Kennið með leikni og kostgæfni
„Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum . . . og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ — Matteus 28:19, 20.
1. Hvers er hvatt til í Orðskviðunum 22:29?
ORÐ JEHÓVA hvetur til leikni og iðjusemi. Til dæmis segir það: „Sjáir þú mann vel færan í verki sínu, hann getur boðið konungum þjónustu sína, eigi mun hann bjóða sig ótignum mönnum.“ (Orðskviðirnir 22:29) Að sjálfsögðu er ekkert niðurlægjandi að vinna fyrir ‚ótigna menn,‘ en ef handverksmaðurinn kann vel til verka mun það ekki fara leynt. Fréttirnar af kunnáttusemi hans gætu meira að segja borist konungi til eyrna og komið honum til að kalla hann í þjónustu sína!
2. (a) Hvers er þörf til að ná leikni í hvaða starfi sem er? (b) Hvers vegna er svona þýðingarmikið að kristinn þjónn orðsins sé góður kennari?
2 Þekkingar, leikni og kunnáttu er þörf í öllum starfsgreinum. Hægt er að stunda nám í trésmiðum og læra margt á því að fylgjast með góðum trésmið að verki, en sá sem vill verða góður smiður þarf sjálfur að læra að beita slíkri þekkingu við smíðar. Skurðlæknir þarfnast bóklegrar menntunar en til að ná leikni í skurðlækningum þarf hann að beita þekkingu sinni á skurðstofunni. Í þeirri starfsgrein er leikni mikilvæg því að hún getur skipt sköpum um líf eða dauða fyrir sjúklinginn. Það hefur þó langtum meiri þýðingu að þjónn orðsins sé starfi sínu vaxinn. Hvers vegna? Vegna þess að hæfni hans sem kennari getur haft áhrif á það hvernig fólk bregst við fagnaðarerindinu. Viðbrögð þess geta síðan skipt sköpum um eilíft líf eða eilífan dauða fyrir það. — 5. Mósebók 30:19, 20; Jóhannes 17:3.
3. Hvað er fólgið í því að gera menn að lærisveinum?
3 Skipunin, sem Jesús Kristur gaf fylgjendum sínum, felur í sér kennslu. Hann sagði: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Matteus 28:19, 20) Að sjálfsögðu er leikni nauðsynleg til að kenna hjartahreinum mönnum allt það sem Jesús bauð.
4. (a) Hvaða viðhorf ætti kennari að hafa? (b) Hvaða gagn hafði Apollós af samverunni með Akvílasi og Priskillu?
4 Slíka kennslu á líka að veita af kostgæfni. Já, kristnir menn ættu að vera ‚kostgæfir til góðra verka‘ og það nær tvímælalaust til þess að veita kennslu í andlegum fræðum, bæði í þjónustunni og innan safnaðarins. (Títusarbréfið 2:14) Akvílas og Priskilla voru leiknir kennarar og „tóku [Apollos] að sér [í Efesus] og skýrðu nánar fyrir honum Guðs veg.“ Þetta varð Apollósi mikill fengur því að síðar, í Akkeu, „hrakti [hann] skarplega rök Gyðinga í allra áheyrn og sannaði af ritningunum, að Jesús væri Kristur.“ (Postulasagan 18:24-28) Ljóst er að Apollós var bæði leikinn og kostgæfur kennari.
‚Haf gát á fræðslu þinni‘
5. Hvers vegna ættum við, samkvæmt 1. Tímóteusarbréfi 4:16, að kenna af leikni og kostgæfni?
5 Páll postuli sagði trúbróður sínum Tímóteusi: „Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni. Ver stöðugur við þetta. Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.“ (1. Tímóteusarbréf 4:16) Þar eð hjálpræði bæði kennara og nemanda er í húfi ætti vissulega að veita slíka fræðslu með leikni og kostgæfni.
