Hjálparstarf eftir náttúruhamfarir
VIÐLEITNI mannsins til að veita hjálp í kjölfar hörmunga og hamfara er vissulega hrósunarverð. Margar hjálparstofnanir hafa aðstoðað fólk við að endurbyggja hús sín, sameina fjölskyldur og síðast en ekki síst að bjarga mannslífum.
Þegar náttúruhamfarir eiga sér stað notfæra vottar Jehóva sér hjálpargögn og hjálparstarf opinberra aðila — og eru þakklátir fyrir. En jafnhliða því hvílir sú biblíulega skylda á þeim að ‚gera öllum gott og einkum trúbræðrum sínum.‘ (Galatabréfið 6:10) Já, vottarnir finna til náinna tengsla og þeir líta hver á annan sem „ættingja.“ Þess vegna kalla þeir hver annan „bræður“ og „systur.“ — Samanber Markús 3:31-35; Fílemonsbréfið 1, 2.
Þar af leiðandi leggja safnaðaröldungar meðal votta Jehóva sig í líma við að leita alla safnaðarmenn uppi, kanna þarfir þeirra og sjá til þess að þeir fái nauðsynlega aðstoð, þegar byggðarlag eða borgarhverfi verður illa úti af völdum náttúruhamfara. Lítum á hvernig sú var raunin í Akkra í Gana, í San Angelo í Bandaríkjunum og í Kobe í Japan.
Akkra — ‚dagar Nóa í smækkaðri mynd‘
Úrfellið byrjaði um klukkan ellefu að kvöldi og það rigndi linnulaust klukkustundum saman. „Rigningin var svo mikil að öll fjölskyldan var andvaka,“ segir John Twumasi, einn votta Jehóva í Akkra. Dagblaðið Daily Graphic kallaði úrfellið „daga Nóa í smækkaðri mynd.“ „Við reyndum að bjarga einhverjum verðmætum upp á aðra hæð,“ heldur John áfram, „en um leið og við opnuðum dyrnar að stigaganginum streymdi flóðvatnið inn.“
Yfirvöld hvöttu fólk til að forða sér frá heimilum sínum en margir hikuðu af ótta við að þjófar létu greipar sópa um yfirgefin hús — jafnvel þótt full væru af vatni. Sumir komust hvergi þótt þeir vildu. „Við mamma gátum ekki opnað dyrnar,“ segir Paulina. „Vatnsborðið hækkaði stöðugt þannig að við stóðum á tunnum og héldum okkur í þaksperru. Loksins, um klukkan fimm að morgni, komu nágrannarnir okkur til bjargar.“
Vottar Jehóva létu hendur standa fram úr ermum strax og hægt var. Beatrice, kristin systir, segir: „Öldungarnir í söfnuðinum voru að leita okkar, og þeir fundu okkur heima hjá öðrum votti þar sem við höfðum leitað skjóls. Aðeins þrem dögum eftir flóðið komu öldungarnir og ungir safnaðarmenn okkur til hjálpar og skófu leðjuna innan og utan af húsinu. Varðturnsfélagið sá okkur fyrir þvottaefnum, sótthreinsiefnum, málningu, dýnum, ábreiðum, fataefni og fötum á börnin. Bræðurnir sendu okkur mat til nokkurra daga. Ég var djúpt snortin!“
John Twumasi segir: „Ég sagði hinum leigjendunum að Félagið okkar hefði sent okkur þvotta- og sótthreinsiefni — nóg til að hreinsa allt húsið. Um 40 leigjendur hjálpuðu til við hreinsunarstarfið. Ég gaf nágrönnum mínum hreinsiefni, meðal annars manni sem er prestur í kirkjunni hér. Vinnufélagar mínir héldu ranglega að vottar Jehóva sýni bara trúbræðrum sínum kærleika.“
Kristnir bræður og systur mátu mikils hina kærleiksríku hjálp sem þeim var veitt. Bróðir Twumasi heldur áfram: „Enda þótt það sem ég missti í flóðinu hafi verið verðmætara en hjálpargögnin, sem ég fékk, erum við svo snortin yfir þessari hjálp Félagsins að okkur fjölskyldunni finnst við hafa fengið miklu meira en við misstum.“
San Angelo — „hávaðinn var eins og heimsendir“
Hvirfilbyljirnir, sem rústuðu San Angelo hinn 28. maí 1995, rifu tré upp með rótum, klipptu sundur háspennustaura og köstuðu raflínum, sem spenna var á, þvert yfir vegi. Vindhraðinn fór upp í 160 kílómetra miðað við klukkustund og olli tjóni á veitustofnunum. Rafmagnslaust varð á meira en 20.000 heimilum. Og svo kom haglið. Bandaríska veðurstofan greindi frá því að fyrst hefði fallið „hagl á stærð við golfkúlur,“ síðan „hagl á stærð við tennisbolta“ og að lokum „hagl á stærð við greipaldin.“ Hávaðinn var ærandi. „Hávaðinn var eins og heimsendir væri að koma,“ sagði íbúi nokkur.
