Hver mun hlusta á boðskap okkar?
1 Upplýsingar hellast núna yfir fólk sem aldrei fyrr, en stór hluti þeirra er lítils virði og jafnvel villandi. Afleiðingin er sú að mörgum finnst upplýsingaflóðið vera að kaffæra þá og okkur reynist erfitt að fá menn til að hlýða á boðskapinn um Guðsríki. Þeir gera sér ekki ljóst hve jákvæð áhrif það getur haft á þá að hlýða á orð Guðs. — Lúk. 11:28.
2 Við fögnum því að víða um heim skipta þeir tugum þúsunda sem hlusta á þennan boðskap og þiggja boð okkar um heimabiblíunám. Annars staðar eru móttökurnar hins vegar ekki nærri eins góðar. Margar heimsókna okkar í boðunarstarfinu bera ekki jákvæðan árangur og okkur kann að vera spurn hverjir muni hlusta á boðskap okkar.
3 Við verðum að gæta þess að missa ekki móðinn. Páll sagði: „‚Hver sem ákallar nafn [Jehóva], mun hólpinn verða.‘ En hvernig eiga þeir að ákalla þann . . . sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki? Svo er og ritað: ‚Hversu fagurt er fótatak þeirra, sem færa fagnaðarboðin góðu.‘“ (Rómv. 10:13-15) Ef við sáum sæði Guðsríkis af dugnaði lætur Guð það vaxa í þeim sem eru af hjarta heiðarlegir. — 1. Kor. 3:6.
4 Reglulegar endurheimsóknir hafa úrslitaþýðingu: Á svæðum, þar sem fáir virðast hlusta á boðskap okkar, þurfum við að einbeita okkur að því að hlúa að hverjum þeim áhuga sem við finnum, hvort sem fólk þiggur rit eða ekki. Ályktum ekki í fljótræði að engu verði um þokað. Þegar við sáum sæði vitum við ekki hvort sáningin heppnast. (Préd. 11:6) Ef við förum í endurheimsókn undir það búin að sýna eitthvað frá Biblíunni, jafnvel aðeins stuttlega, getum við ef til vill náð til hjarta viðmælanda okkar. Við getum skilið eftir smárit eða boðið nýjustu blöðin. Um síðir gæti okkur tekist að sýna hvernig biblíunám fer fram. Það mun koma okkur ánægjulega á óvart að sjá hversu mjög Jehóva blessar viðleitni okkar. — Sálm. 126:5, 6.
5 Smárit var skilið eftir hjá konu sem sýndi svolítinn áhuga. Hún fannst ekki heima fyrr en að tveim mánuðum liðnum og þá var hún of upptekin til samræðna. Hún fékk sama smáritið aftur. Þrátt fyrir endurteknar tilraunir boðberans til að hitta hana heima tók það aðra þrjá mánuði að ná tali af henni en þá var hún veik. Systirin fór aftur næstu viku og átti þá við hana stuttar samræður um smáritið. Þegar systirin kom þangað aftur viku síðar lét konan í ljós einlægan áhuga á boðskapnum um Guðsríki. Breyttar aðstæður í lífi hennar gerðu hana sér meðvitandi um andlega þörf sína. Biblíunám hófst og hún nam af eldmóði í hverri viku þar á eftir.
6 Það þarf að hlúa að öllu sem við viljum sjá vaxa, hvort sem það eru blóm, grænmeti eða áhugi á boðskapnum um Guðsríki. Það tekur tíma, áreynslu, umhyggju og staðfestu í að gefast ekki upp. Síðastliðið ár var meira en þriðjungur milljónar manna, sem sæði Guðsríkis hafði skotið rótum í, skírður. Ef við höldum áfram að prédika finnum við örugglega marga enn sem munu hlusta á boðskap okkar. — Samanber Galatabréfið 6:9.