Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • yp2 kafli 32 bls. 263-272
  • Hvernig get ég haft það skemmtilegt?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvernig get ég haft það skemmtilegt?
  • Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 2. bindi
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Af hverju að vera á varðbergi?
  • Er í lagi að fara á skemmtistaði?
    Vaknið! – 2004
  • Hvernig get ég valið mér sómasamlega kvikmynd?
    Vaknið! – 1991
  • Hvaða myndir ætlar þú að sjá?
    Vaknið! – 2005
  • Skiptir máli hvaða kvikmyndir ég horfi á?
    Vaknið! – 1990
Sjá meira
Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 2. bindi
yp2 kafli 32 bls. 263-272

KAFLI 32

Hvernig get ég haft það skemmtilegt?

Merktu rétt eða rangt við eftirfarandi staðhæfingar.

Samkvæmt Biblíunni . . .

er alltaf rangt að stunda íþróttir.

□ Rétt □ Rangt

hafa allar kvikmyndir og sjónvarpsþættir slæm áhrif.

□ Rétt □ Rangt

er alveg bannað að dansa.

□ Rétt □ Rangt

ÞÚ HEFUR lagt hart að þér alla vikuna. Skólinn er búinn. Þú hefur klárað öll verkefnin þín á heimilinu. En þú ert enn full(ur) orku sem er ein blessun unglingsáranna og núna viltu gera eitthvað skemmtilegt. — Orðskviðirnir 20:29.

Jafnaldrar þínir halda kannski að Biblían sé á móti því að fólk skemmti sér og að hún komi í veg fyrir að þú njótir lífsins. En er það rétt? Skoðum staðhæfingarnar á blaðsíðunni á undan og athugum hvað Biblían segir um það að skemmta sér.

● Það er alltaf rangt að stunda íþróttir.

Rangt. Í Biblíunni segir: „Líkamleg æfing er nytsamleg.“ (1. Tímóteusarbréf 4:8) Gríska orðið, sem Páll notar fyrir „æfing“, merkir að ,æfa sig sem fimleikamaður‘ og felur í sér hugmynd um líkamsþjálfun. Nú á dögum eru til margs konar íþróttir sem eru bæði skemmtilegar og veita góða hreyfingu, eins og til dæmis að skauta, hjóla, skokka, spila tennis, körfubolta, fótbolta eða blak.

Þýðir það að maður þurfi ekkert að vera á varðbergi? Skoðum samhengið í versinu sem vitnað er í hér fyrir ofan. Þegar Páll postuli skrifaði unga manninum Tímóteusi sagði hann: „Líkamleg æfing er nytsamleg í sumu en guðræknin er til allra hluta nytsamleg og gefur fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda.“ Orð Páls minna á að okkur ætti alltaf að vera efst í huga að þóknast Guði. Þú getur gengið úr skugga um að þjónustan við Jehóva hafi forgang — jafnvel þegar þú velur þér íþrótt — með því að spyrja þig eftirfarandi þriggja spurninga:

1. Hvaða áhætta er fólgin í íþróttinni? Hlustaðu ekki bara á sögusagnir eða það sem áhugasamir unglingar segja. Skoðaðu staðreyndir. Þú getur til dæmis athugað eftirfarandi: Hversu algengt er að fólk slasi sig þegar það stundar þessa íþrótt? Hvaða varúðarráðstafanir eru gerðar? Hvaða þjálfun og útbúnað þarf að hafa til að iðka þessa íþrótt á öruggan hátt? Að sjálfsögðu felst einhver áhætta í nánast öllum íþróttagreinum en er aðalmarkmiðið með þessari íþrótt að stofna lífi og heilsu í hættu?

Lífið er gjöf frá Guði og í lögmálinu, sem Guð gaf Ísraelsmönnum, voru harðar refsingar við því ef einhver var valdur að dauða annars manns fyrir slysni. (2. Mósebók 21:29; 4. Mósebók 35:22-25) Fólk Guðs var þannig hvatt til að láta sér umhugað um öryggismál. (5. Mósebók 22:8) Kristnir menn nú á dögum þurfa líka að sýna lífinu virðingu.

