„Allar þjóðir munu hata yður“
1 Á síðustu árum höfum við öll glaðst mjög við að heyra hrífandi fregnir af stórkostlegum blessunum sem fólk Jehóva hefur orðið aðnjótandi um víða veröld. Það komu gleðitár í augu okkar þegar við fréttum af því að starfið hefði verið lögheimilað í Malaví eftir grimmilega andstöðu í 26 ár. Við vörpuðum öndinni léttar þegar við urðum vitni að falli hins guðlausa kommúnisma í Austur-Evrópu sem leiddi til þess að bókstaflega þúsundir bræðra okkar losnuðu undan ánauðaroki hans. Við fylgdumst áhyggjufull með því þegar menn véfengdu lagalegan rétt okkar til trúfrelsis í Grikklandi; við vorum í sjöunda himni þegar við unnum ótvíræðan sigur fyrir æðsta dómstóli Evrópu. Við höfum haft yndi af því að fá fréttir af hinni umfangsmiklu stækkun við útibú Félagsins sem hefur gert það kleift að framleiða ógrynni rita fyrir þá sem leita sannleikans. Við gátum ekki annað en undrast þegar okkur barst til eyrna að meira en 7400 hefðu látið skírast á mótinu í Kíev í Úkraínu. Já, hversu starf Guðsríkis hefur sótt fram á stórbrotinn hátt hefur lyft anda okkar upp í nýjar hæðir.
2 Þó að við höfum mikla ástæðu til að fagna þurfum við að varast að ráða okkur ekki fyrir kæti. Nokkrar hagstæðar fréttir hver á fætur annarri gætu fengið okkur til að álykta að andstaðan við fagnaðarerindið sé að koðna niður og að fólk Jehóva sé að öðlast viðurkenningu um heim allan. Slíkur hugsunarháttur getur reynst blekkjandi. Þó að við höfum unnið nokkra ánægjulegra sigra og náð vissum árangri í að lækka hindranir á vegi boðunar fagnaðarerindisins í sumum löndum megum við ekki gleyma því að samband okkar við heiminn hefur í grundvallaratriðum ekkert breyst. Sem fylgjendur Jesú erum við „ekki af heiminum“ og þá fer ekki hjá því að ‚allar þjóðir muni hata okkur.‘ (Jóh. 15:19; Matt. 24:9) Svo lengi sem þetta heimskerfi stendur breytir ekkert þeirri grundvallarreglu að „allir, sem lifa vilja guðrækilega í samfélagi við Krist Jesú, munu ofsóttir verða.“ — 2. Tím. 3:12.
3 Mannkynssagan ber vitni um sannleiksgildi þessarar viðvörunar. Þó að Jesús, stofnandi kristninnar, gæfi stórkostlegan vitnisburð frammi fyrir voldugum stjórnendum og þegnum þeirra mátti hann daglega þola illmælgi og átti sífellt á hætti að vera tekinn af lífi. Jafnvel þó að postular hans hjálpuðu mörgum að verða lærisveinar, tækju þátt í að rita kristnu Grísku ritningarnar og sýndu að þeir hefðu þá náðargáfu að geta framkvæmt kraftaverk, urðu þeir á sama hátt fyrir hatri og misþyrmingum. Þrátt fyrir góða hegðun kristinna manna og náungakærleika þeirra leit meirihluti manna á þá alla sem fyrirlitlegan ‚sértrúarflokk‘ sem var „alls staðar mótmælt.“ (Post. 28:22) Jehóva hefur notað hinn kristna söfnuð um heim allan nú á tímum á stórfenglegan hátt til að framkvæma vilja sinn, en á sama tíma hefur sérhver angi þessa illa heimskerfis án afláts staðið gegn söfnuðinum og rægt hann. Það er engin ástæða til að ætla að þeirri andstöðu linni.
