Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w85 1.12. bls. 29-32
  • Innsýn frá Konungabókunum tveim

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Innsýn frá Konungabókunum tveim
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Óhagstæður samanburður
  • Dýrð Salómons konung
  • Tilvitnun til spámannanna
  • Frekari endurómur frá Konungabókunum
  • Hann var þolgóður allt til enda
    Líkjum eftir trú þeirra
  • Verður þú trúfastur eins og Elía?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
  • Stjórnviska Salómons
    Biblían — hver er boðskapur hennar?
  • Hann varði sanna tilbeiðslu
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2008
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
w85 1.12. bls. 29-32

Innsýn frá Konungabókunum tveim

EINHVERJU sinni, þegar Jesús var að tala í heimabæ sínum Nasaret, mælti hann nokkuð sem olli furðulega harkalegum viðbrögðum. Svo virðist sem Nasaretbúar hafi verið að velta fyrir sér hvers vegna hann hefði ekki gert jafnmörg kraftaverk þar og í öðrum borgum. Þegar Jesús svaraði því nefndi hann tvö dæmi úr Biblíunni. Hann sagði þetta:

„Sannlega segi ég yður, engum spámanni er vel tekið í landi sínu. En satt segi ég yður, að margar voru ekkjur í Ísrael á dögum Elía, þegar himinninn var luktur í þrjú ár og sex mánuði, og mikið hungur í öllu landinu, og þó var Elía til engrar þeirra sendur, heldur aðeins til ekkju í Sarepta í Sídonlandi. Og margir voru líkþráir í Ísrael á dögum Elísa spámanns, og enginn þeirra var hreinsaður, heldur aðeins Naaman Sýrlendingur.“ (Lúkas 4:24-27) Við þessi orð Jesú fylltust áheyrendur hans reiði og reyndu að drepa hann. Hvers vegna voru viðbrögð þeirra svona harkaleg?

Til að fá svar við því þurfum við að lesa frásögurnar af lífi og starfi Elía og Elísa í Hebresku ritningunum. Kristnir menn á fyrstu öld þekktu þessar bækur vel, og það gerðu áhreyrendur þeirra, Gyðingar, líka. Við fjölmörg tækifæri vísuðu kristnir biblíuritarar til atburða og persóna í þessum fornu bókum til að undirstrika kennsluatriði, eins og Jesús gerði hér. Áheyrendurnir þekktu strax og skildu hvað við var átt. Ef við eigum að skilja kenningu Jesú til fullnustu þurfum við að þekkja líka þær frásögur sem hann vitnaði í.

Sannleikurinn er sá að ógerlegt er að skilja kristnu Grísku ritningarnar fullkomlega nema við þekkjum Hebresku ritningarnar. Sagt er frá starfi spámannanna, sem Jesús nefndi, Elía og Elísa, í Konungabókunum tveim. Við skulum skoða þessar tvær bækur til að skilja hvað hann átti við og sjá hvernig þekking á þeim gefur okkur dýpri og gleggri skilning á kristnu Grísku ritningunum.

Óhagstæður samanburður

Í fyrsta lagi, hvers vegna komust Nasaretbúar í svona mikið uppnám þegar Jesús minnist á tvö kraftaverk sem Elía og Elísa höfðu gert meira en níu öldum áður? Nú, Jesús var greinilega að bera Nasaretbúa saman við Ísraelsmenn í norðurríkinu Ísrael á dögum Elía og Elísa, og samkvæmt Konungabókunum tveim var andlegt ástand í Ísrael ekki gott á þeim tíma. Ísraelsmenn voru djúpt sokknir í Baalsdýrkun og ofsóttu spámenn Jehóva. Elía var á flótta undan samlöndum sínum þegar ekkja í Sarepta, öðru landi, tók hann að sér og veitti honum beina. Það var þá sem hann gerði kraftaverkið sem Jesús nefndi. (1. Konungabók 17:17-24) Ísrael var enn gegnsýrt Baalsdýrkun þegar Elísa læknaði sýrlenska herforingjann Naaman af holdsveiki sinni. — 2. Konungabók 5:8-14.

Nasaretbúum þótti miður að vera líkt við Gyðinga þess tíma sem snúist höfðu til heiðni. Átti samanburður Jesú rétt á sér? Svo virðist vera. Alveg eins og líf Elía var í hættu í Ísrael var líf Jesú í hættu núna. Frásagan segir: „Allir í samkunduhúsinu fylltust reiði, er þeir heyrðu þetta, spruttu upp, hröktu hann út úr borginni og fóru með hann fram á brún fjalls þess, sem borg þeirra var reist á, til þess að hrinda honum þar ofan.“ En Jehóva verndaði Jesú eins og hann hafði verndað Elía áður. — Lúkas 4:28-30.

