Það er gagnlegt að segja frá því sem Jehóva hefur gert!
1 Hinn innblásni ritari Sálms 48 hvatti þá sem voru í Ísrael til að ‚ganga umhverfis Síon, telja turna hennar og skoða hallir hennar, til þess að þeir gætu sagt komandi kynslóð frá því.‘ Vegna kærleika síns til Jehóva myndu þeir hafa brennandi áhuga á hverju smáatriði þessarar miðstöðvar guðræðisstjórnar á jörðu. Hvert einasta þessara minnstu atriða var verðmætt vegna þess að þetta var borgin sem Jehóva hafði lagt sjálft nafn sitt á. Þeir myndu tala um hana og sér í lagi skyldu þeir gæta þess að afkomendur þeirra heyrðu um allt það sem þeir hefðu varðveitt í hjörtum sínum. — Sálm. 48:13, 14.
2 Við lifum nú þá tíma þegar guðræðisstjórn Messíasar Jehóva hefur ekki lengur miðstöð sína á Síonfjalli á jörðu heldur í himneskri Jerúsalem. (Hebr. 12:22) Ríki Jehóva í höndum Jesú Krists hefur verið við stjórn síðan 1914. (Opinb. 12:10) Starfsemi þess vekur mikinn áhuga hjá okkur. Við höfum einnig brennandi áhuga á því hvernig Jehóva hefur leitt þjóna sína á jörðinni til þess að þeir mættu framkvæma vilja hans sem sýnilegir fulltrúar þessa ríkis. Í nýju bókinni okkar, Jehovah’s Witnesses — Proclaimers of God’s Kingdom (Vottar Jehóva — boðendur ríkis Guðs), er greint frá hrífandi atriðum varðandi þetta. Við vorum svo sannarlega glöð að fá þessa bók á landsmótinu okkar, „Kennsla Guðs.“
3 Hinn 1. september síðastliðinn var bókin þegar komin út á 20 tungumálum og unnið var að þýðingu og útgáfu hennar til að mæta þörfum þeirra sem tala 13 önnur tungumál, þó ekki á íslensku. Er þessi bók komin inn á heimili þitt? Ertu að lesa hana ef tungumálakunnátta þín gerir þér það kleift? Talar þú um það sem þú lærir frá henni?
4 Eftir að hafa skoðað myndirnar og lesið myndatextana, eins og lagt var til á mótinu, dembdu margir bræður og systur sér fljótt í lestur meginmálsins. Hvað hafa þau sagt um bókina? Hér eru aðeins fáeinar athugasemdir.
5 Systir skrifaði: „Ég hef aldrei áður fengið bók sem ég get varla beðið eftir að ljúka við að lesa til þess að geta lesið hana aftur. Ég er í 25. kafla núna. Því meira sem ég les, þeim mun meir vöknar mér um augun og hjarta mitt fyllist kærleika til Jehóva. Bókin er svo uppörvandi og trústyrkjandi.“
6 Bróðir, sem hefur þjónað Jehóva í meira en 40 ár, sagði: „Ekki datt mér í hug að ég myndi sökkva mér svona niður í þessa bók. Ég fór seint í rúmið og snemma á fætur og lauk lestrinum á tveimur vikum. Þetta er svo sannarlega einhver sú áhrifaríkasta bók sem ég hef á ævinni lesið. Rannsóknarstarfið að baki henni er meistaraverk en sjálf er hún einnig meistari í að veita uppörvun.“
7 Regluleg lestraráætlun: Sumir þeirra sem lásu alla bókina snarlega hafa ákveðið að lesa hana aftur en ekki eins hratt.
8 Ef það eru fleiri en einn á heimili þínu í sannleikanum viljið þið kannski lesa kafla úr bókinni í fjölskyldunáminu ykkar. Sumar fjölskyldur fóru að gera það nokkrum dögum eftir að þær fengu eintak á mótinu. Það þýðir ekki að leggja ætti önnur verkefni til hliðar, eins og undirbúning fyrir Varðturnsnámið. En það kann að reynast ykkur mjög gagnlegt að nota aukalega 15 eða 20 mínútur til að lesa og ræða um efni í Boðendabókinni.
9 Sumar fjölskyldur lesa tvær eða þrjár blaðsíður — ef til vill efnið undir einni eða tveimur millifyrirsögnum — á hverju kvöldi áður en staðið er upp frá kvöldmatnum. Sem einstaklingar hafa fjölskyldumeðlimirnir hugsanlega lesið mestalla bókina, en þeir hafa gagn af hægari yfirferð, svo og tækifærinu til að ræða saman um efnið. Sumir sem gera þetta hafa þjónað Jehóva í mörg ár. Við lesturinn koma margar hjartfólgnar minningar fram í hugann. Þeim hlýnar um hjartarætur þegar þeir ræða saman um sína eigin hlutdeild í atburðunum sem þeir eru að lesa um.
