Frá landsmótinu berst skilmerkilegt kall! — Lofum Jehóva glöð frá degi til dags!
1 „Gefi lúðurinn óskilmerkilegt hljóð [„kall,“ NW], hver býr sig þá til bardaga?“ spurði Páll postuli. (1. Kor. 14:8) Var kallið, sem barst út á landsmótinu „Glaðir menn sem lofa Guð,“ hátt og skýrt? Já, svo sannarlega. ‚Lofið Jehóva glaðir dag hvern‘ var boðskapurinn sem ýtti við okkur. Hrærði það við hjarta þínu að heyra þetta kall til athafna? Á mótsdagskránni komu fram fjölmargar kröftugar ástæður fyrir því að lofa án afláts eilífðarkonunginn, Jehóva. — Sálm. 35:27, 28.
2 Stórfenglegir himnarnir kunngera dýrð Jehóva ‚dag eftir dag.‘ (Sálm. 19:2-4) Ef raddlaus, lífvana sköpun lofar Jehóva án afláts ættum við þá sem skynsemigæddir menn ekki að finna okkur knúna til að hefja ávallt upp raust okkar og lofa hann fyrir óviðjafnanlega eiginleika hans og framkvæmdir? Hver verðskuldar fremur glaðlegt lof okkar en stórfenglegur skapari okkar? — Sálm. 145:3, 7.
3 Dag eftir dag: Innblásinn sálmaritarinn skrifaði: „Kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag. Því að mikill er [Jehóva] og mjög vegsamlegur.“ (Sálm. 96:2, 4) Á þetta aðeins við brautryðjendur? Nei! Þýðir þetta að við ættum öll að tala við aðra um Jehóva hvenær og hvar sem við getum, jafnvel þá daga sem við erum ekki úti í boðunarstarfinu? Já! Þörfin á því að lofa Jehóva dag hvern og segja öðrum frá hjálpráði hans er mjög brýn. Fólk verður að vita að Jehóva sé eilífðarkonungurinn og að hann hafi falið dýrlegum syni sínum, Jesú Kristi, stjórn heimsins. Kærleikur til Jehóva og til manna mun láta okkur halda áfram að tala um þennan boðskap og um hjálpræðisráðstöfun Guðs hvar sem fólk er að finna. — Sálm. 71:15.
4 Sérhvern dag þjónustu sinnar á jörðinni var Jesús Kristur besta fyrirmyndin í að lofa Jehóva óhikað. Hann sagði: „Ég vegsama þig, faðir, herra himins og jarðar.“ (Matt. 11:25) Jesús var trúr sínum eigin orðum og lofaði Jehóva opinberlega hvar sem hann var. Og hvar sem fólk safnaðist saman — jafnt í samkundum, musterinu í Jerúsalem, á fjallatindum eða á strönd — lofaði hann Jehóva. Ef við fetum nákvæmlega í fótspor Jesú með því að upphefja Jehóva opinberlega jafnt og þétt dag frá degi gefur það góðan og ánægjulegan árangur.
5 Kallinu svarað: Muntu svara kallinu til að lofa Jehóva opinberlega dag hvern? Mundu að aldur er engin hindrun. Sálmur 148:12 býður yngismönnum, yngismeyjum, öldungum og ungum sveinum að lofa Jehóva. Ætlið þið börn og unglingar að lofa Jehóva meðal skólafélaga og kennara á þessu nýja skólaári? Þið sem fullorðin eruð, heyra vinnufélagar ykkar um Jehóva og fyrirætlanir hans þegar ykkur gefast viðeigandi tækifæri til að tala við þá? Við ættum öll að gera tal um Jehóva að eins ríkum þætti í lífi okkar og að anda og borða. Jafnvel þótt sinnulaust fólk taki ekki eftir orðum okkar er sá til sem gerir það og hann mun umbuna okkur. — Mal. 3:16.
6 Er endir heimskerfisins nálgast berst þetta kall út til endimarka jarðar: „Halelúja!“ sem þýðir „Lofið Jah, þið lýðir!“ (Sálm. 106:1) Megi lofgerðaróp okkar verða hærri með hverjum degi sem líður til þess að allir megi komast að raun um að sá sem heitir Jehóva er hinn hæsti yfir allri jörðinni. — Sálm. 83:19.