Notum nýju bæklingana vel
1 Það var okkur mikil ánægja að fá tvo nýja bæklinga á landsmótinu okkar „Guðsótti“ í ágúst. Þeir eru verðmæt viðbót við það safn bæklinga sem við þegar höfum og munu, hvor á sínu sviði, vafalaust gagnast okkur mjög vel í boðunarstarfi okkar á komandi mánuðum.
2 Bæklingurinn Hver er tilgangur lífsins? Hvernig getur þú fundið hann? kom fyrst út í fyrra á erlendum málum og hefur reynst vel í boðunarstarfinu. Fyrr eða síðar velta nær allir fyrir sér hver sé tilgangur lífsins og bæklingurinn hjálpar fólki að sjá að það er hvorki óeðlilegt né vonlaust að vænta þess að geta fundið svör við svo mikilvægri grundvallarspurningu.
3 Í nóvember leggjum við áherslu á að bjóða þennan bækling. Hann má nota við fjölmörg tækifæri, bæði í formlegu og óformlegu vitnisburðarstafi. Auðvelt er að beina samtalinu inn á brautir sem bæklingurinn fjallar um og vekja síðan athygli á því sem hann segir um efnið. Fyrstu þrír kaflarnir hafa til dæmis að geyma fjölmargar vandlega valdar tilvitnanir í þekkta og viðurkennda fræðimenn. En til þess að nota þennan bækling af leikni þurfum við að þekkja innihald hans vel. Ef þú ert ekki búinn að lesa allan bæklinginn vandlega skaltu því ekki láta það dragast öllu lengur.
4 Hinn bæklingurinn, sem við fengum á landsmótinu, heitir Þegar ástvinur deyr. Hann ætti að höfða til fólks í öllum stéttum þjóðfélagsins af því svo margir hafa syrgt látinn ástvin. Í honum eru myndir sem grípa augað og ættu að gera okkur auðvelt að útbreiða hann. Hin áhrifamikla mynd á blaðsíðu 29 af upprisu Lasarusar sýnir ‚brennandi löngun Jesú til að bæta að fullu það tjón sem dauðinn veldur.‘ Næsta heilsíðumynd sýnir fólk fagna þegar látnir eru reistir upp í nýja heiminum. Þetta mun sannarlega ylja þeim sem syrgja látinn ástvin um hjartaræturnar.
5 Þessi bæklingur getur komið að geysimiklu gagni við að hughreysta þá sem misst hafa ástvin. Hann er hannaður fyrir umræður í samtalsformi. Spurningar, sem draga fram aðalatriðin, er að finna í ramma í lok hvers hluta frekar en neðst á hverri blaðsíðu. Þú getur notað þessar spurningar, sem birtast undir titlinum „Íhugunarefni,“ á hvern þann hátt sem þér finnst koma nemanda þínum að mestu gagni.
6 Þegar þú heimsækir fólk skaltu velja vandlega hvaða atriði í bæklingnum þú ætlar að nota. Þér kann að finnast það við hæfi að sýna húsráðandanum efnisyfirlitið á blaðsíðu 2 og biðja hann um að láta í ljós hvað af þessu efni veki áhuga hans. Vertu næmur fyrir þörfum hvers einstaklings. Láttu hann tjá tilfinningar sínar og sýndu síðan hvernig bæklingurinn veitir huggun. Sérhver hluti bæklingsins notar í ríkum mæli biblíutexta sem eru grundvöllurinn að trú okkar.
7 Millifyrirsögnin á blaðsíðu 5, „Það er til raunveruleg von,“ dregur fram hina hughreystandi von sem Biblían gefur um hina dánu. Það efni ætti að vekja hjá mönnum löngun til að ræða efnið undir kaflaheitinu „Örugg von látinna“ sem er að finna á blaðsíðu 26-31. Í rammanum á blaðsíðu 27 eru einnig fleiri „Textar sem hughreysta.“ Syrgjandi húsráðandi mun fljótlega koma auga á að Jehóva sé sannarlega „Guð allrar huggunar.“ — 2. Kor.1:3-7.
8 Á nærgætinn hátt fjalla rammagreinarnar, sem skotið er inn á milli, um mismunandi viðbrögð við dauða ástvinar. Þær sýna hvernig ráða megi við sorgina og hvernig aðrir geti hjálpað á svo sársaukafullum stundum. Á blaðsíðu 25 er rammagrein með fyrirsögninni „Börnum hjálpað að takast á við dauðann.“ Efnið þar ætti að reynast mikil hjálp foreldrum sem verða að kljást við þennan vanda.
9 Hafðu aukaeintak við höndina og notaðu það þegar þú gefur óformlegan vitnisburð. Þú kannt að vilja heimsækja útfararstofur á starfssvæði þínu, ef einhverjar eru, til að kanna hvort þær vilji hafa eintök hjá sér til að hughreysta fjölskyldur sem missa ástvini. Þú gætir líka háttvíslega tekið fólk tali sem er að vitja leiðis ástvina í kirkjugarði.
10 Það er okkur fagnaðarefni að Jehóva skuli vera Guð „sem huggar hina beygðu.“ (2. Kor. 7:6) Við álítum það sérréttindi að mega eiga hlutdeild í að „hugga alla hrellda.“ — Jes. 61:2.