Rannsökuð af Jehóva – hví gagnlegt?
1 Allir vilja búa við góða heilsu. Hún gerir lífið miklu skemmtilegra. Margir sem búa við góða heilsu fara samt af og til í læknisskoðun. Hvers vegna? Þeir leitast við að fá heilsuvandamál sín, ef einhver eru, greind á byrjunarstigi til að vinna megi bug á þeim. Það er jafnvel enn mikilvægara að standa vörð um andlega heilsu okkar. Velþóknun Jehóva er háð því að við séum „heilbrigðir í trúnni.“ — Tít. 1:13.
2 Núna er rétti tíminn til að láta Jehóva rannsaka sig. Af hverju? Af því að Jehóva er í sínu heilaga musteri og hann er að rannsaka hjörtu allra manna. (Sálm. 11:4, 5; Orðskv. 17:3) Eins og Davíð biðjum við Jehóva um rækilega rannsókn: „Rannsaka mig, [Jehóva], og reyn mig, prófa hug minn og hjarta.“ — Sálm. 26:2.
3 Við verðum að vera á verði gegn þeirri ógnun við andlega heilsu okkar sem kemur innan frá vegna okkar ófullkomna holds. Orðskviðirnir 4:23 ráðleggja: „Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru, því að þar eru uppsprettur lífsins.“
4 Spillti, siðlausi heimurinn í kringum okkur getur líka verið hættulegur andlegri heilsu okkar. Ef við leyfum okkur að verða of nákomin þessu illa heimskerfi gætum við farið að hugsa eins og það og tileinka okkur veraldleg viðhorf. Við gætum líka tekið upp veraldlega lífshætti og andi heimsins borið okkur ofurliði. — Ef. 2:2, 3.
5 Satan kann að nota ofsóknir eða beina andstöðu til að reyna að leggja andlega heilsu okkar í rúst. Miklu oftar beitir hann þó lymskulega heimsins lystisemdum til að tæla okkur. Pétur postuli hvetur okkur til að ‚vera algáð og vaka‘ vegna þess að Satan er „sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt.“ Við erum eindregið hvött til að ‚standa gegn honum og halda áfram að vera stöðug í trúnni.‘ — 1. Pét. 5:8, 9.
6 Full þörf er á því að vernda andlega heilsu okkar, halda trú okkar sterkri og efla hana á hverjum degi. Páll postuli mælir með að við reynum sífellt trú okkar. Alveg eins og við tökum viturlega til okkar hagnýt læknisráð, hlustum við á Jehóva þegar andleg rannsókn hans leiðir í ljós vandamál sem bæta þarf úr. Það gerir okkur kleift að fá lagfæringu á því sem úrskeiðis hefur farið hjá okkur. — 2. Kor. 13:5, 11.
7 Jehóva er hinn mikli rannsóknari. Greining hans er alltaf hárrétt. Hann veit nákvæmlega hvers við þörfnumst. Með orði sínu og hinum ‚trúa þjóni‘ mælir hann fyrir um heilnæmt andlegt mataræði. (Matt. 24:45; 1. Tím. 4:6) Ef við borðum þessa næringarríku andlegu fæðu reglulega heima og á samkomum getum við haldið áfram að vera andlega heilbrigð. Regluleg andleg áreynsla í boðunarstarfinu og annarri kristinni starfsemi er einnig gagnleg. Þess vegna erum við fús að láta Jehóva rannsaka okkur reglulega í fullu trausti þess að hann muni halda okkur við hina bestu andlegu heilsu.