6. Hvernig getur þú náð leikni í að nota Ritninguna og hvaða spurningar er gott að íhuga?
6 Trésmiðir og skurðlæknar verða að hafa gát á sjálfum sér. Þeir verða að geta beitt verkfærum sínum af kunnáttu. Hið sama gildir um kristinn þjón orðsins, en helsta verkfæri hans er ‚sverð andans, Guðs orð.‘ (Efesusbréfið 6:17) Hvernig getur þú náð leikni í því að beita Ritningunni? Að sjálfsögðu með því að nema og nota hana reglulega. Hefur þú lesið Biblíuna spjaldanna á milli og tekið þér tíma til að ígrunda hin óviðjafnanlegu ráð hennar? Lest þú í henni daglega? Notarðu hana reglulega í þjónustunni á akrinum? Notfærir þú þér til fullnustu hina kjarnmiklu, andlegu fæðu sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ Jehóva sér fyrir? — Matteus 24:45-47.
7. Hvaða tillögur eru hér gefnar um námstíma og hvernig sýnir Ritningin fram á nauðsyn þess að nema?
7 Láttu ekki vanta að taka ákveðinn tíma til náms í orði Guðs og ritum sem útlista sanna kristni. Það mun fylla huga þinn heilnæmum upplýsingum sem eru sjálfum þér gagnlegar og hægt er að nota til að svara spurningum einlægra manna. (1. Pétursbréf 3:15; Kólossubréfið 4:6) Auðvitað er það breytilegt hvenær hentar einstaklingum og fjölskyldum að nema. Sumum hentar best að nema að kvöldi dags en öðrum finnst hugurinn starfa betur að morgni. Sumum hentar kannski best að nema um miðjan daginn. En hvenær sem numið er hefur afarmikla þýðingu að námið sé reglulegt og ítarlegt. Jósúa og konungar Ísraels áttu að lesa í orði Guðs daglega. — Jósúa 1:7, 8; 5. Mósebók 17:18-20.
Unnið að því að verða betri kannari
8. Hvernig getur þú notað hugmyndatengsl til að verða betri kennari?
8 Það útheimtir vinnu að auka hæfni sína sem kennari. Ein aðferð til þess er að notfæra sér hugmyndatengsl þegar Biblían eða kristin rit eru numin. Tengdu nýjar hugmyndir við þær sem þú þegar þekkir. Það mun hjálpa þér að hugfesta meginatriði efnisins svo að þú getir útskýrt þau skilmerkilega þegar þú kennir öðrum. Vafalaust hefur þú oft notað hugmyndatengsl þegar þú hefur numið. Til dæmis má vera að þú hafir ekki alltaf gert þér grein fyrir að undirgefni kristinna manna við ‚yfirvöldin‘ á að vera afstæð, en núna veist þú að hlýðni við Guð gengur fyrir. (Rómverjabréfið 13:1-8; Markús 12:17; Postulasagan 5:29) Þú skilur þetta vegna þess að þú hefur tengt ný þekkingaratriði við það sem þú vissir fyrir.
9. Lýstu með dæmi hvernig hægt er að sjá fyrir sér atburði sem Biblían segir frá?
9 Önnur leið til að bæta kennsluhæfni sína er að sjá fyrir sér í huganum þá atburði sem sagt er frá í Biblíunni. Hvernig væri að gera það núna í sambandi við frásögn Dómarabókarinnar 7:19-22? Í skjóli náttmyrkurs umkringja Gídeon og 300 menn með honum herbúðir Midíaníta þegar varðmennirnir hafa nýhafið vakt sína. Skyndilega heyrir þú hundrað af mönnum Gídeons blása í lúðra og sérð þá brjóta stóru vatnskrúsirnar sem þeir hafa borið með sér. Hinir 200 Ísraelsmennirnir fara eins að. Þeir lyfta allir blysum sínum og þú heyrir þá hrópa: „Sverð [Jehóva] og Gídeons!“ Þegar Midíanítar, felmtri slegnir, byrja að flýja halda hinar þrjár sveitir Gídeons áfram að blása í lúðrana, og í ljós kemur að Jehóva hefur látið óvinina bregða sverði hver gegn öðrum. Ef þú hefur getað séð þennan atburð fyrir þér manst þú hann áreiðanlega vel og getur notað hann þegar þú kennir öðrum. Þessi atburður kennir okkur meðal annars að Jehóva getur frelsað þjóna sína án þess að beita voldugum, mennskum herafla. — Sálmur 94:14.
