Hjálpum biblíunemendum að búa sig undir biblíunámið sitt
1 Biblíunemendur, sem búa sig undir námið sitt í hverri viku, sýna ósvikinn áhuga á náminu og taka yfirleitt hraðari andlegum framförum en þeir sem undirbúa sig ekki. Komið getur fyrir að nemandi undirbúi sig ekki af því að hann kann það ekki. Nauðsynlegt getur reynst að kenna honum hvernig hann á að undirbúa sig. Hvernig er hægt að gera það?
2 Allt frá byrjun skaltu taka svolítinn tíma til að ganga úr skugga um að nemandinn skilji að í undirbúningi felst persónulegt nám. Mörgum hefur ekki verið kennt að nema þótt þeir kunni að lesa. Á blaðsíðu 33-43 í Handbók Guðveldisskólans er að finna margar gagnlegar tillögur sem þú gætir ef til vill komið á framfæri eftir þörfum við nemandann.
3 Sýndu nemandanum gildi námsins: Þú gætir sýnt nemandanum námsbókina þína þar sem þú hefur merkt við eða undirstrikað lykilorð og -setningar. Sýndu honum hvernig hægt er að renna augunum yfir þessa merktu staði til að rifja upp hugmyndir sem síðan má tjá með eigin orðum. Hann mun þá ekki freistast til að lesa heilu setningarnar frá bókinni þegar hann svarar spurningum. Rétt þjálfun á þessu stigi mun hjálpa honum að gefa markverðar athugasemdir síðar á safnaðarsamkomum. Athugasemdir hans munu endurspegla að hann meti efnið sem um er fjallað og sýna hversu djúpt skilningur hans ristir.
4 Kenndu honum að nota Biblíuna: Nemandinn þarf að læra hvernig finna á ritningarstaðina sem vísað er til í námsefninu. Þegar hann er orðinn fær í því mun hann gera sér enn betur ljóst að hann sé í raun biblíunemandi. Þó að nemandinn þurfi ef til vill í fyrstu að nota skrána yfir biblíubækurnar fremst í biblíunni ætti að hvetja hann til að læra rétta röð biblíubókanna 66. Þegar hann flettir upp og les ritningarstað skaltu hjálpa honum að koma auga á þann hluta hans sem styður það sem viðkomandi tölugrein leggur áherslu á en láta ekki hluta, sem tengjast ekki beint því sem verið er að nema, draga sig út á hliðarspor.
5 Þegar nemandinn tekur framförum skaltu hvetja hann til að lesa Biblíuna frá upphafi til enda. Leggðu áherslu á að gervöll Biblían sé innblásið orð Guðs og að sannkristnir menn verði að láta hana næra sig andlega. — Matt. 4:4; 2. Tím. 3:16, 17.
6 Kynntu önnur guðveldisleg uppsláttarrit: Þegar nemandinn hefur tekið nægilegum framförum getur hann byrjað að nota önnur guðveldisleg uppsláttarrit. Með nærfærni skaltu hvetja hann til að fletta upp viðbótarupplýsingum í ritum Félagsins sem hann mun kynnast þegar hann sækir samkomur. Kenndu honum hvernig nota má sérstaka uppsláttardálka og orðaskrár í Nýheimsþýðingunni, eins og „Biblíuorðaskrána.“ Þegar hann fer að koma sér upp sínu eigin guðveldislega bókasafni skaltu sýna honum hvernig nota megi Orðstöðulykilinn (Comprehensive Concordance), Rökrætt út af Ritningunni, Efnisskrána og Innsýn í Ritningarnar.
7 Ef við kennum biblíunemum að búa sig undir biblíunámið sitt munum við gera þeim kleift að halda áfram að taka framförum í sannleikanum sem hæfir biblíunemendur, jafnvel eftir að persónulegu heimabiblíunámi þeirra er lokið.