10 Á heimili, þar sem sumir skilja ekkert þeirra tungumála sem bókin er komin út á, gæti endursögn hinna á efninu ef til vill komið að einhverju leyti í stað sameiginlegs lestrar. Sumir lesa líka bókina út af fyrir sig vegna þess að enginn annar í fjölskyldunni er í sannleikanum. Systir, sem skrifaði Félaginu, sagði: „Ég hef verið að lesa svolítið í þessari bók á hverju kvöldi áður en ég fer í rúmið. Það lætur mig meta og elska sannleikann æ meira, og mér finnst ég vera nær Jehóva og ég er afskaplega þakklát fyrir að vera hluti af skipulagi hans. Ég nýt svo sannarlega hverrar blaðsíðu sem ég les.“
11 Þó að bókin sé stór eru einstakir hlutar hennar það ekki. Í fyrsta hlutanum er farið hratt en á hrífandi hátt yfir atburðarásina frá dögum Abels til loka ársins 1992 — á aðeins 108 blaðsíðum. Aðrir hlutar ná yfir 13 til 150 blaðsíður. Þessir hlutar skiptast hver og einn niður í kafla. Í stað þess að flýta þér í gegnum þá skaltu taka einn hluta, einn kafla eða efni undir einni millifyrirsögn í einu. Njóttu þess og hafðu gagn af því.
12 Taktu þér tíma til að hugsa um það sem þú lest: Hvað ætlar þú að reyna að hafa út úr lestri þínum? Takmark þitt ætti ekki aðeins að vera það að komast yfir sem flestar blaðsíður, ljúka lestri bókarinnar. Í Boðendabókinni er andleg arfleifð þín skrásett. Þér ber að þekkja hana vel. Taktu þér tíma til að hugsa um merkinguna að baki þess sem þú ert að lesa. Þegar þú lest um starfsemi votta Jehóva til forna skaltu íhuga hvernig þú getir líkt eftir trú þeirra. (Hebr. 12:1, 2) Þegar þú lest um hvernig fráhvarfið mikla þróaðist skaltu taka sérstaklega eftir í hvaða gryfjur þeir féllu sem yfirgáfu trúna, með það í huga að standa vörð um þinn andlega mann. Þegar þú skoðar nútímasögu okkar skaltu taka eftir hvaða andlegum eiginleikum þeir sem Guð notaði bjuggu yfir, hvernig þeir sýndu að það mikilvægasta í lífi þeirra var að gera vilja Guðs og hvernig þeir brugðust við aðstæðum — sumum hverjum mjög erfiðum — sem Guð leyfði. — Hebr. 13:7.
13 Þú munt komast að raun um að það er trústyrkjandi að rannsaka í smáatriðum hvernig Jehóva hefur leitt fólk sitt til þess glögga skilnings á sannindum Biblíunnar sem við njótum núna. Þegar þú kynnist betur hvernig skipulagið hefur þroskast og þróast munt þú meta enn meir það sýnilega fyrirkomulag sem Jehóva notar. Þér mun vissulega finnast hrífandi að lesa hvernig fagnaðarboðskapurinn hefur náð út til ystu endimarka jarðarinnar eins og spáð hafði verið. Þér mun hlýna um hjartaræturnar við að lesa um reynslu hins trúfasta fólks í öllum heimshlutum sem hefur unnið kappsamlega við boðun Guðsríkis. Þegar þú lest um það sem trúfastir bræður og systur hafa þegar mátt þola vegna kærleika síns til Jehóva mun það veita þér aukinn styrk til að takast á við persónulegar prófraunir.
14 Þegar þið hafið lesið hluta af efninu skuluð þið taka ykkur tíma til að ræða saman um gildi þess og rifja upp smáatriðin. Ef þið eigið ung börn skuluð þið fá þau til að útskýra myndirnar og segja ykkur hvað þau vita um fólkið á þeim. Jafnvel þótt þú sért einn við lesturinn skaltu leitast við að deila með öðrum því sem þú ert að læra. Þegar svo á við skaltu nota efnið í endurheimsóknum og þegar þú stýrir biblíunámum. Með því að endurtaka það mun það grópast í huga þér og hjarta og einnig verða öðrum að gagni.
