Hjálpum þeim sem sýna áhuga
1 Þegar engill Jehóva beindi Filippusi til Eþíópíumannsins, sem sýndi einlægan áhuga á sannleiksorði Guðs, bauðst þessi lærisveinn af kærleika til að hjálpa hirðmanninum að skilja það sem hann var að lesa. (Post. 8:26-39) Tökum við á okkur krók til að hjálpa þeim sem sýna áhuga? Við ættum að gera það af því að verkefni það sem við höfum fengið frá Guði felur í sér að gera menn að lærisveinum. (Matt. 28:19, 20) Hvað getum við gert til að hjálpa þeim?
2 Taktu frá tíma í hverri viku til endurheimsókna. Gerðu ráðstafanir til að fara aftur til þeirra sem sýndu áhuga og reyndu að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið í biblíuumræðum ykkar í síðustu heimsókn. Hafðu í huga það markmið að stofna biblíunám. Farðu aftur reglulega til að bjóða nýjustu tölublöðin af Varðturninum og Vaknið! Þegar þú finnur einlægan áhuga gætir þú boðið viðmælanda þínum áskrift.
3 Ef þú ræddir í fyrstu heimsókn um hvernig lífið varð til gætir þú tekið upp þráðinn eitthvað á þessa leið:
◼ „Sumum finnst ástæðulaust að ræða það hvort lífið hafi orðið til við þróun eða sköpun vegna þess að vísindin séu þegar búin að sanna þróun lífsins. Hvað finnst þér um það? [Gefðu kost á svari.] Eins og kemur fram í blaðinu sem þú fékkst hjá mér síðast ríkir mikill ágreiningur meðal vísindamanna um þróunarkenninguna og sumir þeirra hafna henni alveg. En hvers vegna trúa svo margir þróunarkenningunni?“ Notaðu nokkur atriði frá 15. kafla Sköpunarbókarinnar. Ef húsráðandinn sýnir greinilegan áhuga mætti bjóða honum bókina. Að öðrum kosti gætir þú skilið eftir smáritið Hvers vegna þú getur treyst Biblíunni.
4 Þú gætir hafið samræður um mikilvægi boðunar fagnaðarerindisins eitthvað á þessa leið:
◼ „Það er algengt að hitta fólk sem finnst óþarft og jafnvel tilgangslaust að tala um trúmál. Ef til vill hefur trúarbragðasundrungin og -þræturnar í heiminum um aldir stuðlað að þessari skoðun. Líf Jesú snerist þó um trúmál og hann bauð lærisveinum sínum að kenna öðrum það sem hann hafði kennt þeim. [Lestu Matteus 28:19, 20.] Heldur þú að þessi fyrirmæli eigi enn við á okkar tímum og, ef svo er, hverjir eru þá að framfylgja þeim? [Gefðu kost á svari.] Jesús sagðist mundu vera með lærisveinum sínum allt til enda veraldar. Þeir höfðu áður spurt hann um þann tíma. [Lestu Matteus 24:3, 14.] Hverjir boða þennan boðskap um Guðsríki markvisst um alla heimsbyggðina núna?“ Leyfðu húsráðandanum að svara og vektu athygli á myndunum á blaðsíðu 24 og 25 í októbertölublaði Varðturnsins. Leggðu grunninn að annarri endurheimsókn með það í huga að stofna biblíunám.
5 Ef sá sem þáði Vaknið! vill ræða um biblíulegar ástæður fyrir afstöðu okkar til blóðsins mætti nota efni í Rökræðubókinni blaðsíðu 70-6. Bentu á að Biblían fari mjög lofsamlegum orðum um þá sem hlýddu Guði og treystu honum. (Post. 5:29, 32; Rómv. 5:19; Ef. 5:6; Hebr. 11:11b) Vísaðu í bæklinginn Ber Guð í raun umhyggju fyrir okkur? til að sýna kærleika Guðs til mannanna og gerðu ráðstafanir til að koma aftur.
6 Eþíópski hirðmaðurinn viðurkenndi vanhæfni sína til að skilja Ritninguna ef enginn leiðbeindi honum. (Post. 8:31) Filippus veitti honum af kærleika þá hjálp sem hann þurfti á að halda. Við getum sýnt óskvikinn kærleika okkar til annarra með því að hjálpa þeim á sama hátt.