‚Hjálp á réttum tíma‘
1 Það er sannarlega upplífgandi að fá hjálp einmitt þegar við þurfum á henni að halda. (Hebr. 4:16) Á landsmótinu „Friðarboðberar Guðs“ glöddumst við stórlega þegar okkur voru gefin sérstök hjálpargögn á réttum tíma.
2 Nýja bókin, Lykillinn að hamingju fjölskyldunnar, kom á hagkvæmum tíma því að um allan heim á fjölskyldan sem slík mjög undir högg að sækja. Nýja bókin beinir kastljósinu að fjórum grundvallaratriðum sem stuðla að hamingjuríku fjölskyldulífi. Þau eru (1) sjálfstjórn, (2) það að viðurkenna yfirráð, (3) góð tjáskipti og (4) kærleikur. Áminningin, sem sett er fram í Fjölskylduhamingjubókinni, hjálpar öllum fjölskyldum, sem taka hana til sín, að finna frið Guðs. Takið frá tíma til að lesa nýju bókina vandlega og til að nota hana í fjölskyldunáminu ef tungumálakunnátta ykkar leyfir.
3 Nýi bæklingurinn, Hvers krefst Guð af okkur?, kemur á réttum tíma til að hraða því starfi að gera menn að lærisveinum. Þó að nota megi hann einkum til að hjálpa þeim sem eiga erfitt með lestur, mun líka margt fullorðið fólk og börn hafa gagn af einföldum útskýringum hans á undirstöðukenningum Biblíunnar. Hann kann að reynast einmitt það sem þarf til að hefja biblíunám sem verður eins og stökkpallur yfir í nám í Þekkingarbókinni. Þetta hjálpargagn á örugglega eftir að hjálpa mörgum að gera sér ljóst hvernig þeir geti öðlast mikla blessun með því að gera það sem Guð krefst.
4 Tvö hjálpargögn fengum við líka í íslenskri þýðingu á landsmótinu, bókina Spurningar unga fólksins — svör sem duga og smáritið Hvernig hefja má biblíusamræður og halda þeim áfram. Efni þessara rita þekkjum við flest en engu að síður er gagnlegt að taka sér tíma til að lesa þau aftur, einkum með það í huga að nota þau vel í boðunarstarfinu. Bókina skyldi líka nota í fjölskyldunáminu þar sem börn eða unglingar eru á heimilinu, jafnvel þótt farið hafi verið yfir hana alla eða að hluta til áður á einhverju erlendu máli. Í mars 1997 verður síðan lögð sérstök áhersla á að bjóða hana almenningi og við viljum þekkja hana mjög vel þegar að því kemur.
5 Davíð orðaði tilfinningar okkar afburðavel þegar hann sagði ‚sig ekkert bresta, sál sína endurnærða og bikar sinn barmafullan.‘ (Sálm. 23:1, 3, 5) Við hlökkum til þess að láta þessa dásamlegu andlegu hjálp ganga áfram til annarra sem þrá í einlægni að þekkja og þjóna hinum sanna Guði, Jehóva.