15 Skoðaðu hvert atriði vandlega: Þær stundir, sem þú verð til lesturs Boðendabókarinnar, ættu að vera í senn ánægjulegar og gagnlegar.
16 Hefðir þú áhuga á að fjölskyldan þín heimsækti aðalstöðvar votta Jehóva? Á blaðsíðu 208-9 er sýnt það húsnæði sem Félagið notaði fyrir einni öld í Pittsburgh. Á blaðsíðu 216-17 kynnist þú byggingunum sem seinna voru notaðar í Brooklyn. Myndirnar á blaðsíðu 352-6 geta hjálpað þér að gera þér í hugarlund hvernig aðalstöðvarnar líta út núna. Í 26. og 27. kafla er greint nánar frá því starfi sem unnið er á Betel og á blaðsíðu 295-8 eru gefnar frekari upplýsingar um lífið á Betel.
17 Fæst okkar geta heimsótt mörg af útibúum Félagsins. Á blaðsíðu 357-401 er farið með þig í heimsreisu. Það er engin þörf á að flýta sér að ljúka henni. Notaðu svolítinn tíma í hverju landi og njóttu þess. Notaðu heimskortið á blaðsíðu 415-17 til að finna hvern stað. Lestu athugasemdirnar sem fylgja myndunum af deildarskrifstofunum. Með hjálp efnisskrárinnar aftast í bókinni getur þú líka fundið fleiri hrífandi upplýsingar um hvert land. Notaðu þetta tækifæri til að kynnast meðlimum andlegrar fjölskyldu þinnar í öðrum löndum.
18 Í boðum fer fólk stundum í leiki þar sem reynir á þekkingu þess á veraldlegum staðreyndum. Væri ekki miklu gagnlegra að læra eftirtektarverð ártöl og viðburði í nútímasögu votta Jehóva? Þið finnið margar slíkar staðreyndir taldar upp á blaðsíðu 718-23 í Boðendabókinni. Sá listi telur upp aðalatriðin; bæta má inn í hann atriðum frá öðrum hlutum bókarinnar. Notið þessi atriði til að rifja upp efnið. Börnin í fjölskyldunni munu líklega vera fljót að læra þau utan að. Hjá sumum okkar hinna eldri mun það ganga aðeins hægar. En þetta eru þættir í guðveldissögunni sem við getum öll haft gagn af að þekkja. Þegar þið hafið lært ártölin og grundvallarstaðreyndirnar ættuð þið að byggja ofan á þann grundvöll. Gáið að hversu mörgum smáatriðum þið munið eftir varðandi hvern atburð. Talið síðan um þann þátt sem hver atburður átti í að koma vilja Guðs til leiðar. Því næst skuluð þið ræða um hvernig hann hefur haft áhrif á líf ykkar og hvernig þið fallið inn í það sem Jehóva er að gera.
19 Komdu auga á tækifærin sem standa þér opin: Þegar þið lesið og ræðið um bókina Vottar Jehóva — boðendur ríkis Guðs sjáið þið opnast fyrir augum ykkar hvernig Jesaja 60:22 hefur uppfyllst á stórfenglegan hátt. Bókin segir á blaðsíðu 519: „Sá spádómur að ‚hinn minnsti skuli verða að þúsund‘ hefur vissulega uppfyllst, og það ríkulega! Í hverju og einu af rúmlega 50 löndum þar sem ekki var einu sinni ‚hinn minnsti‘ — þar sem var enginn vottur Jehóva árið 1919 og þar sem þeir höfðu alls ekkert prédikað — eru núna meira en þúsund manns sem lofa Jehóva. Í sumum þessara landa eru núna tugþúsundir, já, jafnvel meira en hundrað þúsund vottar Jehóva sem eru kostgæfir boðendur ríkis Guðs. Á heimsmælikvarða eru vottar Jehóva orðnir að ‚voldugri þjóð‘ — fjölmennari sem sameinaður söfnuður um allan hnöttinn en að minnsta kosti 80 sjálfstæðar þjóðir.“
20 Þessu starfi við að efla vöxtinn undir Guðsríki er engan veginn lokið. Jehóva hefur þvert á móti hraðað því meira en nokkru sinni fyrr. Í hvaða mæli munt þú taka þátt í því? Gerið þú þér í rauninni grein fyrir öllum þeim tækifærum sem standa þér opin? Þegar þú kynnist því sem aðrir eru að gera, megi þá hjarta þitt knýja þig til að bjóða þig fram til fullrar þátttöku í hinu mikla starfi sem ástríkur Guð okkar stjórnar fyrir milligöngu Jesú Krists á okkar dögum.