10. Hvernig gætir þú notað líkinguna í Dómarabókinni 9:8-15 þegar þú kennir?
10 Góðar líkingar, þar á meðal þær sem eru í Ritningunni, geta líka aukið hæfni þína sem kennari. Tökum sem dæmi Dómarabókina 9:8-15. Jótam, sonur Gídeons, segir þar frá því að trén hafi einu sinni ætlað að smyrja sér konung. Olíutréð, fíkjutréð og vínviðurinn afþökkuðu konungstign, en hinn verðulausi þyrnir þáði hana fullur ákefðar. Nytjatrén táknuðu verðuga menn sem ekki sóttust eftir konungstign yfir samlöndum sínum, en þyrnirinn, einungis nothæfur sem brenni, táknaði konungdóm hins hrokafulla morðingja Abímeleks sem vildi drottna yfir öðrum en hlaut voveifleg endalok í samræmi við spádóm Jótams. (Dómarabókin 9:50-57) Með þessari líkingu má undirstrika nauðsyn þess að gera það sem er rétt og vera lítillátur, ekki hrokafullur. — Sálmur 18:26, 27; 1. Pétursbréf 5:5.
11. (a) Hvað undirstrikar líking Jesú í Matteusi 13:45, 46? (b) Hvað getum við lært af þessari líkingu?
11 Kennarinn mikli, Jesús Kristur, er kunnur fyrir sínar afbragðsgóðu samlíkingar og dæmisögur. Tökum sem dæmi eftirfarandi orð hans. „Enn er himnaríki líkt kaupmanni, sem leitaði að fögrum perlum. Og er hann fann eina dýrmæta perlu, fór hann, seldi allt, sem hann átti, og keypti hana.“ (Matteus 13:45, 46) Jesús lýsti þannig hversu dýrmætt Guðsríki væri og benti á að sá maður, sem gerði sér grein fyrir hinu sanna gildi þess, væri fús til að losa sig við hvað sem væri vegna þess. Þessi líking er einföld og auðskilin og kristinn kennari ætti að hafa þann mælikvarða í huga þegar hann notar líkingar við kennslu.
Samkomurnar geta gert okkur leiknari
12. Hvernig getur þú aukið kennsluhæfni þína með því að hlýða á opinbera fyrirlestra?
12 Kristnar samkomur gegna veigamiklu hlutverki í því að gera þjóna Jehóva leikna og kostgæfa kennara. Eins og fjallræða Jesú sýnir eru opinberir fyrirlestrar góð leið til að koma á framfæri andlegri fræðslu. (Matteus 5:1-7:29) Þess vegna eru haldnir opinberir fyrirlestrar á samkomum votta Jehóva nú á tímum. Ert þú reglulega viðstaddur? Hlustar þú gaumgæfilega á? Flettir þú upp í Biblíu þinni þegar ræðumaðurinn les ritningartexta? Ert þú vanur að skrifa hjá þér minnisatriði? Allt eru þetta leiðir til að auka hæfni þína sem kennara, og hin góða kennsla út af Ritningunni ætti að gera þig bæði leiknari og kostgæfari í að gera menn að lærisveinum.
13, 14. (a) Hvenær tók það starf að gera menn að lærisveinum á sig sérstaka þýðingu meðal þjóna Jehóva? (b) Hvaða spurninga má spyrja varðandi námið í Varðturninum og safnaðarbóknámið?
13 Það starf að gera menn að lærisveinum tók á sig sérstaka þýðingu fyrir þjóna Jehóva þegar fyrst var hvatt til þess að ‚kunngera konunginn og ríkið‘ á mótinu í Cedar Point í Ohio árið 1922. Sama ár var fyrst skipulagt hópnám með hjálp Varðturnsins. Þetta tímarit hefur svo sannarlega haldið kenningu Biblíunnar og prédikun Guðsríkis hátt á lofti, enda ber það titilinn Varðturninn kunngerir ríki Jehóva. Lest þú af áhuga orð Guðs með hjálp Varðturnsins? Tekur þú virkan þátt í hinu vikulega námi sem byggt er á efni blaðsins?
14 Hið vikulega safnaðarbóknám er líka vettvangur til að auka hæfni þína sem kennari fagnaðarerindisins. Svarar þú með eigin orðum spurningum á þessum fámennu samkomum í heimahúsum, svo og þegar Varðturninn er numinn? Endurspegla athugasemdir þínar það sem þú trúir í hjarta þér?
15. Hver er tilgangur þjónustusamkomunnar og hvar er að finna leiðbeiningar um hana?
15 Fyrir árið 1922 komu þjónar Jehóva reglulega saman um miðja vikuna á samkomu sem nefnd var bæna-, lofgjörðar- og vitnisburðarsamkoma. Þá var sungið, borið vitni og beðið til Jehóva. Samhliða aukinni áherslu á boðun Guðsríkis hús úr húsi þróaðist þessi samkoma yfir í þjónustusamkomuna sem fjallar um prédikunarstarfið. Leiðbeiningaritið Bulletin var mikil hjálp en það hafði að geyma leiðbeiningar varðandi þjónustuna og yfirlýsingar eða vitnisburð sem nota mátti í þjónustunni. Núna veitir Ríkisþjónusta okkar svipaða aðstoð, svo og leiðbeiningar um hinar vikulega samkomur til að hjálpa okkur að gera menn að lærisveinum. Tekur þú reglulega þátt í slíkum samkomum? Fylgir þú þeim leiðbeiningum sem gefnar eru til að hjálpa þér að kenna af leikni og kostgæfni?
16. Hvert er markmið guðveldisskólans eins og sagt var við stofnun hans?
16 Guðveldissólinn var stofnaður í söfnuðum votta Jehóva árið 1943 til að stuðla að kunnáttu og leikni í kennslustarfinu. Fyrsta handbók guðveldisskólans sagði um aðalmarkmið hans: „Ekki er stofnað til þessa námskeiðs til að taka frá þér tíma í þjónustunni, heldur til að gera þig hæfari til hennar. Nánar tiltekið er tilgangur þessa ‚námskeiðs í guðveldisþjónustu‘ sá að gera alla ‚trúa menn,‘ þá sem hafa heyrt orð Guðs og sannað trú sína á það, ‚hæfa til að kenna öðrum‘ með því að fara hús úr húsi, í endurheimsóknir, stjórna fyrirmyndarnámi og bóknámi og, í stuttu máli, til að taka þátt í sérhverri grein þjónustunnar við ríkið. Markmiðið er að gera einn og sérhvern áhrifameiri boðbera guðveldisins til heiðurs nafni Drottins; að hann megi vera betur í stakk búinn að greina opinberlega frá voninni sem í honum býr; að hann verði ‚góður fræðari, þolinmóður og hógvær kennari.‘ (2. Tím. 2:24, 25) Megi enginn missa sjónar á þessu höfuðmarkmiði námskeiðsins.“ (Course in Theocratic Ministry, bls. 4) Þetta er enn aðaltilgangur guðveldisskólans. Hefur þú fylgt þeim góðu leiðbeiningum um kennslu, lestur, opinberan ræðuflutning og margt fleira sem er að finna í handbókum skólans?a Ert þú skráður nemandi í skólanum? Ert þú þakklátur þegar þú færð verkefni á dagskrá skólans? Þessi ráðstöfun Jehóva í gegnum skipulag sitt getur stuðlað að því að gera þig leikinn og kostgæfan þjón orðsins.
Þjálfun í kostgæfri kennslu
17. Hvaða ráðstafanir hefur Jehóva gert í þágu þeirra sem kenna öðrum heilög sannindi hans?
17 Jehóva sér ríkulega fyrir andlegum þörfum þeirra sem fá þau sérréttindi að kenna öðrum hin helgu sannindi hans. Meðal annars hefur hann séð fyrir biblíuritum, vikulegum samkomum og fjölmennum mótum. Allt þetta gerir vígðum vottum hans fært að vera leiknir og kostgæfir kennarar.
18. Hvað geta öldungar gert til að efla þjónustuna á akrinum, í samræmi við fordæmi Jesú og Páls?
18 En hvað nú ef þú ert útnefndur sem öldungur eða býrð yfir mikilli reynslu sem vottur Jehóva? Þá ætti kærleikur til annarra að koma þér til að hjálpa hinum nýrri og óreyndari kristnu mönnum til að auka hæfni sína og kostgæfni sem kennarar. Það er tvímælalaust viðeigandi því að Jesús sendi hina 70 lærisveina ekki út fyrr en hann hafði gefið þeim leiðbeiningar um þjónustuna. (Lúkas 10:1-24) Páll kenndi umsjónarmönnunum í Efesus „opinberlega og í heimahúsum“ og það hefur falið í sér að þjálfa þá til að bera vitni fyrir vantrúuðum með því að fara hús úr húsi í þjónustunni á akrinum. (Postulasagan 20:20, 21) Á svipaðan hátt geta öldungar, brautryðjendur og aðrir þjálfað trúbræður sína í þjónustunni núna. Sérð þú þörf fyrir slíka þjálfun? Hikaðu þá ekki við að leita hennar og þiggja hana. Ert þú öldungur? Gerðu þá ráðstafanir til að þjálfa aðra í þjónustunni og taka sjálfur kostgæfa forystu.
Haltu áfram að taka framförum
19. Hvers vegna ættum við að ræða um þjónustuna í bænum okkar?
19 Skurðlæknar og trésmiðir geta náð meiri leikni með því að halda áfram að nema og nota þekkingu sem þeir hafa aflað sér. Hið sama gildir um kristna þjóna orðsins. Það er því brýnt að sérhver vígður vottur Jehóva vinni kappsamlega að því að verða leiknari kennari fagnaðarerindisins! Og þar eð hér er um að ræða starf Jehóva ættum við aða gera það að umræðuefni í bænum okkar. Ef við leitum hjálpar Guðs og leiðsagnar megum við treysta að hann muni blessa kostgæfa þjónustu okkar. Eins og Jóhannes postuli sagði: „Hvað sem vér biðjum [Jehóva Guð] um fáum vér hjá honum, af því að vér höldum boðorð hans og gjörum það, sem honum er þóknanlegt.“ — 1. Jóhannesarbréf 3:22.
20. Hvað ættum við, vottar Jehóva, að vera ákveðnir í að gera núna er þessi heimsskipan nálgast endalok sín?
20 Hin núverandi illa heimsskipan nálgast endalok sín. Megum við því leggja okkur kappsamlega fram í þjónustunni. Megum við ‚hafa gát á sjálfum okkur og kennslunni‘ til hjálpræðis fyrir okkur sjálf og þá sem taka við boðskapnum um ríkið. Já, gerum allt sem við getum til að kenna af leikni og kostgæfni.
Hverju svarar þú?
◻ Hvað er fólgið, auk þess að prédika, í því að gera menn að lærisveinum?
◻ Hvers vegna er þýðingarmikið að ‚hafa gát á sjálfum okkur og kennslunni‘?
◻ Nefnið dæmi um hvernig unnt er að bæta kennsluhæfni sína.
◻ Hvernig geta kristnar samkomur hjálpað okkur að vera leiknir og kostgæfir kennarar orðs Guðs?
◻ Hvað geta öldungar og aðrir reyndir vottar gert í sambandi við þjónustuna á akrinum?
[Neðanmáls]
a Sjá til dæmis handbækurnar Theocratic Ministry School Guidebook og Qualified to Be Ministers, útgefnar af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Mynd á blaðsíðu 25]
Hægt er að verða betri kennari með því að reyna að sjá fyrir sér atburði Biblíunnar.
[Mynd á blaðsíðu 27]
Leiðbeinandi guðveldisskólans hjálpar nemendum að verða leiknir kennarar.