2. Verð ég í góðum félagsskap ef ég iðka þessa íþrótt? Ef þú ert klár í þessari íþróttagrein gætu jafnaldrar þínir og kennarar þrýst á þig að fara að æfa með ákveðnu íþróttafélagi. Þér gæti fundist mjög freistandi að þiggja boðið. Kristinn unglingur, sem heitir Mark, segir: „Mér finnst ósanngjarnt að foreldrar mínir leyfi mér ekki að vera með í íþróttafélagi skólans.“ En í stað þess að reyna að telja foreldrana á þitt band skaltu hugleiða eftirfarandi staðreyndir: Æfingar og leikir eru yfirleitt utan skólatíma. Ef þú stendur þig vel verður sennilega þrýst á þig að nota meiri tíma til að sinna íþróttinni. Ef þú stendur þig ekki nógu vel gætirðu fundið fyrir þrýstingi til að æfa þig betur. Auk þess mynda allir í liðinu yfirleitt náin vináttubönd þar sem þeir fagna sigri saman og hughreysta hver annan í ósigri.

Spyrðu þig: Mun það hafa góð áhrif á mig að verja frítíma mínum í íþrótt sem gæti stuðlað að því að ég myndaði náin vináttubönd við unglinga sem hafa ekki sömu gildi og ég? (1. Korintubréf 15:33) Hversu miklu vil ég fórna einungis til að spila með ákveðnu íþróttaliði?

3. Hversu mikill tími mun fara í þessa íþrótt og hvað mun hún kosta? Í Biblíunni erum við hvött til að ,meta þá hluti rétt sem máli skipta‘. (Filippíbréfið 1:10) Til að hjálpa þér að fylgja þessu ráði skaltu spyrja þig: Mun þessi íþróttaiðkun taka frá mér tíma sem ég ætlaði annars að nota til heimanáms eða í þjónustuna við Jehóva? Hver er heildarkostnaðurinn við íþróttina? Ræð ég við þessi útgjöld? Þegar þú hugleiðir þessar spurningar hjálpar það þér að forgangsraða rétt.

● Allar kvikmyndir og sjónvarpsþættir hafa slæm áhrif.

Rangt. Biblían segir kristnum mönnum að ,halda því sem gott er‘ og að ,forðast allt illt í hvaða mynd sem er‘. (1. Þessaloníkubréf 5:21, 22) Það stangast ekki allar kvikmyndir og sjónvarpsþættir á við þessa meginreglu.a

Það getur vissulega verið góð skemmtun að fara í bíó með vinum sínum. Leigh, stelpa frá Suður-Afríku, segir: „Ef mig langar til að sjá ákveðna mynd hringi ég í eina vinkonu mína og við látum síðan aðra vini okkar vita.“ Yfirleitt fara þau á sýningu sem byrjar snemma. Eftir á sækja foreldrarnir þau og allir fara saman út að borða.

Þótt kvikmyndir og sjónvarpsþættir séu nútímauppfinning er þetta í rauninni aðeins ný útgáfa af gamalli hefð — að segja sögur. Jesús var sérfræðingur í því að ná til hjartna fólks með því að segja sögur. Dæmisaga hans um miskunnsama Samverjann vekur til dæmis upp samúð og hefur að geyma mikilvægan boðskap. — Lúkas 10:29-37.

Kvikmyndagerðarmenn nú á dögum koma líka á framfæri boðskap sem mótar siðferðismat fólks. Þeir reyna að láta áhorfendur halda með sögupersónunum — jafnvel þegar hetjan er glæpamaður eða valdagráðugur og hrottafenginn einstaklingur. Ef þú ert ekki á varðbergi gætirðu farið að halda með glæpamanni eða réttlæta illsku hans eða siðlausan verknað. Hvernig geturðu forðast þessa snöru?

Þegar þú velur þér kvikmynd eða sjónvarpsþátt skaltu spyrja þig: Hvetur þessi mynd mig til að sýna góðvild og miskunn? (Efesusbréfið 4:32) Eða fær hún mig til að fagna yfir óförum annarra? (Orðskviðirnir 17:5) Gerir hún mér erfitt fyrir að ,hata illt‘? (Sálmur 97:10) Eða er ég í rauninni að taka afstöðu með ,illvirkjum‘? — Sálmur 26:4, 5.