4 Á fyrstu öldinni ofsótti Satan lærisveina Jesú á margvíslegan hátt. Hatursfullir andstæðingar báru út hreinar lygar sem gáfu villandi mynd af þeim. (Post. 14:2) Þeim var hótað grimmilega til að reyna að gera þá huglausa. (Post. 4:17, 18) Reiður múgur reyndi að þagga niður í þeim. (Post. 19:29-34) Þeim var varpað í fangelsi án réttmætrar ástæðu. (Post. 12:4, 5) Ofsækjendurnir gripu oft til líkamlegs ofbeldis. (Post. 14:19) Í sumum tilvikum var saklaust fólk myrt af ráðnum hug. (Post. 7:54-60) Páll postuli þurfti persónulega að þola svo til allar þessar misþyrmingar. (2. Kor. 11:23-27) Andstæðingarnir voru fljótir að nýta sér hvert tækifæri til að hindra prédikunarstarfið og valda hinum trúföstu verkamönnum þjáningum.
5 Nú á dögum beitir Satan sams konar brögðum. Bornar eru út hreinar lygar er uppmála okkur ranglega sem afvegaleiddan sértrúarflokk eða trúarreglu. Í sumum löndum hafa yfirvöld bannað rit okkar á þeirri forsendu að þau væru niðurrifsrit. Virðing okkar fyrir heilagleika blóðsins hefur mætt háði og spotti opinberlega og réttmæti hennar verið véfengd. Á fimmta áratugnum réðst reiður múgur, sem ágreiningurinn um fánahyllinguna hafði æst upp, oftar en einu sinni á bræður okkar, olli þeim líkamsmeiðingum og eyðilagði eigur þeirra. Þúsundir hafa verið sendar í fangelsi vegna hlutleysisafstöðu sinnar. Í einræðislöndum hafa bræður okkar verið ranglega sakaðir um niðurrifsstarfsemi með þeim afleiðingum að þeir hafa svo hundruðum skiptir verið pyndaðir grimmilega og drepnir í fangelsum og fangabúðum. Álagið hefur verið vægðarlaust sem sýnir greinilega að allar þjóðir hata okkur án réttmætrar ástæðu. — Sjá Boðendur (Proclaimers), 29. kafla.
6 Hvað ber framtíðin í skauti sér? Þó að fólk Jehóva kunni af og til að ná tímamótaárangri í því að létta á álaginu í ýmsum heimshlutum eru kringumstæðurnar óbreyttar þegar á heildina er litið. Djöfullinn heldur áfram að vera reiður vegna niðurlægingar sinnar árið 1914. Hann veit að hann hefur nauman tíma. Víst er að bræði hans á eftir að aukast eftir því sem þrengingin mikla færist nær. Hann er alveg á kafi í því að berjast gegn hinum krýnda konungi, Jesú Kristi, og er staðráðinn í að berjast þangað til yfir lýkur. Hann og árar hans geta aðeins fengið útrás fyrir reiði sína á þjónum Jehóva hér á jörðu sem trúfastlega „varðveita boð Guðs og hafa vitnisburð Jesú.“ — Opinb. 12:12, 17.
7 Þegar við lítum til framtíðarinnar þurfum við þess vegna að vera raunsæ varðandi það við hverju má búast. Það er engin ástæða til að halda að djöfullinn muni draga í land eða gefast upp. Það hatur á okkur, sem hann hefur innrætt þessum heimi, getur blossað upp hvenær sem er og hvar sem er. Í mörgum löndum hefur það kostað okkur langa baráttu að öðlast frelsi til að prédika. Það frelsi kann að vera brothætt. Það er kannski aðeins einhver hliðhollur stjórnandi eða óvinsæl lög sem viðhalda því. Veruleg umbrot geta átt sér stað á skömmum tíma sem leiða til ringulreiðar og valda því að mannréttindi verði stórlega fótum troðin.
8 Fyrirvaralaust getur verið bundinn endi á þá velsæld og frelsi sem við njótum núna í sumum löndum og bræður okkar orðið fyrir sömu misþyrmingunum og þeir þoldu áður fyrr. Við þorum ekki að leyfa okkur að láta sefa okkur til að sýna sinnuleysi eða tómlæti og halda að óvinir okkar hafi verið brotnir á bak aftur. Hatur þessa heims sést ef til vill ekki alltaf til fulls en það er eftir sem áður ákaft. Allt í orði Guðs sýnir að andstaða heimsins mun vaxa frekar en hjaðna er endirinn nálgast. Við verðum því að vera á varðbergi, reynast „kænir sem höggormar og falslausir sem dúfur.“ (Matt. 10:16) Við ættum að gera okkur ljóst að við munum þurfa að „berjast“ allt til enda og að við þurfum að vera staðföst til að lifa af. — Júd. 3; Matt. 24:13.
