bað Jehóva: „Snú augum mínum frá hégóma.“ (Sálmur 119:37) Jehóva Guð vill að þér takist að gera það sem er rétt og hann getur gefið þér styrkinn til þess. — Filippíbréfið 4:13.
Talaðu við einhvern. Mikilvægt skref í átt að því að brjótast úr viðjum þessa ávana er að velja sér trúnaðarmann. (Orðskviðirnir 17:17) Skrifaðu hér fyrir neðan nafn á þroskuðum einstaklingi sem þér finnst þú geta rætt við um málið.
․․․․․
Þú mátt vera viss um að þú getur sigrað í baráttunni gegn klámi. Í hvert skipti sem þú forðast það ertu í rauninni að vinna mikilvægan sigur. Segðu Jehóva frá þessum sigri og þakkaðu honum fyrir þann styrk sem hann hefur gefið þér. Mundu alltaf að þú gleður hjarta Jehóva með því að halda þig frá klámi. — Orðskviðirnir 27:11.
LYKILRITNINGARSTAÐUR
„Deyðið því hið jarðbundna í fari ykkar: hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd sem ekki er annað en skurðgoðadýrkun.“ — Kólossubréfið 3:5.
RÁÐ
Sjáðu til þess að tölvan þín sé stillt þannig að hún hindri aðgang að klámsíðum. Forðastu einnig að smella á viðhengi í tölvupósti sem þú færð frá óþekktum sendanda.
VISSIR ÞÚ . . .?
Að vera heltekinn af því að horfa á klám minnir á viðhorf illu andanna á dögum Nóa sem höfðu afbrigðilegan áhuga á kynlífi. — 1. Mósebók 6:2.
HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?
Til að rekast ekki óviljandi á klám ætla ég að ․․․․․
Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․
HVAÐ FINNST ÞÉR?
● Hvernig vanvirðir klám það sem á að vera heiðvirt?
● Hvernig gætirðu hjálpað systkini þínu sem er farið að horfa á klám?
[Innskot á bls. 278]
„Áður en ég kynnti mér Biblíuna hafði ég notað nánast öll helstu fíkniefnin. En klámið var sú fíkn sem var langerfiðast að losna við. Það er aðeins með hjálp Jehóva sem mér hefur tekist að yfirvinna þetta vandamál.“ — Jeff
[Mynd á bls. 276]
Því oftar sem maður horfir á klám því fastari verður maður og þeim mun erfiðara er að slíta sig lausan.