Kvikmyndagagnrýni og auglýsingar geta gefið þér einhverja hugmynd um innihald myndarinnar. En vertu ekki eins og ,einfaldur maður sem trúir öllu‘. (Orðskviðirnir 14:15) Af hverju ekki? Kvikmyndagagnrýni er bara persónuleg skoðun annarrar manneskju. Og í auglýsingum gætu framleiðendur vísvitandi falið þá staðreynd að í myndinni séu grófar senur. Unglingsstelpa, sem heitir Connie, segir: „Ég hef komist að því að ef maður veit hverjir aðalleikararnir eru gefur það manni einhverja hugmynd um hvernig myndin er.“

Unglingar, sem fylgja sömu biblíulegu meginreglum og þú, gætu vitað hvort ákveðin mynd sé viðeigandi eða ekki. En mundu að fólki hættir til að segja frá því sem var gott við myndina. Hvernig væri að spyrja hvað var slæmt við myndina? Spyrðu ítarlegra spurninga, til dæmis hvort það hafi verið senur sem innihalda ofbeldi, kynlíf eða illa anda. Foreldrar þínir geta líka gefið þér góð ráð. Stelpa, sem heitir Vanessa, segir: „Ég ræði málin við foreldra mína. Ef þeim finnst í lagi að ég sjái myndina þá geri ég það.“

Mundu að það skiptir miklu máli hvaða kvikmyndir eða sjónvarpsþætti þú velur að horfa á. Af hverju? Af því að afþreyingin, sem þú velur þér, segir til um hvað býr í hjartanu og hvaða gildismat þú hefur. (Lúkas 6:45) Val þitt segir mikið um það hvers konar félagsskap þú hefur gaman af, hvernig málfar þú umberð og hvers konar siðferðismælikvarða þú hefur. Vertu því vandfýsin(n).

● Það er alveg bannað að dansa.

Rangt. Þegar Ísraelsmenn fóru yfir Rauðahafið og komust undan egypska hernum leiddi Mirjam konurnar í fagnaðardansi. (2. Mósebók 15:20) Og í dæmisögu Jesú um týnda soninn var fagnað yfir heimkomu sonarins með ,hljóðfæraslætti og dansi‘. — Lúkas 15:25.

Hið sama á við nú á dögum. Í mörgum menningarsamfélögum hafa ungir jafnt sem aldnir gaman af því að dansa þegar vinir og fjölskyldur hittast. En það þarf að hafa varann á. Biblían fordæmir ekki látlaus samkvæmi en hins vegar varar hún við ,svalli‘ eða „villtum veislum“. (Galatabréfið 5:19-21, Byington) Jesaja spámaður skrifaði: „Vei þeim sem fara snemma á fætur til að sækja sér áfengan drykk og sitja langt fram á nótt eldrauðir af víni. Þeir halda samdrykkju við undirleik gígju, hörpu, páku og flautu en gefa verkum Drottins engan gaum.“ — Jesaja 5:11, 12.

Í þessum veislum var mikið drukkið af,áfengum drykkjum‘ og spiluð villt tónlist. Þær byrjuðu snemma og stóðu langt fram á nótt. Taktu líka eftir viðhorfum veislugestanna — þeir hegðuðu sér eins og Guð væri ekki til. Það er ekki að furða að Guð hafi fordæmt slíkar veislur.

Ef þér er boðið í veislu þar sem verður dansað skaltu spyrja þig: Hverjir verða á staðnum? Hvaða mannorð hafa þeir? Hver ber ábyrgð á veislunni? Hvers konar umsjón verður á staðnum? Eru foreldrar mínir samþykkir því að ég fari? Hvers konar dans verður í veislunni? Margir dansar hafa það eina markmið að vekja kynferðislegar langanir. Myndi það hjálpa þér að ,forðast saurlifnaðinn‘ ef þú dansaðir eða horfðir á slíka dansa? — 1. Korintubréf 6:18.