9 Í þeim heimshluta þar sem við búum má vera að starfið dafni án þess að vart verði við nokkrar hindranir frá andstæðingum. Það gæti gert okkur efins um að ástæða sé til að hafa nokkrar alvarlegar áhyggjur. Engu að síður þarf að sýna árvekni. Á skammri stund geta aðstæður breyst. Andstæðingar geta fyrirvaralaust fært sér í nyt eitthvert ágreiningsefni og notað það gegn okkur. Fráhvarfsmenn eru sífellt að leita að einhverju umkvörtunarefni. Æfir klerkar, sem finnst starf okkar ógna sér, kunna að fordæma okkur opinberlega. Áætlanir okkar um að byggja ríkissal í bæjarfélagi okkar gætu kveikt upp deilur sem koma öllu byggðarlaginu í uppnám. Fullyrðingar, til þess fallnar að vekja upp æsing, kunna að birtast á prenti og spilla fyrir okkur. Frammámenn í samfélaginu gætu af ásettu ráði gefið villandi hugmyndir um okkur með þeim afleiðingum að samborgarar okkar eru óvinveittir þegar við heimsækjum þá með fagnaðarboðskapinn. Jafnvel ástvinir á okkar eigin heimili kynnu að verða okkur verulega gramir og ofsækja okkur. Við þurfum þess vegna að vera á verði og gera okkur ljóst að óvinátta heimsins er langt frá því að vera dauð og getur skotið upp kollinum hvenær sem er.
10 Hvaða áhrif ætti þetta að hafa á okkur? Með réttu hefur allt þetta áhrif á hugsun okkar og viðhort til framtíðarinnar. Á hvern veg? Ætti þetta að gera okkur kvíðin, óttaslegin um hvað við munum þurfa að ganga í gegnum? Ættum við að hægja á okkur í prédikunarstarfinu vegna þess að það verkar truflandi á suma í byggðarlagi okkar? Er gild ástæða til að komast í uppnám þegar okkur er hallmælt án saka? Er óhjákvæmilegt að ruddaleg framkoma við okkur ræni okkur ánægjunni af því að þjóna Jehóva? Er einhver óvissa um hver málalokin verði? Nei, alls ekki! Hvers vegna ekki?
11 Við megum aldrei missa sjónar á þeirri staðreynd að boðskapurinn, sem við kunngerum, er ekki upprunninn hjá okkur heldur Jehóva. (Jer. 1:9) Okkur ber skylda til að fylgja hvatningunni: „Ákallið nafn hans. Gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna, . . . um alla jörðina.“ (Jes. 12:4, 5) Hann hefur í vissum tilgangi umborið illa meðferð á fólki sínu, nefnilega ‚til þess að nafn hans yrði kunngert um alla veröld.‘ (2. Mós. 9:16) Við erum að vinna verk sem Jehóva hefur mælt fyrir um og það er hann sem gefur okkur hugrekki til að tala með djörfung. (Post. 4:29-31) Þetta er mikilvægasta, gagnlegasta og brýnasta verk sem hægt er að vinna á þessum lokadögum hins gamla heimskerfis.
12 Þessi vitneskja gefur okkur hugrekki til að taka óbifanlega afstöðu í beinni andstöðu við Satan og þennan heim. (1. Pét. 5:8, 9) Það gerir okkur ‚hughraust og örugg‘ að vita að Jehóva er með okkur, bægir frá hverri ástæðu til að vera óttaslegin frammi fyrir ofsækjendum okkar. (5. Mós. 31:6; Hebr. 13:6) Þó að við munum alltaf reyna að vera háttvís, hyggin og orðvör þegar andstæðingar ógna okkur munum við gera það ljóst að við erum staðráðin í að ‚hlýða Guði framar en mönnum‘ þegar staðið er gegn tilbeiðslu okkar. (Post. 5:29) Þegar heppilegt tækifæri gefst til að verja mál okkar gerum við það. (1. Pét. 3:15) Við sóum hins vegar ekki tíma okkar í þrætur við forherta andstæðinga sem gengur það eitt til að ófrægja okkur. Í stað þess að láta reita okkur til reiði og reyna að svara í sömu mynt þegar þeir rægja okkur eða koma með falskar ásakanir munum við einfaldlega ‚láta þá eiga sig.‘ — Matt. 15:14.