Óhugnanleg þögn kom í kjölfar stormsins. Smám saman tíndist fólk út úr illa förnum húsunum til að kanna skemmdirnar. Laufið var horfið af þeim trjám sem enn stóðu. Uppistandandi hús litu út eins og þau hefðu verið flysjuð. Sums staðar lá haglið í metradjúpum sköflum. Óveðrið hafði brotið rúður í húsum og bílum í þúsundatali og það glampaði á glerbrotin innan um haglið sem þakti jörðina. „Ég sat bara í bílnum í heimkeyrslunni og grét,“ segir kona. „Skemmdirnar voru svo miklar að það hreinlega þyrmdi yfir mig.“
Hjálparstofnanir og spítalar veittu þegar í stað fjárhagsaðstoð og létu í té byggingarefni, læknishjálp og ráðgjöf. Margir eiga hrós skilið fyrir að gera það sem þeir gátu til að hjálpa öðrum þótt þeir hefðu sjálfir beðið mikið tjón í óveðrinu.
Söfnuðir votta Jehóva biðu ekki heldur boðanna. Aubrey Conner, öldungur í San Angelo, segir svo frá: „Jafnskjótt og storminn lægði vorum við komnir í símann til að kanna ástandið hver hjá öðrum. Við hjálpuðum okkar fólki og utansafnaðarmönnum í nágrenninu að negla fyrir glugga, leggja plast á þök og verja hús fyrir veðri svo sem frekast var unnt. Síðan tókum við saman skrá um alla í söfnuðinum sem höfðu orðið fyrir tjóni á húsum sínum. Um hundrað heimili þörfnuðust viðgerðar og efnið, sem hjálparstofnanir létu í té, nægði ekki. Við keyptum því viðbótarefni og skipulögðum vinnuna. Að öllu samanlögðu buðu um 1000 vottar fram aðstoð sína, um 250 hverja helgi. Þeir komu allt að 740 kílómetra vegalengd. Allir unnu sleitulaust, oft í næstum 40 stiga hita. Meira að segja vann sjötug systir með okkur allar helgar nema eina, og það var þegar viðgerð stóð yfir á hennar eigin heimili. Og þá helgi var hún uppi á þaki hjá sér að hjálpa til við viðgerðina!
Oft heyrðum við áhorfendur segja eitthvað í líkingu við þetta: ‚Væri það ekki munur ef önnur trúfélög gerðu svona lagað fyrir sitt fólk?‘ Nágrannar okkar voru dolfallnir er þeir sáu 10 til 12 sjálfboðaliða (þeirra á meðal systur) birtast snemma á föstudagsmorgni heima hjá einhverjum votti, og gera við eða jafnvel endurnýja allt þakið endurgjaldslaust. Í flestum tilvikum lauk verkinu á einni helgi. Stundum voru verktakar, sem voru utansafnaðarmenn, komnir í fullan gang að gera við þak þegar vinnusveitin okkar renndi í hlað við næsta hús. Við vorum búnir að rífa gamla þakið, smíða nýtt og hreinsa garðinn á undan þeim. Stundum hættu þeir að vinna og horfðu bara á okkur!“
Bróðir Conner heldur áfram: „Við eigum öll eftir að sakna þeirra stunda sem við áttum saman. Við höfum kynnst nýrri hlið hvert á öðru með því að sýna og njóta bróðurástar sem aldrei fyrr. Okkur finnst þetta vera forsmekkur að því hvernig verði í nýjum heimi Guðs þar sem bræður og systur hjálpast að af því að þau langar virkilega til þess.“ — 2. Pétursbréf 3:13.