Hvað ef þér er boðið að fara út að dansa á skemmtistað? Taktu eftir ummælum ungs manns sem heitir Shawn en hann fór oft á slíka staði áður en hann varð vottur. Hann segir: „Tónlistin er yfirleitt óviðeigandi, dansarnir mjög siðlausir og meiri hluti þeirra sem sækja slíka staði hafa eitt markmið í huga.“ Shawn segir þetta markmið vera að fara heim með einhverjum til að sofa hjá. Eftir að Shawn kynnti sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva breytti hann hugarfari sínu. Hvaða skoðun hefur hann núna? „Þessir staðir eru ekki fyrir kristna menn.“

Af hverju að vera á varðbergi?

Hvenær heldurðu að hermaður haldi uppi bestum vörnum — þegar hann er á vígvellinum eða þegar hann er að slaka á með vinum sínum? Að sjálfsögðu er hann varnarlausari þegar hann er að slaka á. Það er eins með þig. Sennilega heldurðu uppi bestum vörnum þegar þú ert í skólanum eða vinnunni. Þá ertu á verði gagnvart hugsanlegri hættu. Það er seinna, þegar þú slakar á með vinum þínum, sem þú er varnarlausari gagnvart árásum á siðferðisgildi þín.

Sumir jafnaldrar þínir gætu gert grín að þér fyrir að halda þig við háar siðferðisreglur Biblíunnar hvað varðar skemmtun. Þú gætir jafnvel orðið fyrir þrýstingi frá unglingum sem eiga kristna foreldra. En slíkir unglingar eru með brennimerkta samvisku. (1. Tímóteusarbréf 4:2) Þeir gætu sakað þig um að vera öfgafull(ur) eða ofurréttlát(ur). En í stað þess að láta undan hópþrýstingi skaltu varðveita „góða samvisku“. — 1. Pétursbréf 3:16.

Það sem skiptir mestu máli er ekki álit jafnaldranna heldur álit Jehóva. Og ef vinirnir stríða þér fyrir að fylgja samvisku þinni gæti verið tímabært að finna sér nýja vini. (Orðskviðirnir 13:20) Mundu að það ert þú sem þarft að standa vörð um þitt eigið siðferði — líka þegar þú slakar á og skemmtir þér. — Orðskviðirnir 4:23.

LESTU MEIRA UM ÞETTA EFNI Í KAFLA 37 Í 1. BINDI BÓKARINNAR

Í NÆSTA KAFLA

Klám er algengara og auðfáanlegra nú en nokkru sinni fyrr. Hvernig geturðu forðast þessa snöru?

[Neðanmáls]

a Nánari upplýsingar er að finna í kafla 36 í 1. bindi bókarinnar.

LYKILRITNINGARSTAÐUR

„Gleð þig, ungi maður, í æsku þinni . . . og breyttu eins og hjartað leiðir þig og eins og augun girnast en vita skaltu að fyrir allt þetta leiðir Guð þig fyrir dóm.“ — Prédikarinn 11:9.

RÁÐ

Spyrðu foreldra þína hvort þið getið haft sjónvarpslausa daga í hverjum mánuði þar sem þið gerið eitthvað skemmtilegt saman sem fjölskylda.

VISSIR ÞÚ . . .?

Dans og tónlist voru mikilvægir þættir í sannri tilbeiðslu hjá Ísraelsþjóðinni. — Sálmur 150:4.

HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?

Ef mér er boðið að æfa með ákveðnu íþóttafélagi ætla ég að segja ․․․․․

Ef ég er að horfa á vafasama mynd með vinum mínum ætla ég að ․․․․․

Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․

HVAÐ FINNST ÞÉR?

● Af hverju ættu kristnir menn að forðast áhættuíþróttir?

● Hvernig geturðu komist að því hvort kvikmynd sé viðeigandi eða ekki?

● Hvernig geturðu metið hvers konar dans er viðeigandi?

[Mynd á bls. 269]

„Mér finnst mjög gaman að dansa en ég hef lært gildi þess að hlusta á ráðleggingar foreldra minna. Ég læt dansinn ekki ganga fyrir í lífinu.“— Tína

[Mynd á bls. 268]

Hermaður er berskjaldaður fyrir árásum þegar hann er ekki á verði — og þú ert varnarlausari fyrir árásum á siðferði þitt þegar þú slakar á.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila