Þjónustusamkoman gerir okkur hæf til sérhvers góðs verks
1 Tilgangur þjónustusamkomunnar er að örva okkur og gera hæf til að taka í ríkari mæli þátt í að boða fagnaðarerindið og gera menn að lærisveinum. (2. Tím. 3:17) En ef við búum okkur ekki almennilega undir samkomuna eða heimfærum ekki það sem við lærum höfum við hverfandi lítið gagn af.
2 Undirbúningur hjálpar okkur að meðtaka fræðsluna enn betur. Farðu yfir ritin, sem notuð verða, og taktu þau með þér svo að þú getir fylgst með í þeim og verið þátttakandi. Hlustaðu vel og skrifaðu minnisatriði til síðari nota.
3 Umsjónarmaður í forsæti kannar vandlega hin áætluðu samkomuatriði. Færum öldungum og safnaðarþjónum er falinn undirbúningur og flutningur þeirra. (om bls. 70) Í söfnuðum með fáa öldunga og safnaðarþjóna má fela öðrum hæfum bræðrum að aðstoða þá. (kmE 10.76, spurningakassinn) Hver ræðumaður ætti að undirbúa sig rækilega, halda sér nákvæmlega við þær leiðbeiningar sem gefnar eru og gæta þess að fara ekki yfir tímann.
4 Samkoman hefst yfirleitt með tilkynningum. Bróðirinn, sem sér um þær, ætti að hafa samband við umsjónarmann í forsæti fyrirfram til að finna út hvað þurfi að koma fram. Það gæti verið bréf frá Félaginu, ráðstafanir til boðunarstarfsins eða að minna á starfsskýrslur. Við fréttum kannski um sjúka sem ætti að heimsækja eða fáum nánari upplýsingar um starfsemi safnaðarins á næstunni. Taktu vel eftir svo þú sért upplýstur og reiðubúinn að leggja þitt af mörkum.
5 Þegar þátttöku áheyrenda er vænst skaltu undirbúa þig með því að lesa yfir efnið og fletta upp ritningarstöðunum. Hugsaðu um hvernig þú getir notað tillögurnar og hvers konar athugasemdir þú getir gefið til að uppörva aðra. Þú gætir nefnt lýsandi dæmi um hagnýtt gildi fræðslunnar með því að segja stuttlega frá reynslu þinni.
6 Þegar sýnikennsla er skaltu reyna að sjá sjálfa(n) þig við svipaðar kringumstæður og hugsa um hvað þú myndir segja. Taktu eftir rökunum og röksemdafærslunni. Reyndu að rifja upp það sem þú sagðir síðast í þess konar aðstöðu og hugleiddu hvernig það sem sýnikennslan fjallar um geti hjálpað þér að ná betri árangri í framtíðinni.
7 Þátttakendur í sýnikennslum og viðtölum ætti að æfa vel fyrirfram. Hver og einn ætti að vita hvað hann ætli að segja og til hvers sé ætlast af honum uppi á sviðinu. Óæfð atriði verða sjaldan til að hvetja eða uppörva áheyrendurna. Sumir koma tilbúnir til að æfa sitt hlutverk uppi á sviðinu strax að loknu Varðturnsnáminu, og láta þá bræðurna, sem annast hljóðnemana, vita hvaða útbúnað þurfi.
8 Stundum er flutt ræða sem fjallar um sérstakar þarfir safnaðarins eða tímabæra grein í Varðturninum. Hlustaðu vandlega. Taktu ráðleggingarnar til þín og reyndu að fara eftir þeim.
9 Við viljum vera sem ker „hæfilegt til sérhvers góðs verks.“ (2. Tím. 2:21) Þjónustusamkoman er ein af þeim ráðstöfunum sem Jehóva gerir til að hjálpa okkur að vera það. Ef við sækjum hana af trúfesti og leggjum okkur í einlægni fram við að nota það sem við lærum hjálpar það okkur örugglega svo að við náum að „fullna þjónustu [okkar].“ — 2. Tím. 4:5.