Kobe — ‚hrúga af timbri, múrhúð og mannslíkum‘
Kobebúar áttu að vera undirbúnir því að 1. september ár hvert er haldinn þar slysavarnadagur. Skólabörn æfa viðbrögð við jarðskjálfta, herinn æfir björgunarstörf með þyrlum, og slökkviliðin draga fram jarðskjálftaherma þar sem sjálfboðaliðar æfa viðbrögð sín í herbergisstórum kössum sem nötra og hristast eins og í alvöruskjálfta. En þegar alvöruskjálftinn reið yfir 17. janúar 1995 virtist allur undirbúningurinn unninn fyrir gýg. Þök hrundu í tugþúsundatali — sem hafði aldrei gerst í skjálftahermunum. Járnbrautarlestir köstuðust á hliðina, heilu þjóðvegakaflarnir eyðilögðust, gas- og aðalvatnsæðar rofnuðu og hús hrundu eins og væru þau úr pappa. Tímaritið Time lýsti hamfarasvæðinu sem „hrúgu af timbri, múrhúð og mannslíkum.“
Svo kom eldurinn. Hús fuðruðu upp meðan slökkviliðsmenn sátu fastir í kílómetralöngum bílalestum. Þeir sem komust á vettvang uppgötvuðu oft að ekkert vatn var fáanlegt sökum skemmda á vatnsveitu borgarinnar. „Alger ringulreið ríkti fyrsta daginn,“ sagði opinber starfsmaður. „Mér hefur aldrei á ævinni fundist ég jafn-vanmáttugur, vitandi að það lágu svo margir grafnir lifandi í þessum brennandi húsum og að ég gæti ekkert gert þeim til bjargar.“
Alls fórust um 5000 manns og hér um bil 50.000 byggingar gereyðilögðust. Aðeins þriðjungur nauðsynlegra matvæla var til í Kobe. Til að ná í vatn gripu sumir til þess ráðs að safna óhreinu vatni undir brostnum vatnsleiðslum. Margt heimilislaust fólk fann afdrep í neyðarskýlum þar sem sums staðar var skammtaður matur, oft ekki nema ein lítil hrísgrjónaskál á mann á dag. Óánægja magnaðist fljótt. „Yfirvöld hafa ekki gert nokkurn skapaðan hlut,“ kvartaði maður einn. „Við sveltum í hel ef við höldum áfram að treysta á þau.“
Söfnuðir votta Jehóva í Kobe og á nærliggjandi svæðum skipulögðu hjálparstarf í skyndi. Þyrluflugmaður sá þá að störfum og sagði: „Ég fór til hamfarasvæðisins sama dag og skjálftinn reið yfir og var þar í viku. Í einu neyðarskýlinu, sem ég kom í, var allt í óreiðu. Alls ekkert hjálparstarf var í gangi. Vottar Jehóva voru þeir einu sem flýttu sér á staðinn og gerðu skipulega það sem gera þurfti.“
Og það var margt að gera. Tíu ríkissalir voru ónothæfir og meira en 430 vottar heimilislausir. Að auki þörfnuðust 1206 heimili viðgerðar. Þar við bættist að fjölskyldur 15 votta, sem fórust í jarðskjálftanum, voru sárlega huggunarþurfi.
Um 1000 vottar hvaðanæva af landinu buðu sig fram til viðgerðastarfa. „Þegar við unnum við hús óskírðra biblíunemenda vorum við alltaf spurðir: ‚Hvað eigum við að borga fyrir allt þetta?‘“ sagði bróðir nokkur. „Við sögðum þeim að söfnuðirnir kostuðu verkið og þá þökkuðu þeir fyrir og sögðu: ‚Það sem við höfum verið að læra er orðið að veruleika!‘“
Margir voru hrifnir af skjótum og góðum viðbrögðum vottanna við náttúruhamförunum. „Ég var mjög hrifinn,“ segir flugmaðurinn sem áður er getið. „Þið kallið hvert annað ‚bróður‘ og ‚systur.‘ Ég hef séð hvernig þið hjálpið hvert öðru. Þið eruð virkilega fjölskylda.“
Vottarnir lærðu líka margt af skjálftanum. Systir nokkur viðurkennir: „Ég hef alltaf haft á tilfinningunni að það yrði erfiðara að sýna persónulega umhyggju þegar skipulagið stækkaði.“ En umhyggjan, sem henni var sýnd, fékk hana til að skipta um skoðun. „Nú veit ég að Jehóva ber umhyggju fyrir okkur, ekki aðeins sem samtökum heldur líka sem einstaklingum.“ En bráðlega verða hörmungar og hamfarir liðin tíð.
Varanleg lausn í sjónmáli!
Vottar Jehóva hlakka til þess tíma þegar náttúruhamfarir ógna ekki lengur lífi og lífsviðurværi manna. Í nýjum heimi Guðs verður mönnum kennt að lifa í sátt við umhverfi sitt. Um leið og menn leggja af eigingjarnt hátterni verða þeir ekki eins berskjaldaðir fyrir hættum af völdum náttúrunnar.
Jehóva Guð — skapari náttúruaflanna — býr auk þess svo um hnútana að manninum og öðrum jarðneskum sköpunarverum stafi aldrei framar ógn af náttúruöflunum. Þá verður jörðin í alvöru paradís. (Jesaja 65:17, 21, 23; Lúkas 23:43, NW) Og spádómurinn í Opinberunarbókinni 21:4 rætist á dásamlegan hátt: „Hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“
[Mynd á blaðsíðu 5]
Beatrice Jones (til vinstri) sýnir hvernig hún og aðrir óðu í halarófu á leið sinni um flóðasvæðið.
[Mynd á blaðsíðu 6]
Hjálparstarf eftir hvirfilbyl.