Dýrð Salómons konung

Þetta er eitt dæmi um hvernig Konungabækurnar tvær gefa orðum Jesú og frumkristinna manna fyllingu. Tökum annað dæmi. Í fjallræðu sinni hvatti Jesús áheyrendur sína til að treysta að Jehóva sæi þeim fyrir efnislegum nauðsynjum. Meðal annars sagði hann: „Og hví eruð þér áhyggjufullir um klæði? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra.“ (Matteus 6:28, 29) Hvers vegna minntist Jesús hér á Salómon?

Áheyrendur hans, sem voru Gyðingar, hljóta að hafa vitað það því að þeir vissu um dýrð Salómons. Henni er lýst allítarlega í 1. Konungabók (svo og í 2. Kroníkubók). Þeir hafa líklega munað, til dæmis, að heimili Salómons þurfti dag hvern til matar „þrjátíu kór af hveiti og sextíu kór af mjöli, tíu alda uxa og tuttugu uxa haggenga og hundrað sauði, auk hjarta, skógargeita, dáhjarta og alifugla.“ (1. Konungabók 4:22, 23) Það var ekkert smáræði af mat.

Þar að auki var gullið, sem barst Salómon á einu ári, „sex hundruð sextíu og sex talentur gulls að þyngd“ sem er töluvert yfir 10 milljarðar íslenskra króna að núgildi. Allar skreytingar og áhöld í húsi Salómons voru úr gulli. „Ekkert [var] af silfri, því að silfur var einskis metið á dögum Salómons.“ (1. Konungabók 10:14, 21) Þegar Jesús minnti áheyrendur sína á þessi atriði skildu þeir fljótt hvað hann átti við.

Jesús minntist á Salómon í öðru samhengi. Nokkrir skriftlærðir menn og farísear höfðu krafist tákns af honum og hann svaraði: „Drottning Suðurlanda mun rísa upp í dóminum ásamt þessari kynslóð og sakfella hana, því að hún kom frá endimörkum jarðar að heyra speki Salómons, og hér er meira en Salómon.“ (Matteus 12:42) Hvers vegna fól þessi tilvísun í sér þungar ákúrur á trúarleiðtogana sem á hlyddu?

Ef við erum kunnug 1. Konungabók vitum við að „drottning Suðurlanda“ var drottningin af Saba. Hún var greinilega mikil tignarkona, drottning auðugs ríkis. Þegar hún heimsótti Salómon kom hún með „mjög miklu föruneyti“ og flutti með sér dýra olíu og ‚afar mikið gull og gimsteina.‘ (1. Konungabók 10:1, 2) Venjulega eru sendiherrar notaðir til að annast friðsamleg samskipti milli þjóðaleiðtoga. Það var því óvenjulegt að drottningin af Saba, ríkjandi einvaldur, skyldi fara í eigin persónu alla leiðina til Jerúsalem til að hitta Salómon konung. Hvers vegna gerði hún það?

Salómon konungur var mjög auðugur en það var drottningin af Saba líka. Hún hefði ekki lagt í slíka ferð aðeins til að hitta auðugan einvald. En Salómon var ekki bara auðugur heldur „bar af öllum konungum jarðarinnar að auðlegð og visku.“ (1. Konungabók 10:23) Undir viturri stjórn hans bjuggu „Júda og Ísrael . . . öruggir, hver maður undir sínu víntré og fíkjutré, frá Dan til Beerseba, alla ævi Salómons.“ — 1. Konungabók 4:25.

Það var viska Salómons sem dró drottninguna af Saba þangað. Hún „spurði orðstír Salómons og orðróminn af húsinu, sem Salómon hafði reisa látið nafni [Jehóva],“ og hún kom þangað „til þess að reyna hann með gátum.“ Þegar hún kom til Jerúsalem ‚kom hún til Salómons og bar upp fyrir honum allt sem henni bjó í brjósti. En Salómon svaraði öllum spurningum hennar. Var enginn hlutur hulinn konungi, er hann eigi gæti úr leyst fyrir hana.‘ — 1. Konungabók 10:1-3.

Jesús bjó líka yfir afburðavisku í tengslum við nafn Jehóva. Hann var „meira en Salómon.“ (Lúkas 11:31) Drottningin af Saba, sem ekki var Gyðingur, lagði á sig langt, óþægilegt ferðalag til þess eins að sjá Salómon með eigin augum og njóta góðs af visku hans. Hinir skriftlærðu og farísearnir hefðu því sannarlega átt að hlusta þakklátir á hann sem var ‚meiri en Salómon‘ þegar hann stóð þarna frammi fyrir þeim. En þeir gerðu það ekki. „Drottning Suðurlanda“ mat visku frá Jehóva miklu meira en þeir.

