Mikið gefið — mikils krafinn
1 Sannarlega njótum við mikillar velþóknunar með því að hafa sannleikann! Okkur hefur verið treyst fyrir fagnaðarerindinu vegna þess að við höfum vígt okkur Jehóva. (1. Þess. 2:4) Það traust leggur á okkur aukna ábyrgð. Jesús sagði: „Hver sem mikið er gefið, verður mikils krafinn.“ — Lúk. 12:48b.
2 Vissulega eru þetta orð að sönnu! Þar sem við höfum öll hlotið þá blessun að komast til þekkingar á orði Guðs, tengjast dásamlegu bræðrafélagi og eignast stórkostlega von er með sanni hægt að segja að okkur sé mikið gefið. Þess vegna er sanngjarnt að á móti séum við mikils krafin.
3 Líttu kröfurnar ávallt réttu auga: Sumir hafa ályktað að of mikils sé krafist af okkur. Sem höfuð kristna safnaðarins ákvarðar Jesús hverju þörf er á til að söfnuðurinn starfi rétt. (Ef. 4:15, 16) Hann fullvissar okkur um að ‚ok hans sé ljúft og byrði hans létt.‘ (Matt. 11:28-30) Hann tekur af kærleika tillit til takmarkana fólks. (Lúk. 21:1-4) Ef við gefum okkar besta, sama hvert magnið er, munum við öðlast blessun. — Kól. 3:23, 24.
4 Spyrðu sjálfan þig: ‚Skipa hagsmunir Guðsríkis fyrsta sætið í lífi mínu? Nota ég tíma minn og eigur á þann hátt sem er nafni Guðs til lofs og öðrum til gagns? Er reynsla mín sú að þjónustan við Jehóva veiti mér mesta gleði frekar en eigingjörn ánægja af efnislegum hlutum?‘ Heiðarlegt svar okkar við þessum spurningum leiðir í ljós hvatirnar sem búa í hjörtum okkar. — Lúk. 6:45.
5 Forðastu að láta freistast til að gera illt: Aldrei áður hefur verið svona mikið um freistingar og þrýsting til sérdrægni, græðgi og ástar á holdlegum lystisemdum. Dag hvern mæta okkur siðferðilegar ögranir með freistingum til að láta undan. Til að standast þessar ögranir verðum við að biðja Jehóva að hjálpa okkur. (Matt. 26:41) Með anda sínum getur hann gert okkur sterk. (Jes. 40:29) Það hjálpar mikið að lesa orð Guðs daglega. (Sálm. 1:2, 3) Sjálfsagi og sjálfstjórn gegnir líka veigamiklu hlutverki. — 1. Kor. 9:27.
6 Ekki nægir að elska það sem gott er heldur verðum við einnig að hata hið illa. (Sálm. 97:10) Það þýðir að rækta ekki með sér ákafa löngun í það sem illt er. Orðskviðirnir 6:16-19 telja upp sjö hluti sem Jehóva hatar. Augljóslega verður sá sem á að þóknast Jehóva líka að hata slíka hluti. Þar sem við höfum öðlast þá blessun að komast til nákvæmrar þekkingar á sannleikanum ættum við alltaf að vilja breyta í samræmi við þá þekkingu og halda huga okkar við góða hluti.
7 Það er viðeigandi að biðja um aðstæður sem leyfa okkur alltaf að vera ‚síauðug í verki Drottins.‘ (1. Kor. 15:58) Margir hafa fundið að ásetin dagskrá í þjónustu Jehóva er vernd vegna þess að hún leyfir lítinn tíma til að eltast við einskis verða hluti.
8 Það sem Jehóva krefst af okkur er mjög sanngjarnt þegar á allt er litið. (Mík. 6:8) Við höfum mikla ástæðu til að vera þakklát fyrir sérhver þjónustusérréttindi. (Ef. 5:20) Við höldum því áfram að ‚vinna kappsamlega og leggja hart að okkur,‘ í trausti þess að umbun okkar verði óendanlega meiri en nokkurt það sem krafist er af okkur. — 1. Tím. 4:10.