13 Þolgæði okkar í prófraunum er Jehóva velþóknanlegt. (1. Pét. 2:19) Hvaða verði þurfum við að greiða þá velþóknun? Þurfum við að sæta því að þjónusta okkar sé gleðisnauð vegna þess að við mætum hatri og andstöðu? Fjarri lagi! Jehóva lofar að umbuna okkur hlýðnina með „fögnuði og friði.“ (Rómv. 15:13) Jesús hélt áfram að vera glaður andspænis ógurlegum þjáningum vegna „gleði þeirrar, er beið hans.“ (Hebr. 12:2) Sama á við um okkur. Vegna þess hve mikla umbun við fáum fyrir þolgæði okkar ‚erum við glöð og fögnum‘ þó að við lendum í illbærilegum prófraunum. (Matt. 5:11, 12) Jafnvel á raunastundum er þessi gleði í sjálfri sér ástæða til að lofa og heiðra Jehóva til stuðnings boðskapnum um Guðsríki.
14 Er einhver óvissa um hver hin endanlegu málalok verði sem gæti gefið okkur ástæðu til að vera kvíðin eða hikandi? Nei, úrslit baráttunnar milli skipulags Jehóva og skipulags Satans voru ákveðin fyrir löngu. (1. Jóh. 2:15-17) Jehóva mun veita okkur sigur óháð því hversu mögnuð eða mikil andstaðan verður. (Jes. 54:17; Rómv. 8:31, 37) Jafnvel þótt við verðum reynd til fulls er ekkert sem getur komið í veg fyrir að við öðlumst launin. Við höfum ekki ástæðu til að vera „hugsjúkir um neitt“ vegna þess að Jehóva hefur svarað bænum okkar með því að veita okkur frið. — Fil. 4:6, 7.
15 Við þökkum því Jehóva í hvert sinn sem okkur berast fregnir af því að bræðrum okkar hafi verið bjargað úr ofsóknum eða veitt frelsi til að prédika á svæðum þar sem áður voru hömlur á starfi þeirra. Við gleðjumst þegar breyttar aðstæður gefa þúsundum einlægra manna ný tækifæri til að komast í snertingu við boðskapinn um Guðsríki. Við erum sannarlega þakklát þegar Jehóva kýs að veita okkur sigur í átökum við hatursfulla andstæðinga. Við vitum að hann blessar og eflir starf okkar á hvern þann hátt sem er nauðsynlegur til að upphefja hús sitt þar sem sönn tilbeiðsla fer fram og gefa ‚gersemum‘ allra þjóða tækifæri til að ganga þar inn. — Hagg. 2:7; Jes. 2:2-4.
16 Jafnframt gerum við okkur fulla grein fyrir því að óvinur okkar, Satan, er mjög öflugur og að hann muni berjast af krafti gegn okkur alveg fram í það síðasta. Árásir hans geta verið fyrir opnum tjöldum og svívirðilegar, eða lævísar og blekkjandi. Skyndilega geta skollið á ofsóknir á stöðum þar sem við höfum aðeins þekkt frið fram að þessu. Illir andstæðingar geta verið grimmir og óþreytandi í því að þjá okkur þótt við höfum ekkert til saka unnið. Á sínum tíma mun öllum slíkum mönnum verða ljóst að þeir ‚berjast við sjálfan Guð,‘ og hann mun gereyða þeim. (Post. 5:38, 39; 2. Þess. 1:6-9) Þar til að því kemur erum við staðráðin í að halda staðföst áfram að þjóna Jehóva með trúfesti og boða boðskapinn um Guðsríki, hvað sem við þó kunnum að þola. Við erum hamingjusamasta fólkið á jörðinni því að við vitum að ‚þegar við höfum reynst hæf munum við öðlast kórónu lífsins.‘ — Jak. 1:12.