Tilvitnun til spámannanna

Á því tímabili sögunnar, sem Konungabækurnar tvær ná yfir, fóru konungar með völd í tólf ættkvísla ríkinu — og síðar í hinum sundurskiptu ríkjum Ísrael og Júda. Á þeim tíma störfuðu spámenn Jehóva af miklum krafti meðal þjóna hans. Mikið bar þar á Elía og Elísa sem þegar hefur verið minnst á. Tilvísun Jesú sem þegar hefur verið minnst á. Tilvísun Jesú til þeirra í Nasaret er ekki eina skiptið sem þeirra er getið í kristnu Grísku ritningunum.

Í bréfi sínu til kristinna Hebrea talaði Páll postuli um trú þjóna Guðs fyrrum, og sem dæmi um hana sagði hann: „Konur heimtu aftur sína framliðnu upprisna.“ (Hebreabréfið 11:35) Vafalaust hafði hann í huga Elía og Elísa sem báðir voru notaðir til að reisa upp látna. (1. Konungabók 17:17-24; 2. Konungabók 4:32-37) Þegar þrír af postulum Jesú urðu „sjónarvottar að hátign hans“ í ummyndunarsýninni sáu þeir Jesú tala við Móse og Elía. (2. Pétursbréf 1:16-18; Matteus 17:1-9) Hvers vegna var Elía valinn sem einn spámannanna fyrir daga kristninnar sem báru vitni um Jesú? Ef þú lest frásögu 1. Konungsbókar og gefur gaum að hinni miklu trú hans og því hversu Jehóva notaði hann veistu svarið.

Samt sem áður var Elía í rauninni ósköp venjulegur maður eins og við. Jakob minntist á annan atburð 1. Konungabókar þegar hann skrifaði: „Kröftug bæn réttláts manns megnar mikið. Elía var maður sama eðlis og vér, og hann bað þess heitt, að ekki skyldi rigna, og það rigndi ekki yfir landið í þrjú ár og sex mánuði. Og hann bað aftur, og himinninn gaf regn og jörðin bar sinn ávöxt.“ — Jakobsbréfið 5:16-18; 1. Konungabók 17:1; 18:41-46.

Frekari endurómur frá Konungabókunum

Margar aðrar tilvísanir í kristnu Grísku ritningunum enduróma atburði sem greint er frá í Konungabókunum tveim. Stefán minnti æðstaráð Gyðinganna á að Salómon hefði byggt Jehóva hús í Jerúsalem. (Postulasagan 7:47) Fyrri Konungabók greinir frá fjölmörgum smaátriðum viðvíkjandi byggingu þess húss. (1. Konungabók 6:1-38) Þegar Jesús talaði við konu í Samaríu svaraði hún honum undrandi: „Hverju sætir, að þú, sem ert Gyðingur, biður mig um að drekka, samverska konu?‘ [En Gyðingar hafa ekki samneyti við Samverja.]“ (Jóhannes 4:9) Hvers vegna höfðu Gyðingar ekki samneyti við Samverja? Frásögn 2. Konungabókar, sem lýsir uppruna þessarar þjóðar, varpar ljósi á það. — 2. Konungabók 17:24-34.

Bréf í Opinberunarbókinni til safnaðarins í Pýatíru hefur að geyma þessi alvarlegu varnaðarorð: „En það hef ég á móti þér, að þú líður Jessabel, konuna, sem segir sjálfa sig vera spákonu og kennir þjónum mínum og afvegaleiðir þá til að drýgja hór og eta kjöt helgað skurðgoðum.“ (Opinberunarbókin 2:20) Hver var Jessabel? Dóttir Baalsprests í Týrus. Eins og 1. Konungabók greinir frá giftist hún Akab konungi í Ísrael og varð þar með drottning Ísraels. Hún drottnaði yfir manni sínum og kom á Baalsdýrkun í Ísraelsríkinu sem þegar var orðið fráhverft sannri tilbeiðslu, flutti heilan herskara Baalspresta inn í landið og ofsótti spámenn Jehóva. Að síðustu hlaut hún voveiflegan dauðdaga. — 1. Konungabók 16:30-33; 18:13; 2. Konungabók 9:30-34.

Konan, sem sýndi anda Jessabelar í söfnuðinum í Þýatíru, virðist hafa verið að reyna að kenna söfnuðinum að iðka siðleysi og brjóta lög Guðs. Slíkan anda varð að uppræta úr söfnuðinum, alveg eins og uppræta þurfti ætt Jessabelar úr Ísraelsþjóðinni.

Já, við þörfnumst Hebresku ritninganna til að skilja kristnu Grísku ritningarnar. Margt sem þær segja væri merkingarlaust án þess baksviðs sem Hebresku ritningarnar gefa. Jesús og frumkristnir menn, svo og Gyðingarnir sem þeir töluðu til, þekktu þær vel. Því ekki að taka þér tíma til að kynnast þeim vel sjálfur? Þá ert þú að færa þér í nyt ‚sérhverja ritningu‘ sem er „innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:16.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila