Tengdu smáritin við önnur rit
1 Af öllum þeim tímaritum, sem núna eru gefin út, geta aðeins Varðturninn og Vaknið! hjálpað einlægum lesendum að finna stíginn sem liggur til eilífs lífs. Er þú ræðir við fólk í apríl og maí munu sumir sýna ótvíræðan áhuga á boðskapnum um Guðsríki og þú getur beint athygli þeirra umbúðalaust að nýjustu blöðunum eða einum af litríku bæklingunum frá Félaginu. Aðrir sýna ef til vill lítinn áhuga í upphafi. Í slíkum tilvikum gætir þú rætt um eitt eða tvö atriði í smáriti; sýni húsráðandinn þá meiri áhuga getur þú tengt smáritið við blöðin eða bæklinginn sem þú ert einkum að bjóða.
2 Þú gætir sagt:
◼ „Flestir fallast á það að í heiminum nú á dögum séu vandamálin fleiri en lausnirnar. Vissir þú að mörg okkar alvarlegustu vandamála voru sögð fyrir í Biblíunni?“ Síðan gætir þú flett upp á blaðsíðu 4 og 5 í smáritinu Mun þessi heimur bjargast? og rætt um nokkur vandamálanna.
3 Ef þú ert sérstaklega að bjóða apríltölublað Varðturnsins og húsráðandinn sýnir áhuga því sem þú hefur lesið frá smáritinu gætir þú bent á greinina „Þarfnast mannkynið í raun og veru messíasar?“ Þú getur bent á að í tímans rás hafi margir komið fram og sagst vera messías en það reynst blekking ein. Öðru máli gegni um Jesú Krist. Hann uppfyllir allar þær kröfur sem Biblían og spádómar hennar gera til Messíasar. Að lokum skalt þú bjóðast til að koma aftur þegar vel stendur á til að ræða þetta mál frekar.
4 Ef þú ert að leggja áherslu á apríl-júní tölublaðið af „Vaknið!“ gætir þú notað inngangsorðin í tölugrein 2 hér að framan og bætt síðan við:
◼ „Mörgum finnst heimurinn sannarlega óstöðugur og ný vandamál sífellt að koma upp. Þessi forsíðumynd vekur athygli á nokkrum þeirra. En hvert stefnum við?“ Þú gætir því næst notað kynningartextann á blaðsíðu 2 og að síðustu nokkur valin atriði á blaðsíðu 11. Líklegt er að þessi grein muni höfða til margra, ekki síst ungmenna.
5 Þegar þú notar „Sjá“–bæklinginn gætir þú farið aðeins öðruvísi að:
◼ „Margir eru orðnir langþreyttir eftir stjórn sem getur tekist á við vandamálin í heiminum með góðum árangri. Þótt þjóðirnar myndi bandalög virðast þau oft ófær um að stöðva ofbeldisverk, mengun eða efnahagshrun. Það er því engin furða þótt margir velti fyrir sér hvort þessum heimi sé við bjargandi.“ Eftir að hafa heyrt álit húsráðandans getur þú rétt honum smáritið Mun þessi heimur bjargast? og rætt um fáein atriði sem þar koma fram.
6 Séu viðbrögð húsráðandans jákvæð getur þú sýnt honum „Sjá“–bæklinginn. Nota mætti eina eða tvær tölugreinar á blaðsíðu 22-5 til að undirstrika hverju friðarstjórn Krists muni koma til leiðar. Gættu þess að vera ekki lengi; farðu frekar fljótlega aftur í heimsókn.
7 Sért þú nýr boðberi kannt þú vafalaust að meta einföld kynningarorð. Væri ekki ráð að birgja sig upp af smáritinu Mun þessi heimur bjargast? og nota tillöguna í grein 2 hér að framan?
8 Við höfum þann heiður að bera hjálpræðisboðskapinn heim til manna. Þegar við leitum að ‚hinum verðugu‘ skulum við alltaf nýta okkur vel smáritin og tengja þau öðrum ritum þegar við finnum áhuga hjá viðmælendum okkar. — Matt. 10:13.